Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur frá landsráði um endurskoðun verkaskiptingar heilbrigðisstétta o.fl.

  - myndStjórnarráðið

Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu hefur skilað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögum sem lúta að endurskoðun verkaskiptingar heilbrigðisstétta. Tillögurnar fela í sér aðgerðir sem miða að því að gera ólíkum heilbrigðisstéttum kleift að nýta sérhæfni sína sem best við dagleg störf, færa minna sérhæfðu starfsfólki aukin verkefni og gera þannig heilbrigðisstarfsfólki kleift að verja sem mestum hluta vinnutíma síns við hámark sinnar hæfni. Ráðherra hefur samþykkt tillögur landsráðs. Landsráð skiptir verkefnunum sem hafa þetta að markmiði í úrlausnarefni sem ráðist verði í innan sex mánaða annars vegar og innan tveggja ára hins vegar. Landsráð telur mörg tækifæri felast í endurskoðun á verkaskiptingu þar sem þjónusta við notendur sé höfð að leiðarljósi og aukin áhersla lögð á teymisvinnu. Endurskoðuninni er ætlað að þjóna hagsmunum heilbrigðiskerfisins með áherslu á gæði, öryggi og hagkvæmni þjónustunnar.

Í vinnu sinni leitaði landráðið til fjölmargra hagsmunaaðila til upplýsingaöflunar og til að heyra sjónarmið sem flestra. Fundað var með fulltrúum allra heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa, fulltrúum hjúkrunarheimila, menntastofnana og fulltrúum þriggja stærstu fagfélaganna. Áður höfðu hagsmunaaðilum verið sendir staðlaðir spurningalistar sem jafnframt var byggt á í vinnunni við að greina úrlausnarefnið. Landsráð hyggst funda með fleiri aðilum næstu þrjá mánuði. 

Helstu niðurstöður greiningar landsráðs:

Í meðfylgjandi skjali með niðurstöðum og tillögum landsráðs kemur m.a. fram að verkaskipting heilbrigðisstétta hefur ekki verið endurskoðuð formlega og ekki er skýr farvegur fyrir slíka endurskoðun. Slík skoðun fer helst fram þegar skortur er á tilteknum faghópum. Dæmi eru um að þekkingu á menntun og hæfni sumra faghópa sé áfátt innan stofnana. Mismunandi er hve oft starfslýsingar eru endurskoðaðar á heilbrigðisstofnunum og hvernig að því er staðið. Í sumum tilvikum fer slík endurskoðun fram án aðkomu þeirrar fagstéttar sem á að starfa í samræmi við starfslýsinguna. Teymisvinna er sums staðar ekki hluti af formlegri sí- og endurmenntun faghópa og munur er á því hvort og hvernig faghópar eru þjálfaðir saman til ákveðinna verka. Sumar fagstéttir þurfa að fá starfsfólk úr öðrum stéttum til að skrá upplýsingar um sjúklinga í sjúkraskrá þar sem þær skortir heimild til skráningarinnar og þykir þetta hamlandi fyrir hagkvæmni í verkaskiptingu. 

Atriði sem hagsmunaaðilar eru einhuga um:

Hagsmunaaðilar eru flestir sammála um að mörg tækifæri felist í endurskoðun á verkaskiptingu. Við endurskoðunina þurfi að horfa á heildamyndina með áherslu á þarfir notenda þjónustunnar og aukna þverfaglega teymisvinnu og samvinnu. Auka þurfi fræðslu um menntun, hæfni og þekkingu ólíkra heilbrigðisstétta með það í huga að allir geti unnið sem mest við hámark sinnar hæfni. Nauðsynlegur grunnur séu hæfni- og færniviðmið fyrir hverja heilbrigðisstétt. Við endurskoðunina þurfi að horfa á þá þætti sem eru sameiginlegir en ekki þá sem aðgreina og því sé mikilvægt að horfa til þarfa sjúklingahópa/notenda í stað einstakra faghópa. Þá eru aðilar flestir sammála um að nýta þurfi í meira mæli heilbrigðistæknilausnir til að létta störf heilbrigðisstétta, t.d. skanna fyrir lyfjagjöf, spjaldtölvur til skráningar o.fl.

Í meðfylgjandi umfjöllun og tillögum landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu eru settar fram níu tillögur um aðgerðir sem ráðist verði í innan sex mánaða til að vinna markvisst að endurskoðun verkaskiptingar heilbrigðisstétta og koma verkefninu í skipulagt ferli. Þar er m.a. gert ráð fyrir vinnustofum um efnið með hagsmunaaðilum, endurskoðun á námsskrám, upplýsingaöflun um þjálfun og símenntun starfsfólks, kortlagningu á því hvort og hvaða takmarkanir kunna að felast í lögum og reglugerðum varðandi endurskoðun á verkaskiptinu heilbrigðisstétta og skipulagningu endurmenntunarnámskeiða með áherslu á aukna teymisvinnu. Jafnframt setur landsráðið fram fimm tillögur um verkefni til næstu tveggja ára um innleiðingu og eftirfylgni endurskoðunar á verkaskiptingu heilbrigðisstétta, starfslýsinga þeirra og skilgreiningu hæfnisviðmiða með hliðsjón af þörfum notenda.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira