Hoppa yfir valmynd
15. september 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Kristján Þór úthlutar 566,6 milljónum úr Matvælasjóði

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur úthlutað 566,6 milljónum króna úr Matvælasjóði til 64 verkefna. Hlutverk sjóðsins er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr Matvælasjóði, en í ár bárust 273 umsóknir um styrki. 

Fjögur fagráð voru stjórn sjóðsins til ráðgjafar, eitt í hverjum styrkjaflokki, og skiluðu þau til stjórnar forgangsröðun verkefna eftir einkunnum ásamt umsögnum um hvert verkefni fyrir sig. Stjórn Matvælasjóðs skilaði tillögum til ráðherra hinn 3. september sl. og hefur ráðherra fallist á þær. Öllum umsækjendum mun berast svar við umsóknum sínum ásamt umsögn um verkefnin.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það er gríðarlegur kraftur og gróska í íslenskri matvælaframleiðslu vítt og breytt um landið. Þær umsóknir sem sjóðnum bárust í ár eru skýr vitnisburður um það. Það var ein af lykiláherslum mínum við stofnun sjóðsins að hann myndi styrkja verkefni um allt land og að stuðningur við matvælaframleiðslu verði sem næst uppruna hennar. Sú jafna dreifing styrkja milli landshluta sem birtist við þessa úthlutun er því sérstaklega ánægjuleg. Styrkir Matvælasjóðs eru um leið skýr skilaboð; stjórnvöld eru að fjárfesta í framtíðinni. Fjárfesta í aukinni verðmætasköpun.”

Jöfn dreifing milli landshluta

Þau verkefni sem hljóta styrk úr sjóðnum eiga uppsprettu vítt og breitt um landið, líkt og sjá má hér að neðan:

  • Vesturland 9%
  • Vestfirðir 8%
  • Norðurland vestra 14%
  • Norðurland eystra 15%
  • Austurland 7%
  • Suðurland 15%
  • Suðurnes 7%
  • Höfuðborgarsvæðið 27%

Meðal verkefna sem hljóta styrk að þessu sinni eru: 

  • Útfærsla hugmynda og prófun á fæðubótarefni úr tilteknum spírum og sykrum úr þörungum.
  • Vöruþróun á millimáli og ídýfum úr broddmjólk. 
  • Tilraun til notkunar þangsafa við vökvaræktun grænmetis.
  • Tilraunir og vöruþróun á ætum rósum.
  • Verkefni um að framleiða umhverfisvænni matvælaumbúðir.
  • Framleiðsla á hafraskyri úr íslenskum höfrum.
  • Hagkvæmnisathugun fyrir uppsetningu frostþurrkunarvers fyrir matvæli á Íslandi
  • Fullvinnsla á grjótkrabba og aukaafurðum af próteinríkum.
  • Verkefni um framleiðslu á húðvörum úr íslenskum jurtum og hliðarafurðum matvælaframleiðslu.
  • Áhrif endurnýjunar íslenska fiskiskipaflotans á kolefnisspor afurða.
  • Verkefni um hreina fiskiolíu í vesturvíking.

Styrkir skiptust svo milli deilda Matvælasjóðs: 

Bára: Styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkþegar geta verið fyrirtæki sem stofnuð á síðustu fimm árum, sem og frumkvöðlar sem vilja þróa hugmynd, hráefni eða aðferðir sem tengjast íslenskri matvælaframleiðslu.
29 verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Báru, fyrir alls kr. 80.997.952,-

Kelda: Styrkir verkefni sem miða að því að afla nýrrar þekkingar sem styður við markmið sjóðsins um nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.
20 verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Keldu fyrir alls kr. 261.446.107,-

Afurð: Styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar. Styrkveitingar miða að því að gefa styrkþegum tækifæri til að móta og þróa afurðir úr hráefnum sem falla til við matvælaframleiðslu og stuðla þar með að verðmætasköpun.
7 verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Afurð fyrir alls kr. 109.574.350.

Fjársjóður: Styrkir verkefni sem hafa það markmiði að styrkja markaðsinnviði og stuðla að markaðssókn afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu.
8 verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Fjársjóði, fyrir alls kr. 114.565.550,-.

Fjögur fagráð

Fagráð sjóðsins eru fjögur og voru stjórn sjóðsins til ráðgjafar. Þau voru skipuð aðilum sem höfðu þekkingu á ýmsum sviðum, m.a. matvælaframleiðslu, nýsköpun, vísindarannsóknum og markaðssetningu. Fagráð fóru yfir umsóknir og skiluðu stjórn forgangsröðun verkefna eftir einkunnum ásamt umsögnum um hvert verkefni fyrir sig. Við mótun tillagna tók stjórn einnig tillit til búsetu, kyns umsækjenda og verkefnastjóra ásamt því að horft var til þess að skiptingin á milli atvinnugreina væri sem jöfnust. Margrét Hólm Valsdóttir, formaður stjórnar Matvælasjóðs kynnti tillögur stjórnar að úthlutun fyrir ráðherra. 

Hægt er að fylgjast með starfsemi sjóðsins á heimasíðunni www.matvælasjóður.is

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
12. Ábyrð neysla og framleiðsla
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum