Hoppa yfir valmynd
10. september 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Stefna um aðlögun samfélagsins að áhrifum loftslagsbreytinga gefin út

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Halla Sigrún Sigurðardóttir, formaður starfshópsins. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra fékk í dag afhenta hvítbók og stefnu starfshóps um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Í ljósi loftslagsvár er fyrsta stefna íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum. Stefnan verður lögð til grundvallar við gerð aðgerðaáætlunar um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum, en árið 2019 var fest í lög um loftslagsmál að slíka áætlun skuli vinna.  

Samkvæmt skýrslum vísindanefndar stendur Ísland frammi fyrir ýmsum áhrifum loftslagsbreytinga (sjá töflu úr skýrslu Loftslagsráðs að neðan).

Í stefnunni er sett fram framtíðarsýn stjórnvalda um að íslenskt samfélag og lífríki búi að viðnámsþrótti frammi fyrir loftslagsvá. Samkvæmt stefnunni verður aðlögun að loftslagsbreytingum höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku í samfélaginu, hvort heldur sem er hjá stjórnvöldum, stofnunum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða almenningi því ljóst er að greiningar og ákvarðanir framtíðarinnar þurfa að taka mið af loftslagsbreytingum. Samhliða því þurfi að leggja áherslu á rannsóknir, upplýsingagjöf og fræðslu svo allir hagaðilar og almenningur hafi þekkingu á viðfangsefninu og bestu fáanlegu upplýsingar til ákvarðanatöku.

Ráðherra skipaði starfshóp um aðlögun að loftslagsbreytingum í lok síðasta árs, en í honum sátu fulltrúar fimm ráðuneyta og nokkurra stofnana og hagaðila. Við vinnu sína horfði starfshópurinn m.a. til skýrslu Loftslagsráðs „Að búa sig undir breyttan heim“, vísindaskýrslna um afleiðingar loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og náttúru, en einnig stefnumótunar og aðgerða nágrannaríkja Íslands í þessum málaflokki.  

„Hér eru komin skjöl sem leggja grunninn að því hvernig við sem samfélag aðlögumst breytingum sem óhjákvæmilega munu eiga sér stað sökum loftslagsbreytinga,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Eftir því sem við drögum meira úr losun verður þörfin fyrir aðlögun minni, en vísindin sýna okkur að við verðum líka að huga að aðlögun samfélagsins. Við þurfum að gera allt þetta samtímis og gæta þess að breytingarnar sem við ráðumst í verði réttlátar og sanngjarnar og komi ekki harðar niður á einstökum hópum samfélagsins.“

  • Fulltrúar starfshóps um aðlögun að loftslagsbreytingum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira