Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Þrjú ný álit á sviði sveitarstjórnarmála

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur síðustu daga birt þrjú ný álit á sviði sveitarstjórnarmála og snúa þau að málum tengdum sveitarfélögunum Borgarbyggð, Skútastaðahreppi og Langaneshreppi.

Ráðuneytið hefur eftirlitshlutverk með stjórnsýslu sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Eftirlitið fer til að mynda fram við meðferð kærumála, meðferð mála sem lúta að fjármálum sveitarfélaga eða við staðfestingu reglna sveitarfélaga. Ráðuneytið getur einnig haft frumkvæði að taka til umfjöllunar mál sem tengjast stjórnsýslu sveitarfélaga. Eftir slíka meðferð er hægt að gefa út leiðbeiningar um túlkun laga og stjórnsýslu, álit um lögmæti athafna á vegum sveitarfélaga eða fyrirmæli til sveitarfélaga. Eftirlit ráðherra takmarkast þó m.a. við stjórnsýslu sem fram fer á vegum sveitarfélaga sem öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með.

Leiðbeiningar og álit varðandi stjórnsýslu sveitarfélagsins Borgarbyggðar á sviði skipulags- og mannvirkjamála

Fyrsta álitið snýr að stjórnsýslu í sveitarfélaginu Borgarbyggð. Ráðuneytið hafði frumkvæði að því að taka málið til efnislegrar skoðunar eftir að ábendingar og kvartanir höfðu borist ráðuneytinu um brotalamir í stjórnsýslu skipulags- og mannvirkjasviðs sveitarfélagsins Borgarbyggðar. Þær sneru m.a. að erindum sem hafi ekki verið svarað, málshraða við meðferð mála og að afgreiðsla mála hafi ekki verið í samræmi við lög.

Í áliti ráðuneytisins eru veittar leiðbeiningar um hvað felst í eftirlitshlutverki sveitarstjórnar með stjórnsýslu þess og til hvaða sjónarmiða skuli líta þegar lagt er mat á hvort og hvenær skylda myndast hjá sveitarstjórn að grípa til aðgerða vegna ólögmætrar stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Í áliti ráðuneytisins segir að alvarlegir og kerfisbundnir annmarkar hafi verið í stjórnsýslu sveitarfélagsins hvað varðar mannvirkja- og skipulagssvið þess og að sveitarstjórn beri skylda til að kynna sér þau mál sem rakin eru í álitinu og grípa til viðeigandi aðgerða. Í ljósi þess að sveitarfélagið hafi upplýst ráðuneytið um margvíslegar úrbætur, sem eiga að koma í veg fyrir að slíkir annmarkar endurtaki sig, telur ráðuneytið ekki tilefni til að gefa sveitarfélaginu fyrirmæli um að koma stjórnsýslu sinni í lögmætt horf.

Ráðuneytið mun fylgja málinu eftir og kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu í byrjun árs 2022 um stöðu þeirra úrbóta sem sveitarfélagið hefur gripið til og mati sveitarstjórnar á því hvort að til hafi tekist að koma í veg fyrir þá kerfisbundnu annmarka á skipulags- og mannvirkjasviði sveitarfélagsins sem lýst hefur verið í álitinu.

Leiðbeiningar og álit varðandi framkvæmd fundar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps

Í öðru áliti er fjallað um kvörtun sem ráðuneytinu barst vegna framkvæmd fundar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Í málinu var deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarfélagsins um að loka sveitarstjórnarfundi þegar til umræðu var beiðni um að sveitarfélagið afturkallaði útgáfu stöðuleyfis á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga, en félagið hafði kært ákvörðun sveitarfélagsins um útgáfu leyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í álitinu er fjallað nánar um 16. gr. sveitarstjórnarlaga og hvaða ástæður geta talist nægilega brýnar og réttmætar til að uppfylla skilyrði ákvæðisins. Er m.a. rakið að ákvæðið byggi á mikilvægum lýðræðissjónarmiðum, væri ætlað að tryggja opna og gagnsæja stjórnsýslu sveitarfélaga og að túlka þurfi allar undantekningar frá henni með þröngum hætti.

Í álitinu eru reifuð til leiðbeiningar þau sjónarmið sveitarfélagsins að sérstakar ástæður hafi verið fyrir lokun fundarins þar sem málið varðaði eingöngu lagaleg álitaefni og jafnframt að málshefjandi hefði haft samskipti við sveitarstjórnarfulltrúa á fundi sveitarstjórnar. Í leiðbeiningunum kemur fram að framangreindar ástæður teljist ekki nægilega brýnar og réttmætar til að sveitarstjórn hafi verið heimilt að loka fundi sínum.

Ráðuneytið tók jafnframt til skoðunar þær skýringar sveitarfélagsins að lokun fundarins hafi verið heimil þar sem málefnið sem var til umfjöllunar varðaði upplýsingar sem upplýsingaréttur almennings nær ekki til skv. upplýsingalögum og gerði ráðuneytið ekki athugasemdir við það mat sveitarstjórnar. Í álitinu gerir ráðuneytið aftur á móti athugasemd við að sveitarfélagið hafi látið hjá líða að bóka um lokun fundarins og telur það ámælisvert.

Að öðru leyti telur ráðuneytið ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.

Leiðbeiningar og álit varðandi upplýsingarétt sveitarstjórnarmanna í Langanesbyggð

Þriðja álitið fjallar um kvartanir sveitarstjórnarfulltrúa Langanesbyggðar vegna meintrar tregðu sveitarfélagsins við að svara beiðnum þeirra um aðgang að tilteknum gögnum. 

Í álitinu eru veittar leiðbeiningar um túlkun 28. gr. sveitarstjórnarlaga, hvað felist í upplýsingarétti sveitarstjórnarmanna og þeim takmörkunum á upplýsingaréttinum sem fram komi í ákvæðinu. Fjallað er um skilyrði þess að gögn þurfa að liggja fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins og hvað telst vera eðlilegur aðgangur sveitarstjórnarfulltrúa að gögnum og starfsemi sveitarfélags. Jafnframt eru veittar frekari leiðbeiningar um þau sjónarmið sem sveitarfélaginu hafi borið að hafa í huga við afgreiðslu málsins. 

Í álitinu er því beint til sveitarfélagsins að huga nánar að ákvæði 3. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga og mæla skýrar fyrir um fyrirkomulag upplýsingaréttar kjörinna fulltrúa, í ljósi þess að mikill og viðvarandi ágreiningur virðist vera um aðgang að gögnum og starfsemi sveitarfélagsins.

Fram kemur að þar sem sveitarfélagið hafi ekki lagt mat á hvort að því bæri skylda til að afgreiða umræddar fyrirspurnir, sbr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga, hafi sveitarfélaginu borið að afgreiða þær svo fljótt sem auðið var og tilkynna um tafir á því að umbeðin gögn yrðu afhend, ástæður tafanna og hvenær gögnin yrðu tilbúin. Því hafi meðferð sveitarfélagsins á fyrirspurnum sveitarstjórnarmannanna að þessu leyti ekki verið í samræmi við 28. gr. sveitarstjórnarlaga eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið er hvatt til þess að huga að þeim sjónarmiðum sem fram komi í álitinu. Ráðuneytið telur þó ekki ástæðu til frekari aðgerða þar sem sveitarfélagið hafi þegar svarað umræddum fyrirspurnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira