Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Hraðari græn umskipti og stafræn þróun rædd á fundi EES-ráðsins

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, sótti fundinn fyrir Íslands hönd. - myndEFTA

Samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að tryggja lykilaðföng og hraðari græn umskipti og stafræna þróun voru meðal umræðuefna á fundi EES-ráðsins sem fram fór í Brussel í dag. Í umræðu um alþjóðamál samhliða fundinum var einnig rætt um samskiptin við Kína, stöðu mála í Belarús og nýjan vegvísi Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, fór fyrir sendinefnd Íslands í fjarveru utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Í tilefni af fundinum áréttaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra mikilvægt hlutverk atvinnulífsins við að skapa grænar lausnir.

„Aðgerðir til að efla öryggi aðfanga eiga að miða að því að fjölga valkostum í aðfangaöflun, frekar en að reisa múra. Þegar kemur að grænum umskiptum og stafrænni þróun er lykilatriði að leysa úr læðingi hugvit og nýsköpun, ekki síst varðandi grænar lausnir. Hlutverk atvinnulífsins og þær lausnir sem fyrirtæki þróa verða lykillinn að því að takast á við loftslagsvanda og tryggja lífskjör sem aftur skapar sátt um umbreytinguna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á fundinum var einnig rætt um stöðu og framkvæmd EES-samningsins. Lagði Ísland áherslu á góða framkvæmd samningsins og það að standa vörð um tveggja stoða kerfi hans. Ítrekaði Ísland jafnframt kröfu sína um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir inn til ESB. Það væri umhugsunarefni að á sama tíma og EFTA-ríkin innan EES hefðu sífellt bætt í framlög til Uppbyggingarsjóðs EES hefði markaðsaðgangur ríkjanna fyrir sjávarafurðir í besta falli staðið í stað. Þá væri mikilvægt að flýta vinnu við endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB til að takast á við það ójafnvægi sem í samningnum fælist. 

Þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA funduðu einnig um fríverslunarnet samtakanna í tengslum við fund EES-ráðsins. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði en Ísland er í formennsku í EFTA-samstarfinu um þessar mundir.

EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári og er hlutverk þess einkum að vera pólitískur aflvaki við framkvæmd EES-samningsins. EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB.

Sjá nánar yfirlýsingu EFTA-ríkjanna í EES um EES-ráðsfundinn.

  • Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Pascal Schafhauser, sendiherra Liechtenstein gagnvart Evrópusambandinu, Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel og Zdravko Počivalšek, ráðherra efnahags- og tækniþróunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira