Hoppa yfir valmynd

Matvæli og matvælaöryggi

Málefni er varða matvæli og matvælaöryggi taka m.a. til eftirfarandi þátta:

 • Heilbrigðiseftirlit með framleiðslu, vinnslu, inn- og útflutningi og markaðssetningu matvæla og fóðurs.
 • Heilbrigði dýra, varnir gegn dýrasjúkdómum.
 • Löggildingu dýralækna og störf þeirra.
 • Heilbrigði plantna og varnir gegn plöntusjúkdómum.
 • Eftirlit með sáðvöru og áburði.
 • Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, þ.m.t. málefni Matvælarannsókna Íslands ohf.

Lög og reglugerðir sem gilda um matvæli hér á landi taka mið af reglum Evrópusambandsins um sama efni í gegnum EES-samninginn. Margar reglugerðir eru þannig innleiddar í íslenskan rétt.

Matvæli

Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Þá tekur hugtakið matvæli einnig til drykkja þar með talið neysluvatn, tyggigúmmís, fæðubótarefna og hvers kyns efna, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð. Lög um matvæli nr. 93/1995 taka til framleiðslu og dreifingar matvæla á öllum stigum. Lögin ná til allra efna og hluta sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli á einkaheimilum. Lögin taka þó ekki til frumframleiðslu til einkanota eða til vinnslu, meðferðar eða geymslu á matvælum til einkaneyslu.

Matarauður Íslands

Verkefnið Matarauður Íslands heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Verkefnið hófst formlega í desember 2016 og er fjármagnað til fimm ára. Stefnt er að því að ímynd og orðspor landsins tengt matarauðnum okkar og matarmenningu verði vaxandi þáttur í heildarímynd landsins og að efling matvælageirans stuðli að fjölbreyttum atvinnutækifærum í byggð.

Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður

Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður starfar í samræmi við þingsályktun nr. 40/149 um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Sjóðurinn fjármagnar verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

Tilgangur sjóðsins er eftirfarandi:

 1. Styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi.
 2. Fjármagna tilteknar skimanir fyrir ónæmum sýklum en einungis verða fjármagnaðar skimanir sem eru umfram lögbundnar skimanir, t.d. tilteknar skimanir í matvælum, sauðfé, hrossum, gæludýrum, sníkjudýrum og umhverfi.
 3. Fjármagna umframkostnað vegna rannsókna í almannaþágu í því skyni að rekja uppruna sýkla sem dreifast á milli manna og dýra (súnur) í þeim tilvikum þegar upp koma hrinur, hópsýkingar eða faraldrar en stór hluti sýkinga hjá mönnum og dýrum er tilkominn vegna þeirra. 

Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður nýtur framlaga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu í þrjú ár, 30 milljónir kr. á ári, þ.e. til ársloka 2022. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra skipa sjóðsstjórn til ársloka 2022, fjóra aðalmenn og fjóra til vara. Stjórnsýsla sjóðsins, þar með talið varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans er hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Matvælaöryggi

Tilgangur laga um matvæli nr. 93/1995 er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar matvæla og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Matvælaöryggi skal tryggt með innra eftirlit, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti.

Örugg matvæli

Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. eru heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Við ákvörðun um það hvort matvæli séu örugg skal hafa hliðsjón af eftirfarandi:

 • Hvernig neytendur nota matvælin venjulega á hverju stigi framleiðslu og dreifingar.
 • Upplýsingum sem neytendum eru veittar, þ.m.t. upplýsingum á merkimiðum eða öðrum upplýsingum sem neytendur hafa almennt aðgang að, þar sem kemur fram hvernig þeir geti forðast tiltekin matvæli eða matvælaflokk sem getur haft skaðleg áhrif á heilsuna.

Við mat á því hvort matvæli séu heilsuspillandi er höfð hliðsjón af:

 • Líklegum áhrifum og/eða skammtímaáhrifum og/eða langtímaáhrifum matvæla á heilsu þeirra sem neyta þeirra og einnig á næstu kynslóðir
 • Líklegum uppsöfnuðum eituráhrifum.
 • Sérstöku næmi ákveðins hóps neytenda fyrir tilteknum matvælum ef matvælin eru ætluð þeim hóp.

Stjórnendum matvælafyrirtækja og opinberum eftirlitsaðilum er skylt að tryggja eins og kostur er að ekki berist á markað matvæli sem valdið geti matarsjúkdómum.

Framleiðandi matvæla

Matvælafyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem rekur starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei og hvort það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki. 

Matvælafyrirtæki geta t.d. verið:

 • Fiskiskip
 • Fiskeldi
 • Kræklingarækt
 • Flutningsaðili matvæla
 • Fiskmarkaður
 • Slægingarþjónusta
 • Fiskvinnsla
 • Frystigeymsla
 • Bóndi
 • Ræktandi matjurta
 • Dreifingaraðili matvæla
 • Sláturhús
 • Kjötvinnsla
 • Matvælaverslun
 • Veitingahús
 • Heildsala

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum