Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ríkisstjórnin fundar með Ungmennaráði heimsmarkmiðanna

Ríkisstjórnin átti í dag fund með Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á fundinum kynntu fulltrúar ungmennaráðsins fyrir ríkisstjórn tillögur sínar að framgangi heimsmarkmiðanna hér á landi. Um er að ræða 40 tillögur á sviði menntamála, heilbrigðismála og umhverfismála. Í framhaldinu áttu ráðherrar samtal við ungmennaráðið um tillögurnar og sýn ungmennanna á verkefnið framundan.

„Tillögur ungmennanna eru mikilvægar og fundurinn var okkur ráðherrum mikilvægur innblástur fyrir verkefnin framundan. Við ræddum hugmyndir þeirra og nálgun á stóru áskoranirnar framundan sem eru að gera alla framleiðslu og neyslu sjálfbæra og hvernig við getum bætt heilbrigði og menntun okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna var stofnað árið 2018 en hlutverk þess er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að koma sínum áherslumálum á framfæri. Þá veitir ungmennaráðið stjórnvöldum aðhald við innleiðingu markmiðanna. Ráðið er skipað tólf fulltrúum á aldursbilinu 13-18 ára víðsvegar af landinu. Það kemur saman sex sinnum á ári og fundar þess á milli í gegnum fjarfundabúnað. Þá fundar ungmennaráðið árlega með ríkisstjórn.

Tillögur ungmennaráðsins má lesa í heild hér

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum