Hoppa yfir valmynd

Hugverkaréttindi á sviði iðnaðar

Undir hugverkaréttindi á sviði iðnaðar falla einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.

Hugverkstofan fer með framkvæmd laga á þessu sviði, sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber stjórnsýslulega ábyrgð á. Hugverkastofan sér m.a. um skráningu hugverkaréttinda í iðnaði hér á landi. Jafnframt veitir stofan  ráðgjöf og upplýsingar um hugverkaréttindi og leitast við að auka almennan skilning á gildi þeirra til hagsbóta atvinnulífi og almenningi.

Alþjóðlegt samstarf

Hugverkastofan hefur einnig, í nauðsynlegu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, samstarf við alþjóðastofnanir o. fl. á sviði hugverkaréttinda í iðnaði. Þar má nefna Nordic Patent Institute (NPI) í Tåstrup, Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO) í Genf og Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) í München en Ísland er aðili að evrópska einkaleyfasamningnum (European Patent Convention) sem EPO byggir á. Einnig má nefna samskipti við Evrópusambandið (ESB) og Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) á grundvelli EES-samningsins.

Þá hefur Ísland sem aðili að Samningnum um alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) aðlagað lög hér á landi að ákvæðum Samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS). Enn fremur hefur Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði ásamt viðbótum leitt til þess að ýmsar lagabreytingar hafa verið gerðar hér á landi til samræmis við tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins.

Hugverkastefna

Hugverkastefna 2016-2022 var kynnt í júní 2016 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.

Markmið stefnunnar er hugverkadrifið Ísland árið 2022. Sú framtíðarsýn er sett fram í skjalinu ásamt því að veita upplýsingar um réttindin, mikilvægi þeirra og mögulegar verndarleiðir ásamt aðgerðaráætlun til næstu fimm ára.

Aðgerðir hugverkastefnunnar miða að eftirfarandi þáttum sérstaklega:

  • nýtingu sóknarfæra sem eru til staðar í samfélaginu í dag
  • eflingu vitundar og skilnings á hugverkaréttindum, mikilvægi þeirra og möguleikum til verndar hvort sem er með skráningu eða á annan hátt.
  • frekari menntun og rannsóknum á sviði hugverkaréttinda
  • skilvirku stjórnkerfi og lagaumhverfi í kringum réttindin, nýtingu og framfylgd þeirra.

Hugverkastefnan byggir á greiningu ýmissa skýrslna og rannsókna, á könnun sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét vinna fyrir sig árið 2015 sem og á öflugu samtali við fjölda aðila frá ýmsum geirum atvinnulífsins, fræðasamfélagsins og stjórnkerfis nýsköpunarmála

Hugverkastofan

Hlutverk Hugverkastofu er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.

Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipar þriggja manna áfrýjunarnefnd til að úrskurða í ágreiningsmálum vegna ákvarðana Hugverkastofunnar varðandi einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd.

Um áfrýjunarnefnd er fjallað nánar í reglugerð um áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, nr. 275/2008. 

Formaður er Selma Hafliðadóttir lögfræðingur, skipuð til 31. ágúst 2017. Ritari nefndarinnar er Guðrún Björg Birgisdóttir lögmaður, skipaður til sama tíma.

Áfrýjun skal leggja fram skriflega í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu innan lögboðins áfrýjunarfrests. Áfrýjunin skal vera í fimmriti og undirrituð af áfrýjanda eða umboðsmanni hans. Með áfrýjun skal fylgja áfrýjunargjald sem greiða skal ráðuneytinu. Gjaldið nemur 85.000 kr. 

 

Sjá einnig:

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira