Hoppa yfir valmynd

Hugverkaréttindi á sviði iðnaðar

Hugverkaréttindi á sviði iðnaðar

Undir hugverkaréttindi á sviði iðnaðar falla einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.

Hugverkstofan fer með framkvæmd laga á þessu sviði, sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ber stjórnsýslulega ábyrgð á. Hugverkastofan sér m.a. um skráningu hugverkaréttinda á sviði iðnaðar hér á landi. Jafnframt veitir stofnunin  ráðgjöf og upplýsingar um hugverkaréttindi og leitast við að auka almennan skilning á gildi þeirra til hagsbóta atvinnulífi og almenningi.

Alþjóðlegt samstarf

Hugverkastofan hefur einnig, í nauðsynlegu samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, samstarf við alþjóðastofnanir á sviði hugverkaréttinda. Þar má nefna Nordic Patent Institute (NPI) í Tåstrup, Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO) í Genf og Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) í München en Ísland er aðili að evrópska einkaleyfasamningnum (European Patent Convention) sem EPO byggir á. Einnig má nefna samskipti við Evrópusambandið (ESB) og Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) á grundvelli EES-samningsins.

Þá hefur Ísland sem aðili að Samningnum um alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) aðlagað lög hér á landi að ákvæðum Samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS). Enn fremur hefur Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði ásamt viðbótum leitt til þess að ýmsar lagabreytingar hafa verið gerðar hér á landi til samræmis við tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins.

Hugverkastefna

Hugverkastefna 2016-2022 var kynnt í júní 2016 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.

Markmið stefnunnar er hugverkadrifið Ísland árið 2022. Sú framtíðarsýn er sett fram í skjalinu ásamt því að veita upplýsingar um réttindin, mikilvægi þeirra og mögulegar verndarleiðir ásamt aðgerðaráætlun til næstu fimm ára.

Aðgerðir hugverkastefnunnar miða að eftirfarandi þáttum sérstaklega:

  • nýtingu sóknarfæra sem eru til staðar í samfélaginu í dag
  • eflingu vitundar og skilnings á hugverkaréttindum, mikilvægi þeirra og möguleikum til verndar hvort sem er með skráningu eða á annan hátt.
  • frekari menntun og rannsóknum á sviði hugverkaréttinda
  • skilvirku stjórnkerfi og lagaumhverfi í kringum réttindin, nýtingu og framfylgd þeirra.

Hugverkastefnan byggir á greiningu ýmissa skýrslna og rannsókna, á könnun sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét vinna fyrir sig árið 2015 sem og á öflugu samtali við fjölda aðila frá ýmsum geirum atvinnulífsins, fræðasamfélagsins og stjórnkerfis nýsköpunarmála.

Hugverkastofan

Hlutverk Hugverkastofu er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.

Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar

Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar er skipuð á grundvelli laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, laga um vörumerki, nr. 45/1997 og laga um hönnun, nr. 46/2001. Nefndin endurskoðar ákvarðanir Hugverkastofunnar í ágreiningsmálum m.a. varðandi einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd. Um nefndina gildir reglugerð nr. 275/2008 .

Áfrýjunarfrestir og áfrýjunargjald

Áfrýjun skal leggja fram innan lögboðins frests sem eru 2 mánuðir frá þeim degi er ákvörðun var tekin hjá Hugverkastofunni. Innan sama frests skal greiða áfrýjunargjald á grundvelli reglugerðar um gjöld fyrir einkaleyfi, vörumerki, hönnun o.fl., nr. 1050/2020 . Gjald fyrir áfrýjun eru 85.000 kr.

Gjaldið skal greitt til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og staðfesting greiðslu ásamt áfrýjun send ráðuneytinu rafrænt á netfangið [email protected] 

Berist greiðsla ekki innan áfrýjunarfrests skal vísa áfrýjuninni frá. 

Greiðsluupplýsingar ráðuneytisins eru:

Ríkissjóður Íslands

Kt. 540269-6459

Reikningsnúmer: 0001-26-025017

Skýring: 17 - Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda (mikilvægt að skrifa þessa skýringu)

Málsmeðferð hjá nefndinni er almennt rafræn en þó er ávallt heimilt að senda erindi og gögn á pappír.

Áfrýjandi getur fyllt út rafrænt eyðublað og tilkynnt um áfrýjun á minarsidur.stjr.is 

Úrskurðir 

Áfrýjunarnefnd getur með úrskurði sínum staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir Hugverkastofunnar. Úrskurðirnir eru endanlegir á stjórnsýslustigi og þeim verður ekki skotið til ráðherra.

Úrskurði nefndarinnar má finna á vefsíðu Hugverkastofunnar 

Skipan nefndarinnar

Skipunartími nefndarinnar eru þrjú ár í senn og er núverandi nefnd er skipuð til ársins 2023.

Formaður nefndarinnar er Selma Hafliðadóttir og netfang nefndarinnar er [email protected].

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 17.4.2023
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum