Hoppa yfir valmynd
23. september 2021

Fundur Velferðarvaktarinnar 12. janúar 2021

46. fundur Velferðarvaktarinnar (fjarfundur)

12. janúar 2021 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá WOMEN, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Anna Lára Steindal frá Þroskahjálp, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Dís Skjaldal og Bergþór H. Þórðarson frá Pepp samtökunum, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf A. Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Rögnvaldur Gunnarsson frá heilbrigðisráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigþrúður Guðmundsdóttir frá Samtökum um kvennaathvarf, Silja Björk Björnsdóttir frá Geðhjálp, Sólveig Anna Jónsdóttir frá ASÍ, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu, Valgerður Bjarnadóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Viðar Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

___

1. Rannsókn Félagsvísindastofnunar á fyrirkomulagi matarúthlutana

Ásdís A. Arnalds, verkefnastjóri, kynnti helstu niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar sem framkvæmd var fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina um fyrirkomulag matarúthlutana og ráðgjafar þar sem meðal annars var kortlagt, í samvinnu við hjálparsamtök, notendur og félagsþjónustu, hvaða hópar eru að sækja þjónustu og hverjir þeirra búa við sérstaklega erfiðar aðstæður.  Báðir undirhópar Velferðarvaktar, sárafátæktarhópurinn og barnahópurinn, munu skoða skýrsluna á næstunni. Þá er stefnt að málþingi eða kynningu á skýrslunni síðar.

Sjá glærur.

2. Þriðja allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála (UPR)

Sunna Diðriksdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu, kynnti stöðuna á vinnslu þriðju allsherjarúttektar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála (UPR) sem fer fram 2021-2022. Sunna sagði m.a. frá fyrirhuguðum samráðsfundi með frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum þann 27. janúar nk. sem tilkynnt verður um nánar á næstu dögum. Drög að skýrslunni verða svo kynnt á samráðsgátt í maí. Skýrslan verður tekin fyrir í Genf í janúar 2022.

Hér má lesa nánar um úttektina.

3. Stafræn þjónusta sveitarfélaga

Fjóla María Ágústsdóttir, breytingastjóri stafrænnar þjónustu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kynnti framtíðarsýn sveitarfélaga varðandi aukna og samræmdari þjónustu á netinu s.s. umsóknir um fjárhagsaðstoð, félagslegar íbúðir o.s.frv. Hingað til hefur ekki verið mikil áhersla lögð á stafrænar lausnir meðal sveitarfélaga en það hefur verið að breytast síðustu misseri með auknum áhuga á kostum stafrænnar þjónustu. Með tilkomu ísland.is var stigið stórt skref í þessum efnum og tækifærin óteljandi þegar kemur að því að gera opinbera þjónustu skilvirkari og notendavænni.

Sjá glærur

4. Samvinna eftir skilnað (SES) - verkefni

Gyða Hjartardóttir, félagsráðgjafi, sérfræðingur í málefnum barna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og aðjúnkt við HÍ, kynnti verkefnið Samvinna eftir skilnað, sem er gagnreynd aðferð í að aðstoða foreldra við að sinna börnunum og vera í góðu samstarfi eftir skilnað. Með stuðningi félagsmálaráðuneytisins varð verkefnið aðgengilegt í tilraunaútgáfu í nokkrum sveitarfélögum á Íslandi þar sem foreldrar sem eru að skilja fá tækifæri til þess að prófa námskeið í þremur stafrænum áföngum, auk þess sem fagfólk hjá félagsþjónustu umræddra sveitarfélaga býður sérstaklega upp á bæði ráðgjöf í einstökum málum og námskeið fyrir fólk sem er skilið og á börn saman. Undirhópur Velferðarvaktar, barnahópurinn, mun ræða frekar um verkefnið á næstunni. Nánar má lesa um SES verkefnið hér.

Sjá glærur.

5. Örkynningar úr baklandinu

  • BSRB. Jón Ingi Cæsarsson sagði frá helstu verkefnum innan BSRB en um þessar mundir eru verkefni er lúta að styttingu vinnuvikunnar í brennidepli.
  • Geðhjálp. Silja Björk Björnsdóttir sagði frá því helsta í starfi samtakanna. 39 herferðin vakti mikla athygli á síðasta ári þar sem verið var að þrýsta á stjórnvöld að setja geðheilbrigðismál í forgang m.a. með því að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Verkefnin hafa litast af þróun Covid-19 en þó er margt í gangi t.d. er verið að efla aðgengi pólskumælandi einstaklinga að þjónustunni, vinna að sérstöku verkefni í þágu barna, setja á laggirnar styrktarsjóð o.fl.
  • Rauði krossinn. Elfa Dögg S. Leifsdóttir fór yfir stöðuna eftir erfitt ár. Metfjöldi símtala og netspjalla var á árinu 2020 sem rekja má til afleiðinga Covid-19 en margir hafa verið að upplifa kvíða, félagslega einangrun og sjálfsvígshugsanir. Hjálparsíminn tekur nú við símtölum á pólsku og mun auka þá þjónustu á næstunni. Rauði krossinn hefur áhyggjur af stöðu fólks af erlendum uppruna og stendur til að reyna að vinna betur með þann hóp á næstunni.
  • Unicef. Eva Bjarnadóttir fór yfir helstu verkefni en mikil áhersla hefur verið á innleiðingu Barnasáttmálans inn í starfsemi sveitarfélaga. Til stendur að færa það verkefni yfir til stjórnvalda og verður Ísland þar með fyrsta landið til þess að gera slíkt. Meðal annarra verkefna eru vinna við skýrslu til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, gerð skýrslu í samvinnu við Hagstofuna um skort barna, Réttindaskólar o.fl.
  • Þroskahjálp. Anna Lára Steindal fór yfir stöðuna en verkefnin hafa mörg hver tekið aðra stefnu í kjölfar Covid-19. Margt fatlað fólk upplifir félagslega einangrun, skólaganga nemenda á starfsbrautum hefur t.d. verið takmörkuð, erfitt hefur verið að halda úti starfsemi ungmennaráða o.fl. Þroskahjálp hefur einnig áhyggjur af foreldrum fatlaðra barna þar sem þau hafa þurft að vera mun meira heima. Staða fjármála hjá samtökunum er áhyggjuefni þar sem erfitt hefur reynst að fara í fjáraflanir. Anna sagði einnig frá myndböndum um málefni fatlaðs fólks sem búið er að gera á mörgum tungumálum.

6. Önnur mál

  • Vinna við stöðuskýrslu Velferðarvaktarinnar 2010-2020 er á lokastigum.
  • Gert ráð fyrir að fundir vaktarinnar verði í fjarfundaformi a.m.k. fram á sumar.
  • Næsti fundur verður 23. febrúar. Meðal efnis verður kynning á rannsókn á brotthvarfi úr framhaldsskólum. Nánari dagskrá verður send þegar nær dregur.

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira