Hoppa yfir valmynd

Samkeppnismál

Markmið samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.

Í lögunum er lagt bann við ólögmætu samráði fyrirtækja og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, ásamt því að ákveðin skilyrði eru sett fyrir samrunum fyrirtækja.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fer með framkvæmd samkeppnislaga en í umboði hans annast sérstök stofnun, Samkeppniseftirlitið, eftirlit samkvæmt lögunum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

Samkeppnisreglur EES samnings

Regluverk ESB á sviði samkeppni leggur bann við ólögmætu samráði fyrirtækja og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, ásamt því að setja ákveðin skilyrði fyrir samrunum fyrirtækja, en meginreglur þessar er að finna í 53. – 64. gr. EES-samningsins. Samkeppnisreglum EES-samningsins er aðeins beitt þegar samningar og ákvarðanir fyrirtækja á EES-svæðinu geta haft bein eða óbein áhrif á viðskipti milli ríkja. 

Samkeppnisreglur EES-samningsins gilda því samhliða hinum íslensku samkeppnislögum nr. 44/2005. Í þeim tilvikum þar sem reynir á samkeppnisreglur EES-samningsins er þeim beitt af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), framkvæmdastjórn ESB og Samkeppniseftirlitinu. Ákvæði um verkaskiptingu milli ESA og framkvæmdastjórnarinnar er að finna í 56. og 57. gr. EES-samningsins.

Samkeppniseftirlitið

Samkeppniseftirlitinu ber að ná markmiðum samkeppnislaga um að efla virka samkeppni í viðskiptum með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.

Eftirlit Samkeppniseftirlitsins tekur til hvers konar atvinnustarfsemi án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.

Stjórn Samkeppniseftirlitsins

Með yfirstjórn Samkeppniseftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem skipuð er af menningar- og viðskiptaráðherra til fjögurra ára í senn.  Þrír varamenn eru skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.

Stjórn Samkeppniseftirlitsins er þannig skipuð frá 1.09.2021:

  • Sveinn Agnarsson, formaður stjórnar
  • Katrín Helga Hallgrímsdóttir
  • Hafsteinn Þór Hauksson

Varamenn í stjórn Samkeppniseftirlitsins eru:

  • Ragnhildur Jónsdóttir
  • Helga Reynisdóttir
  • Heimir Skarphéðinsson

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins er ráðinn af stjórn stofnunarinnar og setur hún honum starfslýsingu. Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. 

Síðast uppfært: 8.12.2022

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum