Hoppa yfir valmynd
17. september 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Aðgerðir í loftslagsmálum – markvisst unnið að samdrætti í losun

Fyrsta stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem gefin er út í dag sýnir að vinna er hafin við allar aðgerðirnar 50 sem eru í áætluninni og ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar af eru 47 ýmist komnar vel á veg eða í framkvæmd og þrjár í undirbúningi. Í skýrslunni eru settar fram tvær nýjar aðgerðir; ein sem miðar að orkuskiptum í framleiðslugreinum og önnur sem stuðlar að bættri þekkingu á losunarbókhaldi landnotkunar. Flestar aðgerðirnar eru settar fram til langs tíma.

Í stöðuskýrslunni er lagt mat á framgang og árangur aðgerða. Samkvæmt bráðabirgðatölum hefur orðið samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda undanfarin tvö ár, en kórónuveirufaraldurinn hafði áhrif í fyrra sem kunna að ganga til baka, a.m.k. að hluta.

Meðal þeirra aðgerða sem þegar eru farnar að skila góðum árangri eru aðgerðir er varða orkuskipti í samgöngum, landnýtingu og eflingu fræðslu og nýsköpunar.

Árangur í orkuskiptum í samgöngum

Aðgerðir tengdar orkuskiptum í samgöngum á landi hafa skilað árangri og rafbílum fjölgar hratt, en hlutfall hreinna rafbíla af heildarsölu fólksbíla hækkaði úr 8% árið 2019 í 24% árið 2020. Þá er hlutfall vistvænna ökutækja yfir helmingur nýskráninga. Þegar staða rafbílavæðingar í heiminum er skoðuð  er Ísland í öðru sæti á eftir Norðmönnum í nýskráningum rafbíla. Sömuleiðis hefur sala á rafhjólum, reiðhjólum og rafhlaupahjólum aukist umtalsvert en skattastyrkjum hefur verið beitt tímabundið til þess að styðja við virka ferðamáta.

Stóraukin landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis

Allar sex aðgerðirnar sem varða landnotkun eru komnar til framkvæmda. Þar á meðal er ný aðgerð um bætta þekkingu á losunarbókhaldi landnotkunar og gefin hefur verið út umbótaáætlun þar að lútandi. Veruleg aukning hefur orðið í landgræðslu og í skógrækt jókst umfang nýs skóglendis til dæmis um 50% milli áranna 2018 og 2020. Eins jókst fjöldi gróðursettra plantna um 43% á sama tíma og endurheimt birkiskóga jókst verulega. Þá hefur flatarmál endurheimts votlendis meira en tífaldast frá árinu 2018. Umbætur á losunarbókhaldi Íslands hafa einnig verið fjármagnaðar.

Nýsköpun og fræðsla efld

Ýmsir hvatar til nauðsynlegra umskipta í samfélaginu hafa verið innleiddir og hefur m.a. 335 milljónum króna verið úthlutað úr Loftslagssjóði til fræðslu- og nýsköpunarverkefna á tveggja ára tímabili. Sömuleiðis hefur áhersla verið á að efla menntun á sviði loftslagsmála í skólum landsins og fræðslu um loftlagsmál fyrir almenning.

Dregið úr losun frá atvinnulífi

Áhersla hefur verið lögð á að draga úr losun frá iðnaði í breiðu samstarfi fyrirtækja og stjórnvalda. Töluverður samdráttur hefur orðið milli ára í notkun jarðefnaeldsneytis á þungavinnuvélar í byggingariðnaði. Það sama má segja um olíunotkun í fiskimjölsverksmiðjum, sem hefur dregist saman um ríflega helming frá 2018. Aðgerð er varðar föngun kolefnis frá jarðvarmavirkjunum er einnig komin vel á veg, auk þess sem ný lög sem heimila varanlega geymslu koldíoxíðs í jarðlögum voru sett á þessu ári. Eru þau grundvöllur þess að rekstraraðilar með losunarheimildir innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins geti fengið niðurdælingu á koldíoxíði dregna frá í losunarbókhaldi sínu. Ætla má að það verði þeim fjárhagslegur hvati til þess að binda koldíoxíð í jarðlögum og koma þannig í veg fyrir losun þess út í andrúmsloftið.

Tvær aðgerðir taka á losun frá kælimiðlum (F-gösum) og hefur, samkvæmt bráðabirgðartölum, þegar mælst 16% samdráttur í losun frá þeim. Áætlað er að losun frá F-gösum hafi dregist saman um 55 þúsund tonn árið 2030. Loks má nefna bann við notkun svartolíu við strendur landsins sem tók gildi 1. janúar 2020 og hefur engin svartolía verið seld til skipa á Íslandi síðan þá.

„Þessi skýrsla sýnir okkur að það miðar svo sannarlega vel í að koma öllum 50 aðgerðunum í aðgerðaáætluninni til framkvæmdar. Þessar aðgerðir munu skipta sköpum í að ná árangri á næstu árum í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í íslensku samfélagi og stórauka kolefnisbindingu“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Það þarf stórkostlegt átak til að auka samdrátt á öllum sviðum samfélagsins og slíkt gerist með samstilltu átaki allra, vandaðri áætlanagerð og fjármögnun. Hér höfum við verkfærin til þess, í 50 liðum. Blaðinu hefur verið snúið við í loftslagsmálum og skipið stefnir nú í rétta átt, við sjáum vísbendingar um það í losunartölum síðustu tveggja ára. Nú þarf bara að hlaupa enn hraðar og ná enn meiri árangri og það verður stærsta verkefni stjórnmálanna á næstu árum.“

 

 

Bráðabirgðatölur sýna samdrátt í losun

Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar yfir losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2020, sem birtar voru í júlí sl., dróst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi saman um 5% milli áranna 2019 og 2020. Ef einungis er litið til losunar á beinni ábyrgð Íslands (þ.e. þeirrar losunar sem fellur utan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (ETS)), nemur samdrátturinn rúmlega 6,5% milli ára.

Fylgst með árangri í samdrætti á þrennskonar hátt

Frá því að aðgerðaáætlunin var gefin út hefur áhersla verið á að hrinda aðgerðum í framkvæmd og að fylgjast með árangri. Það mat er þríþætt:

  1. Í fyrsta lagi er framgangur einstakra aðgerða metinn með árangursmælikvörðum í stöðuskýrslu
  2. Í öðru lagi heldur Ísland bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda þar sem fram kemur losun á hverjum tíma og,  
  3. Í þriðja lagi er gerð spá um þróun losunar fram í tímann.

Unnið verður áfram við mat á árangri aðgerða og að setja mælikvarðana fram á aðgengilegri hátt á vef aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, www.Co2.is og greina og skilgreina áfangamarkmið til að tryggja enn betra yfirlit yfir árangur aðgerða.

Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira