Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Loftslagsvænn landbúnaður fékk hvatningarviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu

Guðbrandur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Vanda Úlfrún Liv Hellsing sérfræðingur umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Gústav M. Ásbjörnsson, sviðsstjóri Landgræðslunnar, Berglind Ósk Alfreðsdóttir verkefnisstjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi og Borgar Páll Bragason fagstjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. - myndDúi J. Landmark

Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður sem er samstarfsverkefni, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fékk hvatningarviðurkenningu á loftslagsfundi Reykjavíkurborgar og Festu sem haldinn var í Hörpu í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Líf Magneudóttir formaður dómnefndar afhentu viðurkenninguna.

Loftslagsvænn landbúnaður hófst í ársbyrjun 2020 þegar fimmtán sauðfjárbúum var boðin þátttaka í verkefninu, sem hefur það takmark að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu í landbúnaði í gegnum markvissar aðgerðir.

Verkefnið hefur stækkað jafnt og þétt, og eru nú um 40 sauðfjár- og nautgripabændur þátttakendur, en hvert bú tekur þátt fjögur til fimm ár í senn. Fulltrúar Landgræðslunnar, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Skógræktarinnar stýra verkefninu, en jafnframt kemur að því fjölbreyttur hópur ráðgjafa frá þessum aðilum. Þátttakendum býðst heildstæð ráðgjöf og fræðsla um það hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar. Verkefninu var komið á af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem jafnframt fjármagna það.

Hvert þátttökubú setur sér skriflega aðgerðaáætlun sem tekur mið af aðstæðum og möguleikum. Aðgerðaáætlunin er endurskoðuð árlega og er verkfærakista þátttakenda til að vinna að loftslagsvænum landbúnaði. Í henni kemur fram hvernig dregið skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbinding aukin i búrekstrinum.

„Losun frá landi og búfénaði er meðal þeirra stóru áskorana sem Ísland þarf að takast á við í loftslagsmálum. Loftslagsvænn landbúnaður er ein aðgerða stjórnvalda í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum  og getur orðið fyrirmynd að nauðsynlegum breytingum í landbúnaði með loftslagsmál að leiðarljósi. Verkefnið hefur þróast hratt síðustu tvö ár með góðu samstarfi stofnana og þeirra 40 bænda sem nú eru þátttakendur í því. Viðurkenningin er mikilvæg hvatning til að halda áfram og ég þakka öllum þeim sem komið hafa að þróun verkefnisins fyrir frábært starf,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Það eru stór verkefni fram undan í loftslagsmálum og aukin áhersla hefur verið lögð á þau við endurskoðun búvörusamninga landbúnaðarins á síðustu misserum. Bændur hafa sjálfir sett sér stefnu um kolefnishlutleysi 2030 og unnið er að aðgerðum í landbúnaði og landnotkun í samræmi við aðgerðaætlun stjórnvalda.  Loftslagsvænn landbúnaður er eitt mikilvægasta verkefnið, enda verður markmiðum ekki náð án virkrar og víðtækrar þátttöku bænda.  Það er ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu og það er þýðingarmikið að gera enn fleiri bændum kleift að taka þátt,“ segir Kristján Þór Júlísson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

  • Viðurkenningarhafar ásamt fulltrúum Reykjavíkurborgar og Festu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum