Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Markviss uppbygging geðheilbrigðismála

Hlutverk heilsugæslunnar hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu um land allt hefur verið styrkt með aukinni sálfræðiþjónustu, geðheilsuteymum og þverfaglegri teymisvinnu á undanförnum árum. Til þess að bregðast við neikvæðum afleiðingum af heimsfaraldri COVID-19 og heimskreppu var farið út í frekari aðgerðir til þess að efla geðheilbrigðisþjónustu í landinu sem byggja á grunni þeirra aðgerða sem sannað hafa gildi sitt samkvæmt geðheilbrigðisáætlun Alþingis. Auk þess hafa verið unnin ýmis uppbyggingaverkefni í geðheilbrigðismálum á kjörtímabilinu.

Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á geðheilbrigðisþjónustu í landinu í samræmi við beiðni sem samþykkt var á Alþingi, en sú vinna er að mati heilbrigðisráðuneytisins mikilvæg. Nú er unnið að stofnun formlegs geðráðs, í samvinnu við Geðhjálp. Heilbrigðisráðherra hefur haldið samráðsfundi með notendum geðheilbrigðisþjónustu frá 2018, auk þess sem sett var á fót sérstakt geðráð heilbrigðisráðuneytis og fulltrúa notendasamtaka sem viðbragð við heimsfaraldri Covid-19.

Aukin fjárframlög til málaflokksins

Fjárframlög til geðheilbrigðismála hafa hækkað um rúman milljarð á kjörtímabilinu.

Mest er hækkunin innan heilsugæslunnar, en hækkunin til hennar nam um rúmlega 800 milljónum króna. Sú fjárveiting hefur meðal annars orðið til þess að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu en fjöldi þeirra hefur rúmlega tvöfaldast og eru stöðugildi nú um 75 í heilsugæslu á landinu öllu. Auk þess hafa geðheilsuteymi tekið til starfa í heilsugæslunni um allt land. Nú er unnið að því að stofna þverfagleg geðheilsuteymi fyrir börn á landsvísu, en heilbrigðisráðuneytið hefur falið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að stofna slíkt teymi sem vinna mun á landsvísu að meðferð barna, ráðgjöf og stuðningi við önnur teymi í heilsugæslu og á heilbrigðisstofnunum og spítölum um land allt. Enn fremur mun teymið vinna að því að tengja heilbrigðis-, skóla- og félagsþjónustu eins og þörf skjólstæðinga kallar eftir.

Sérhæfð geðheilsuteymi hafa einnig verið sett upp á vegum heilsugæslunnar. Geðheilsuteymi fjölskylduvernd starfar á landsvísu og þjónustar verðandi foreldra og foreldra með ung börn sem glíma við alvarlega vanlíðan, geðrænan vanda eða hafa áhyggjur af þroska og/eða tengslamyndun barns. Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana starfar einnig á landsvísu og þjónustar fólk 18 ára og eldri. Markhópur teymisins er fólk með þroskahamlanir og/eða hamlandi einhverfu sem þarfnast sértækrar geðheilbrigðisþjónustu. Geðheilsuteymi fanga hóf starfsemi sína í lok árs 2019 og sinnir geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins.

Geðræktarverkefni í samstarfi ráðuneyta

Stýrihópur um framgang aðgerðaáætlunar um geðrækt í skólum var settur á fót af heilbrigðisráðherra í ársbyrjun 2021. Verkefni hans er að fylgja eftir aðgerðaáætlun um innleiðingu geðræktar, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi sem skilað var til heilbrigðisráðherra haustið 2019 og samþykkt af ríkisstjórn árið 2020.

Verkefnastjóri embættis landlæknis leiðir störf hópsins en í honum sitja fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nú er unnið að því að koma aðgerðunum í framkvæmd og kynna þær fyrir hlutaðeigandi aðilum.

Hlutverk Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu var sett á fót árið 2018 og er ætlað stórt hlutverk á landsvísu. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur fengið aukið fjármagn m.a. til að:

  • Efla og samhæfa geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni s.s. í skólahjúkrun, ungbarnavernd og annarri þverfaglegri heilsugæsluþjónustu.
  • Leiða faglega þróun og styrkja samhæfingu innan heilsugæslunnar í landinu s.s. með gerð gæðahandbókar og samræma skráningu.
  • Útbúa og miðla fræðsluefni um geðheilbrigðismál fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu.
  • Útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda, innleiði skimun fyrir þessum vanda og stýri innleiðingu meðferðarúrræða í heilsugæslu, hjá geðheilsuteymum og í heimahjúkrun.

Samningagerð við sálfræðinga og viðbrögð við heimsfaraldri

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 100 milljónum í samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Sjúkratryggingar Íslands vinna nú að samningagerð vegna þessa.

Sem viðbragð við neikvæðum afleiðingum af heimsfaraldri Covid-19 og áhrifum sem faraldurinn hafði á veitingu heilbrigðisþjónustu voru í fjáraukalögum fyrir árið 2020 og á fjárlögum 2021 samþykktar 540 milljóna viðbótarfjárveitingar fyrir hvort ár til að efla þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu og stemma stigu við áhrifum heimsfaraldursins á andlega heilsu fólks.

Þá var nýlega 102 milljónum króna varið í þverfagleg átaksverkefni á vegum Landspítala sem miða að því að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk. Meðal þessara verkefna eru:

  • Gagnreynd námskeið í félagsfærni hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL)
  • Stytting biðlista hjá BUGL með fjölgun greiningarviðtala fyrir börn með mögulega röskun á einhverfurófi samfara öðrum geðrænum vanda.
  • Markvissar aðgerðir til að stytta bið eftir þjónustu þunglyndis- og kvíðateymis geðþjónustu Landspítala, þjónustu átröskunarteymisins og þjónustu áfallateymisins.

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

Heilbrigðisráðuneytið leggur áherslu að langtímasýn sé viðhöfð við uppbyggingu geðheilbrigðismála. Vinna að framtíðarstefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 hófst með úrvinnslu úr niðurstöðum Geðheilbrigðisþings sem haldið var í lok árs 2020. Til þess að gefa almenningi tækifæri til þess að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri fóru drög að framtíðarsýn í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda og lauk samráðinu í ágúst sl. Unnið er úr umsögnum og áætlað að stefna um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálumverði tilbúin í haust og lögð fram á Alþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira