Hoppa yfir valmynd
9. september 2021 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Niðurlagning NMÍ: Verkefni stofnunarinnar komin í farveg

Vegna niðurlagningar á Nýsköpunarmiðstöð Íslands vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri um endurskipulagningu fyrri verkefna stofnunarinnar:

Stofnunin var lögð niður þann 1. júlí sl. í kjölfar gildistöku nýrra laga um opinberan stuðning við nýsköpun. Með lögunum voru gerðar umfangsmiklar breytingar á opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Endurskipulagningu á verkefnum stofnunarinnar er að mestu lokið. Þegar breytingunum verður að fullu lokið verða um 300 milljónir króna árlega eftir í ríkissjóði.

Fjölmörg verkefni sem NMÍ sinnti áður færast til nýstofnaðs Tækniseturs en önnur verkefni verða í höndum stofnana á borð við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Ríkiskaup, Rannís og Hafrannsóknarstofnun en einnig má nefna háskóla og þekkingarsetur víðsvegar um landið. 

Stofnun Tækniseturs

 • Tæknisetur ehf. tók til starfa í júlí sl. Félagið er óhagnaðardrifið og að fullu í eigu ríkisins. Því er ætlað að vera samstarfsaðili fyrir háskóla, sprota, stofnanir, klasa og fyrirtæki á sviði tæknigreina með því að veita aðgang að tækniinnviðum og viðeigandi sérfræðiþekkingu er gagnast aðilum til rannsókna og vöruþróunar. Félagið sér möguleg tækifæri í að nýta kosti deilihagkerfis til að auka skilvirkni og samstarf í hátækni og verðmætasköpun.
 • Tæknisetur tók yfir allan tækjabúnað og hluta starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þ.e. Efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins (Rb) og Frumkvöðlaseturs NMÍ á sviði tæknigreina.
 • Tæknisetur byggir því á sterkum grunni fjögurra áratuga reynslu á sviði efnistækni, lífvísinda, orkutækni og rannsókna í byggingariðnaði og samfella í verkefnum þessara eininga er tryggð. Um er að ræða valdar þjónustuprófanir, rannsóknarverkefni í samstarfi við innlenda sem erlenda aðila og samstarf við fjölmörg fyrirtæki og sprota í innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum m.a. tengdum umhverfislausnum, hringrásarhagkerfi og fjórðu iðnbyltingunni.

Svafa Grönfeldt, prófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Boston, verður Tæknisetri til ráðgjafar um alþjóðlegt samstarf en stjórnina skipa:

 • Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures og frumkvöðull, stjórnarformaður
 • Sigurður Magnús Garðarsson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands
 • Ari Kristinn Jónsson, fv. rektor Háskólans í Reykjavík
 • Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
 • Þór Sigfússon, stjórnarformaður Sjávarklasans 

Fræðsla og rannsóknir í byggingariðnaði

 • Samkomulag hefur verið gert við Háskólann í Reykjavík um áframhaldandi stuðning við rannsóknir sem áður fóru fram við Rannsóknastofu byggingariðnaðarins hjá NMÍ, svo sem rannsóknir á slitþolinni steypu og rannsóknir tengdar raka- og mygluskemmdum.
 • Nýr sjóður á sviði mannvirkjarannsókna er í lokaundirbúningi í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Sjóðurinn mun heyra undir félagsmálaráðuneyti og hafa það hlutverk að efla rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði mannvirkja, með áherslu á samfélagslegar áskoranir. Sem dæmi um slíkar áskoranir má nefna rakaskemmdir í byggingum og hátt kolefnisspor mannvirkja. Stefnt er að því að auglýst verði eftir umsóknum í sjóðinn í september.
 • Útgáfa Rb-blaða og annars fræðsluefnis fluttist til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), en þar verður útgáfa blaðanna þróuð í takti við þarfir hagaðila.

Verkefni Efnagreiningar

 • Starfsemi Efnagreiningar fluttist til Hafrannsóknastofnunar í lok árs 2020. Markmið þeirrar sameiningar var að ná fram auknum samlegðaráhrifum í þjónustumælingum, meðal annars umhverfismælingum í lofti, á láði og á legi í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur.

Verkefni frumkvöðla og fyrirtækja

 • Fjölmörg verkefni í þágu frumkvöðla og fyrirtækja halda áfram með breyttri tilhögun, m.a. í gegnum fyrirhugaða Nýsköpunargátt, klasastefnu, aðgerðaáætlun Byggðaáætlunar og starfsemi víða um landið.
 • Nýsköpunargátt verður rafræn gagnaveita sem heldur utan um upplýsingar um styrkjakerfi og annan opinberan stuðning. Unnið er að því að koma gáttinni í gagnið í nánu samstarfi við hagaðila hjá stofnunum og á einkamarkaði. Þetta er liður í því að móta framtíðarfyrirkomulag um opinberan stuðning og leiðsögn til frumkvöðla á fyrstu stigum.
 • Nokkur verkefni í þágu frumkvöðla og fyrirtækja voru flutt til annarra stofnana eða sjóða, svo sem Rannís, Menntavísindastofnunar og Ríkiskaupa, nokkur verkefni höfðu runnið sitt skeið á enda og nokkrum verkefnum hefur verið hætt.
 • Klasastefna fyrir Ísland var kynnt á vorþingi 2021 og í kjölfar hennar hefur stýrihópur um forgangsröðun aðgerða og áherslna í anda stefnunnar hafið störf.
 • Lögð er sérstök áhersla á aukinn stuðning við nýsköpunar- og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni. Í þeim tilgangi voru m.a. settir á fót nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina undir heitinu Lóa og fór fyrsta úthlutun fram fyrr á þessu ári. Ráðgert er að næsta úthlutun verði á vormánuðum 2022.
 • Framlög til stafrænna smiðja (e. Fab Labs) víðsvegar um landið hafa verið aukin og samningar gerðir um rekstur smiðjanna í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti og fulltrúa viðkomandi svæða.
 • Þá voru lagðar inn tillögur í nýja aðgerðaáætlun Byggðaáætlunar um stuðningsverkefni við nýsköpun á landsbyggðinni í samstarfi ANR við atvinnuþróunarfélög og landshlutasamtök.

 

„Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur íslenska nýsköpunarumhverfið tekið miklum breytingum til hins betra. Ég hef lagt áherslu á aukna forgangsröðun, einföldun og samþættingu verkefna. Þannig jukum við skilvirkni í opinberum stuðningi við nýsköpun. Með nýsköpunarstefnu fyrir Ísland horfum við á stóru myndina og þann frjóa jarðveg til framtíðar sem NMÍ tók þátt í að skapa. Á þessu kjörtímabili hafa framlög til nýsköpunar aukist gríðarlega, m.a. gegnum aukin framlög í Tækniþróunarsjóð, aukin framlög til endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar, Kríu - nýjan sprota- og nýsköpunarsjóð - og fleiri aðgerðir. Með þessum breytingum trúi ég því að nýsköpunarumhverfið muni halda áfram að vaxa og dafna og stuðla að auknum tækifærum á Íslandi,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland markar sýn til ársins 2030. Í henni er sett fram það markmið að árið 2030 sé Ísland fjölbreytt samfélag jafnra tækifæra. Samfélag þar sem nýsköpun er inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun. Hér má lesa Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira