Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Þátttaka utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á Norðurlandaráðsþingi

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í Kaupmannahöfn. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sótti tvo tvíhliða fundi og fund norrænna utanríkisráðherra (N5) samhliða þátttöku sinni í dagskrá Norðurlandaráðsþings sem fram fór dagana 1.-4. nóvember í Kaupmannahöfn. Norrænt samstarf í öryggis- og utanríkismálum var ofarlega á baugi á nýafstöðnu þingi en Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, var gestaræðumaður á þinginu og kynnti m.a. áherslur í varnar- og öryggismálum sem varða Norðurlönd.

Á fundi norrænu utanríkisráðherranna (N5) á þriðjudag leiddi Guðlaugur Þór umræður um norrænt samstarf á sviði öryggismála og tengslin yfir Atlantshafið. Guðlaugur Þór áréttaði að sterk tengsl yfir Atlantshafið væru Norðurlöndunum öllum mikilvæg.

„Norræn samstaða og eining skiptir öllu máli þegar kemur að því að takast á við núverandi ógnir í öryggismálum. Skýrsla Björns Bjarnasonar leggur ríkulega áherslu á þetta og undirstrikar einnig þau tækifæri sem við höfum til þess að ná sameiginlegum markmiðum okkar. Þar á meðal eru traust tengsl yfir Atlantshafið,“ sagði Guðlaugur Þór en á fundi sínum í Stokkhólmi í október 2019 ákváðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna að fela Birni Bjarnasyni, fyrrum utanríkisráðherra, að skrifa skýrslu þar sem gerðar yrðu tillögur um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. Alvarlega staða í Afganistan, málefni Sameinuðu þjóðanna ásamt helstu áskorunum innan ÖSE voru einnig til umræðu á fundinum.

Í ræðu sinni á fundi varnarmálaráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Kristjánsborgarhöll lýsti Guðlaugur Þór yfir ánægju sinni með norræna varnarsamstarfið og fagnaði því að hafa vettvang fyrir skoðanaskipti norrænna ríkja um áskoranir í varnarmálum.

„Samstarfið hefur reynst framúrskarandi vettvangur til að ræða stöðu mála og næstu skref í norræna varnarsamstarfinu, og öryggismálin út frá nærumhverfinu sem og öryggis- og varnarpólitík,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í ræðu sinni á fundi utanríkisráðherra á þingi Norðurlandaráðs þakkaði ráðherra Finnum fyrir skelegga framgöngu í formennsku norræna utanríkisráðherrasamstarfsins. Sagði hann norrænt samstarf vera einstakt og sem ríkjahópur eigi Norðurlöndin sterka rödd á alþjóðavettvangi sem geri þeim kleift að hafa umtalsverð áhrif í fjölþjóðlegu samstarfi.

„Loftlagsbreytingar og fjölþáttaógnir á borð við netárásir og upplýsingaóreiðu grafa nú undan þeim stöðugleika sem við höfum búið við og ekkert ríki getur eitt og sér tekið á þeim áskorunum. Árangur næst einungis með öflugri samvinnu og því er mikilvægt að við sameinum krafta okkar og byggjum á sterkum stoðum norrænnar samvinnu,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherra átti jafnframt tvíhliða fundi með utanríksráðherrum Noregs og Finnlands sem fram fóru í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Guðlaugur Þór hóf dagskrá sína á þriðjudag með tvíhliða fundi með Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs þar sem Norðurskautsráðið, norræn samvinna innan Sameinuðu þjóðanna og EES-mál voru helst til umræðu.

Í kjölfarið fór svo fram fundur með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands. Þar voru tvíhliða mál, 75 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Finnlands á næsta ári, svæðisbundin samvinna og málefni norðurslóða efst á baugi.

Guðlaugur Þór fundaði jafnframt með forsætisnefnd Norðurlandaráðs ásamt starfssystkinum sínum þar sem Norðurskautsráðið, málefni Evrópusambandsins, Eystrasaltssvæðið og tengslin yfir Atlantshafið voru helstu mál á dagskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira