Hoppa yfir valmynd

Þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu

Endurgjald vegna þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu (e. services of general economic interest – SGEI) getur falið í sér ríkisaðstoð. Í 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins er fjallað um slíka þjónustu og þar segir að reglur samningsins gildi um fyrirtæki sem falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu, að því marki sem beiting reglnanna kemur ekki í veg fyrir að þau geti leyst af hendi þau sérstöku verkefni sem þeim eru falin.

Hér er um að ræða efnahagslega starfsemi sem hefur verið skilgreind af hálfu hins opinbera sem mikilvæg í þágu almennings og sem telja má að yrði ekki veitt, eða ekki veitt undir sömu skilyrðum, án aðkomu hins opinbera (ríkis eða sveitarfélags). Gjarnan er um að ræða þjónustu sem hinu opinbera er skylt að veita.

Heildarregluverk um ríkisaðstoð í tengslum við endurgjald sem greitt er fyrir starfrækslu þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, svonefndur SGEI-pakki (e. state aid package for SGEI), samanstendur af fjórum gerðum:

  1. Kafli í leiðbeinandi reglum ESA, um beitingu reglna um ríkisaðstoð gagnvart endurgjaldi sem greitt er fyrir að starfrækja þjónustu með almenna efnahagslega þýðingu. Kaflinn samsvarar samnefndri orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB (e. communication). Gerðin hefur þann tilgang að skýra helstu hugtök sem lögð eru til grundvallar við beitingu reglna um ríkisaðstoð gagnvart endurgjaldi sem greitt er fyrir almannaþjónustu.
  2. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2012/21/ESB um beitingu 2. mgr. 106. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins [sbr. 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins] gagnvart ríkisaðstoð í formi bóta til tiltekinna fyrirtækja sem veita opinbera þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Ákvörðunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2012. Gerðin felur í sér hópundanþágu, þ.e.a.s. hún kveður á um með hvaða skilyrðum tilteknar tegundir endurgjalds fyrir almannaþjónustu geta talist samrýmanlegar framkvæmd innra markaðarins með vísan til 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins og undanþegnar tilkynningarskyldu til ESA.
  3. Kafli í leiðbeinandi reglum ESA, um rammaákvæði um ríkisaðstoð sem er fólgin í endurgjaldi fyrir almannaþjónustu. Kaflinn samsvarar samnefndri orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB. Rammaákvæðin kveða á um með hvaða skilyrðum endurgjald fyrir almannaþjónustu sem ekki fellur undir ákvörðun 2012/21/EB getur talist samrýmanlegt framkvæmd innra markaðarins með vísan til 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins, en endurgjald af því tagi er tilkynningarskylt til ESA. Hér fellur einkum undir endurgjald sem nemur háum fjárhæðum til aðila annarra en þeirra sem veita félagsþjónustu.
    -Skrá yfir gildandi aðstoðarkerfi sem varða endurgjald fyrir almannaþjónustu sem aðlaga þarf að rammaákvæðum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð í formi endurgjalds fyrir almannaþjónustu (PDF, 42,4 KB).
    -List of existing aid schemes regarding public service compensation which have to be brought in line with the EFTA Surveillance Authority´s Framework for state aid in the form of public service compensation (PDF, 37,63 KB)
  4.  Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 360/2012 frá 25. apríl 2012 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins [SUSE] gagnvart minniháttaraðstoð sem veitt er fyrirtækjum sem starfrækja þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu. Reglugerðin hefur verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 225/2012. Að því er EES-samninginn varðar eru ákvæði 61. gr. samningsins sambærileg við 107. gr. gr. SUSE og í bókun 3 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól eru ákvæði sambærileg við 108. gr. SUSE. Gerðin kveður á um undir hvaða skilyrðum smávægilegt endurgjald fyrir almannaþjónustu (undir 500.000 evrum á 3 ára tímabili) telst ekki hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna og/eða telst ekki raska eða vera til þess fallið að raska samkeppni. Við þær aðstæður fellur endurgjaldið ekki undir 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.
Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum