Hoppa yfir valmynd

Ríkisaðstoð

Notkun ríkisfjármuna til þess að ívilna einu fyrirtæki eða fleirum umfram önnur getur falið í sér ríkisaðstoð þegar hún er til þess fallin að raska samkeppni. Til þess að komast hjá því ber að haga undirbúningi og útfærslu laga, stjórnvaldsfyrirmæla og verkefna með hliðsjón af ríkisaðstoðarreglum EES. Sé ætlunin að veita ríkisaðstoð þarf viðkomandi aðstoð eða aðstoðarkerfi að hljóta samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eða falla að undanþágum sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

Hvað er ríkisaðstoð?

Til að um ríkisaðstoð sé að ræða, í skilningi 61. gr. EES-samningsins, þurfa fjögur skilyrði að vera uppfyllt:

  • Ráðstöfun er veitt af ríkisfjármunum
  • Raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni
  • Ívilnar ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara 
  • Hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila

Þiggjandi ríkisaðstoðar er aðili sem hefur með höndum efnahagslega starfsemi, yfirleitt fyrirtæki en félög og opinberir aðilar geta einnig fallið hér undir. Sem dæmi um form ríkisaðstoðar má nefna beinan fjárstyrk, hagstæð lán, ríkisábyrgðir, skattaívilnanir, eftirgjöf skulda, lækkun arðsemiskröfu, niðurfellingu gjalda og sölu eigna á undirverði. Um er að ræða ríkisaðstoð ef ráðstöfunin er umfram það sem eðlilegt telst samkvæmt markaðsforsendum.

Ríkisaðstoð er að meginreglu til óheimil en undanþágur tengjast t.a.m. byggðaaðstoð, aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna, til menningar, til endurskipulagningar fyrirtækja, til uppbyggingar á mikilvægum innviðum og til umhverfismála. Undantekningar geta átt við ef jákvæð áhrif ríkisaðstoðar á samfélagið vega þyngra en sú röskun á semkeppni sem af henni hlýst.

Reglur og leiðbeiningar um ríkisaðstoð

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gefið út leiðbeinandi reglur á sviði ríkisaðstoðar þar sem farið er yfir hugtakið ríkisaðstoð, meginreglur og undantekningarnar. Leiðbeinandi reglurnar aðstoða við mat á því hvort um tilkynningarskylda ríkisaðstoð sé að ræða og hvernig ríkisaðstoðarráðstöfun skuli úr garði gerð.
Uppfært og tæmandi yfirlit yfir leiðbeinandi reglur á sviði ríkisaðstoðar er birt á vef ESA á ensku. Leiðbeinandi reglurnar eru birtar í íslenskri þýðingu í EES-viðbætinum og má þar nefna eftirfarandi kafla (síðast uppfært í mars 2016):

Framfylgd

Fastmótaðar undanþágur frá tilkynningarskyldu til ESA fyrir tilteknar tegundir ríkisaðstoðar (hópundanþágur) er einkum að finna í tveimur gerðum sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn:

Menningar- og viðskiptaráðuneytið fer með framkvæmd þess hluta EES-samningsins sem fjallar um ríkisaðstoð og gegnir samræmingar- og leiðbeiningarhlutverki í málaflokknum. Það veitir öðrum stjórnvöldum ráðgjöf á sviði ríkisaðstoðar, m.a. um hönnun ráðstafana og áhættuþætti og er í forsvari fyrir stjórnvöld í tengslum við ríkisaðstoðarmál sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur til skoðunar. Tilkynningar til ESA um fyrirhugaða ríkisaðstoð eru sendar í gegnum menningar- og viðskiptaráðuneytið og ráðuneytið hefur umsjón með samskiptum á milli íslenskra stjórnvalda og ESA þar til máli er lokað.

Stjórnvöldum ber að taka afstöðu til þess hvort ráðstöfun sem fyrirhuguð er feli í sér ríkisaðstoð og hvort hún sé háð tilkynningarskyldu til ESA. Einnig fellur í hlut viðkomandi stjórnvalda að taka saman upplýsingar vegna samskipta við ESA.

ESA hefur með höndum eftirlit með ríkisaðstoð. Mál eru tekin til meðferðar að frumkvæði ESA, eftir tilkynningu íslenskra stjórnvalda eða í kjölfar kvartana frá fyrirtækjum. Ýmist lýkur málum eftir frumathugun eða, telji ESA þörf á að kanna málið frekar, að undangenginni ítarlegri rannsókn (e. formal investigation procedure). Niðurstaða ESA er kæranleg til EFTA-dómstólsins.

Fyrirtækjum sem telja sig eiga rétt á ívilnun samkvæmt gildandi ríkisaðstoðarkerfi ber að leita til þess stjórnvalds sem ábyrgð ber á kerfinu. Ef fyrirtæki er í vafa um réttarstöðu sína og telur að viðskipti þess við opinberan aðila kunni að fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð er því ráðlagt að leita til sérfræðings eða til viðkomandi stjórnvalds.

Hlutverk menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Samstarf menningar- og viðskiptaráðuneytisins við ESA í ríkisaðstoðarmálum:

  • Tengiliður og fyrirsvarsaðili gagnvart ESA í samskiptum vegna ríkisaðstoðarmála,
  • Sendingar á tilkynningum, fortilkynningum og GBER-eyðublöðum frá stjórnvöldum í gegnum vefgátt ESA,
  • Milliliður vegna vöktunar ESA á aðstoðarkerfum,
  • Sendingar á ársskýrslum um veitta ríkisaðstoð og öðrum reglulegum samantektum,
  • Þátttaka í sameiginlegum vinnuhópum EFTAríkja og ESB-ríkja.

Samstarf menningar- og viðskiptaráðuneytisins við önnur ráðuneyti/aðstoðarveitendur í ríkisaðstoðarmálum:

  • Aðstoð við mat á aðstoðarkerfum og stökum (ad hoc) aðstoðarráðstöfunum,
  • Aðstoð og ráðgjöf við gerð og sendingar tilkynninga, fortilkynninga, GBER-eyðublaða og svara við fyrirspurnum ESA,
  • Ráðgjöf og aðstoð við undirbúning ráðstafana, þ. á m. lagafrumvarpa,
  • Ábendingar varðandi frumvarps og reglugerðardrög þegar eftir því er leitað,
  • Samantekt ársskýrslna um veitta ríkisaðstoð.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 11.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum