Hoppa yfir valmynd
7. október 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 53,4 milljarðar árið 2020

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í gær og samhliða fundinum kom út ársskýrsla sjóðsins fyrir rekstrarárið 2020. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu tæpum 53,4 milljörðum króna árið 2020. 

Framlög Jöfnunarsjóðs skiptast í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra. Framlög vegna málefna fatlaðra námu tæplega 20,4 milljörðum kr. á árinu en næst á eftir komu jöfnunarframlög vegna grunnskóla sem námu tæplega 13,2 milljörðum kr.

Í ávarpi sínu fjallaði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um stöðu sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs á tímum kórónuveirufaraldursins. „Þegar áföll skella á okkur þá er mikilvægt að hafa búið í haginn fyrir erfiðleikana þegar kemur að fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Þegar áföll skella á okkur er mikilvægt að við eigum sterkbyggt og gott samfélag,“ sagði ráðherra.

Sigurður Ingi sagði að sveitarfélögin njóti nú umfangsmikilla aðgerða sem ríkið hafi gripið til vegna heimsfaraldursins. Með beinum og óbeinum hætti hafi þær gert það að verkum að útkoma sveitarfélaganna árið 2020 var mikið í samræmi við fjárhagsáætlanir sveitarfélaga.

„Það sama á við um Jöfnunarsjóð. Tekjurnar aukast um meira en 6% milli áranna 2019 og 2020. Þetta sýnir að okkur tókst að verja sjóðinn og tryggja lögbundið hlutverk hans. Það er einhver óvissa með horfur á þessu ári og hugsanlega verður hækkun tekna sjóðsins eitthvað minni. Það á þó eftir að koma í ljós þegar árið verður gert upp, en víða er komin góður gangur í atvinnulífið eftir erfiðan tíma – t.d. í ferðaþjónustu. Ég staðfesti nýlega endurskoðaða áætlun fyrir útgjaldajöfnunarframlög ársins og þar bættist milljarður við. Við getum því leyft okkur að vera bjartsýn,“ sagði Sigurður Ingi.

Ráðherra fjallaði um mikilvægt hlutverk Jöfnunarsjóðs sem hafi aukist jafnt og þétt, einkum vegna flutnings málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. 25 ár væru nú liðin frá því að málefni grunnskólans voru færð til sveitarfélaganna og 11 frá því að málefni fatlaðs fólks voru flutt. Ráðherra sagði Jöfnunarsjóð byggja á traustum grunni og ítrekaði að byggðasjónarmið væru sérstaklega mikilvæg í starfsemi sjóðsins.

Viðbótarframlag frá ríkissjóð skipti sköpum

Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, fór yfir störf sjóðsins á árinu 2020 og ársreikning sjóðsins. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu tæpum 53,4 milljörðum króna árið 2020 og fram kom að tekjuafgangur sjóðsins hafi verið 48 milljónir króna á árinu. Fram komi í máli Guðna Geirs að viðbótarframlag úr ríkissjóði að fjárhæð 2.140 m.kr. hafi skipt sköpum fyrir sjóðinn á árinu og varið þann tekjusamdrátt sem sjóðurinn varð fyrir vegna Covid-19. Viðbótarframlögunum var varið með eftirfarandi hætti: 670 m.kr var varið til að koma til móts við lækkun framlaga vegna þjónustu við fatlað fólk. 720 m.kr. var varið til sveitarfélaga þar sem rekstrarkostnaður jókst vegna mikillar fjárhagsaðstoðar, 500 m.kr. var varið til sveitarfélaga sem glímdu við lækkun tekna af útsvari og 250 m.kr. var varið til sameininga sveitarfélaga.

Stórátak í aðgengismálum fyrir fatlað fólk

Guðjón Sigurðsson, aðgengisfulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, og María Lovísa Guðjónsdóttir kynntu stórátak á vegum Öryrkjabandalagsins í samvinnu við ríki og sveitarfélögum, um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk í opinberum byggingu, útivistarsvæðum og almenningsgörðum. Alls verður um 700 milljónum kr. varið í úrbætur á aðgengismálum til loka árs 2022. Jöfnunarsjóður leggur fram helming fjármagns í úrbætur á móti sveitarfélögum. Samkomulag um verkefnið var undirritað fyrr í ár af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og barnamálaráðherra og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þá flutti Birgir Guðmundsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, fyrirlestur um nýlega skýrslu starfshóps um svæðisbundið hlutverk Akureyrar en hann var formaður hópsins. Starfshópnum var falið að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Megintillaga starfshópsins er að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði flokkuð í byggðastefnu stjórnvalda sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira