Hoppa yfir valmynd

Matvælasjóður

Úthlutun úr Matvælasjóði 2022

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur úthlutað 584,6 milljónum króna úr Matvælasjóði. Alls hljóta 58 verkefni styrk en 211 umsóknir bárust til sjóðsins.

„Sá sköpunarkraftur og sú áræðni sem íslenskir matvælaframleiðendur búa yfir er sérstakt ánægjuefni og sýnir áþreifanlega að Ísland er á réttri leið sem matvælaland. Það gleður mig einnig að sjá að hlutföll á milli kynja eru nær jöfn,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Þetta er í þriðja sinn sem sjóðurinn úthlutar.

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila.

Svarbréf hafa verið send öllum umsækjendum og má finna undir umsókn viðkomandi á afurd.is eða island.is.

Samningar og greiðslur til styrkþega eru í vinnslu. 

Opnað verður fyrir umsóknir fyrir næstu úthlutun úr Matvælasjóði á vormánuðum 2023.

Nánari upplýsingar um úthlutun

Hægt er að senda inn fyrirspurnir á netfangið [email protected]. Fyrirspurnin skal merkt í efnislínu með þeim flokki sem hún varðar (Bára, Kelda, Afurð eða Fjársjóður). Ef fyrirspurnin er almenns eðlis skal merkja hana „Almennt“ í efnislínu.

Fara í umsóknakerfi Matvælasjóðs

Matvælasjóður hefur fjóra styrktarflokka

Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna. Því hefur stjórn sjóðsins ákveðið að veita styrki í 4 styrkjaflokkum Báru, Keldu, Afurð og Fjársjóð.


Bára

Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkur úr Báru fleytir hugmynd yfir í verkefni. Málshátturinn „sjaldan er ein báran stök“ merkir að gæta þeirrar fyrirhyggju að maður þoli nokkur áföll og því þarf að undirbúa jarðveginn vel ef umsókn í Báru á að leiða til stærra verkefnis. Í Báru leita þeir frumkvöðlar, og fyrirtæki sem eru með árlega veltu undir 300 milljónum króna, sem vilja skoða hugmynd, hráefni eða aðferðir sem stuðla að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og  samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. 

Afurð

Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar, en leiða af sér afurð. Líta má á þennan flokk styrkja sem tækifæri  til að móta og þróa afurð úr með hráefnum sem tengjast matvælaframleiðslu og gera hana verðmætari í ferlinu. Afurðirnar eiga að auka nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla-framleiðslu. Verkefnin geta verið á ólíkum stað í ferlinu, á byrjunarreit eða lokastigum.

Kelda

Kelda styrkir rannsóknaverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu. Orðið kelda kemur úr forn norrænu og merkir uppspretta. Kelda er uppspretta nýrrar þekkingar. Tilgangur Keldu er að veita rannsóknastyrki til að hægt sé að afla nýrrar þekkingar sem stuðlar að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Fjársjóður

Fjársjóður styrkir sókn á markað. Fjársjóður er samansafn verðmætra hluta og styrkir fyrirtæki til að koma sínum verðmætum á framfæri. Skilyrði Fjársjóðs er að varan sé afurð úr íslenskur hráefnum sem ætlað er til matvælaframleiðslu. Tilgangurinn er að veita styrk til fyrirtækja til að styrkja markaðsinnviði og markaðssókn afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu og stuðla þannig að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. 

Umsóknarfrestur 2022 er liðinn. 

Umsóknarfrestur fyrir 2023 verður auglýstur síðar.

  Hér má finna handbók Matvælasjóðs fyrir umsóknar- og úthlutunarferli 2022.

Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér handbókina vel við vinnslu verkefna. 

Þegar sótt er um styrk í Matvælasjóð er mikilvægt að fara yfir þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og sjá til þess að þær séu uppfylltar til að umsóknin fái mat fagráðs:  

 • Tengist verkefnið áherslum Matvælasjóðs, þ.e. er verkefnið styrkhæft? 
 • Skoða þarf vel hvort að kostnaður sem sótt er um styrk fyrir sé samþykktur kostnaður og hvort allir verkþættir séu styrkhæfir.

Spurt og svarað um Matvælasjóð

Umsóknum er skilað í gegnum umsóknarkerfi Matvælasjóðs, á afurd.is.

Umsóknum sem skilað er eftir öðrum leiðum verða ekki teknar til efnislegar meðferðar.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér mismundandi flokka sjóðsins áður en hafist er handa við skrif á umsókn.

Styrkir eru greiddir út í tvennu lagi, helmingur við upphaf verkefnisins og helmingur þegar lokaskýrsla hefur verið staðfest af stjórn.
Já, umsóknir og umsóknargögn mega vera á ensku.

Misjafnt er milli flokka hvaða kostnaður er styrkhæfur og eru umsækjendur beðnir um að kynna sér hvaða kostnaður er styrkhæfur í hverjum flokki fyrir sig. Leiki vafi á því hvort kostnaður sé styrkhæfur, er umsækjendum bent á að hafa samband við sérfræðinga sjóðsins. Umsækjendur eru hvattir til að gera raunhæfa verk-, tíma- og kostnaðaráætlun þannig að hún standist að mestu leyti ef gengið er til samninga um verkefnið.

Umsækjendum er bent á að kynna sér styrkhæfan kostnað í handbók sjóðsins.

  Þættir sem eru óstyrkhæfir í öllum flokkum Matvælasjóðs

  • Framleiðsla söluvöru.
  • Fjárfesting í hráefnum, tækjum og búnaði sem eru hlutar af afurð eða þjónustu sem ætluð er til sölu.
  • Fjárfesting í sjálfu framleiðsluferlinu og umhverfi þess þ.m.t. húsnæði og tækjabúnaði til framleiðslu afurða og þjónustu sem ætluð er til sölu.
  • Gæðaúttekt og/eða vottun á framleiðsluferli.
  • Afborganir skulda, vaxtagjöld og lántökukostnaður.
  • Kostnaður vegna einkaleyfa.
  • Stofnun fyrirtækis og kostnaður vegna starfsleyfis fyrirtækis.
  • Birting auglýsinga.
  • Kynning og framsetning afurða í verslunum.

  Umsækjendum er bent á að kynna sér styrkhæfa og óstyrkhæfa þætti í handbók sjóðsins. 

  Forskoðun

  Þegar umsóknarfrestur er liðinn fara sérfræðingar Matvælasjóðs yfir allar umsóknir. Gerð er forskoðun á umsóknum og þeim skipt niður á fagráð. 

  Mat fagráðs

  Umsóknum sem berast í Matvælasjóð er skipt niður á fagráð viðkomandi styrktarflokks þar sem þær fá yfirlestur og mat aðila í fagráði. Þegar allar umsóknir hafa verið metnar af fagráðum fá þær umsögn viðkomandi fagráðs.

  Yfirferð stjórnar og ákvörðun um styrkveitingu

  Formenn fagráða kynna fyrir stjórn niðurstöður á mati hvers fagráðs. Stjórn Matvælasjóðs gerir tillögu um úthlutun styrkja og leggur fyrir matvælaráðherra til ákvörðunar.

  • Mikilvægt er að kynna sér flokka Matvælasjóðs og senda inn umsókn í þann flokk sem hentar verkefninu. Uppfærð handbók fyrir árið 2022 verður sett inn á næstu dögum.
  • Umsækjendur eru hvattir til að vanda sig í hvívetna við gerð umsókna
  • Vera tímanlega, ekki á síðustu stundu við að senda inn umsókn. Það getur valdið óþarfa streitu og álagi á umsóknarkerfið

   

  Umsækjendur eru hvattir til að vera tímanlega í því að senda inn umsókn ef hún er tilbúin
  Næsta úthlutun verður 2023, frekari upplýsingar koma inn síðar. 
  Upplýsingar verða settar inn á næstu dögum

          Matvælasjóður fylgir eftir            
          Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

  • Netfang sjóðsins er: [email protected]mar.is
  • Ljósmyndir í auglýsingaefni eru eftir Jessica Vogelsang
  • Myndmerki sjóðsins teiknaði Kalsi 

   

  Var efnið hjálplegt?Nei
  Takk fyrir

  Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

  Af hverju ekki?

  Hafa samband

  Ábending / fyrirspurn
  Ruslvörn
  Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

  Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira