Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Yfirlýsing um aukið samstarf Íslands og Grænlands undirrituð

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á fundinum. - myndUtanríkisráðuneytið.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Pele Broberg, ráðherra utanríkis-, iðnaðar-, viðskipta- og loftslagsmála á Grænlandi, undirrituðu í dag sameiginlega yfirlýsingu um aukið samstarf landanna tveggja. Þar fagna ráðherrarnir þróttmiklu samstarfi landanna með sérstakri áherslu á skýrsluna Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum sem kom út í ársbyrjun.

Alþingi Íslands samþykkti 31. maí sl. þingsályktun um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Þar er ríkisstjórninni falið, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftir tillögum í skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um aukin samskipti Grænlands og Íslands á sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman.

Íslensk og grænlensk stjórnvöld átt samráð um og samið meðfylgjandi sameiginlega yfirlýsingu ráðherranna. Þar fagna ráðherrarnir öflugu og afkastamiklu samstarfi landanna, sem styrkt var með opnun ræðismannsskrifstofu Íslands í Nuuk árið 2013 og Grænlands í Reykjavík árið 2018.

„Með undirritun yfirlýsingarinnar í dag höfum við stigið enn eitt skrefið í átt að stórefldum samskiptum við þennan næsta nágranna okkar. Grænlandsskýrslan lagði grunninn, þingsályktunartillagan veitti umboðið og yfirlýsingin í dag handsalar loks málið. Nú þegar við erum komin með nauðsynleg tæki og tól í hendur má segja að nýr kafli sé hafinn í þessu verkefni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

„Það er mér sannur heiður að fá að skrifa undir þessa mikilvægu yfirlýsingu í dag. Þessi sameiginlega yfirlýsing er til marks um djúpstaðan vilja grænlensku ríkisstjórnarinnar að styrkja tengslin við Ísland og leggur grunn að þeirri vinnu sem framundan er,“ segir Pele Broberg, ráðherra utanríkis-, iðnaðar-, viðskipta- og loftslagsmála á Grænlandi.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á hlutverk Grænlands og Íslands í tengslum við loftslagsbreytingar á norðurslóðum og að skýrslan Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum leggi traustan grunn að því að greina ný og fleiri samstarfssvið. Fagnað er auknum viðskiptum með vörur og þjónustu milli Grænlands og Íslands á undanförnum árum sem og endurupptöku beins flugs milli landanna. Það sé mikilvægt skref í átt að enduruppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu eftir heimsfaraldurinn. Þá er lýst yfir ánægju með aukið samstarf á sviði sjávarútvegs og vilja til að styrkja tvíhliða samstarf ríkjanna enn frekar á því sviði. Ennfremur láta ráðherrarnir í ljós vilja til að kanna grundvöll frekari viðræðna um aukið samstarf, þar á meðal á sviði fríverslunar.

  • Pele Broberg, ráðherra utanríkis-, iðnaðar-, viðskipta- og loftslagsmála á Grænlandi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira