Hoppa yfir valmynd
10. desember 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stærsta úthlutun Tækniþróunarsjóðs: Rúmir 3 milljarðar kr. til 146 verkefna

Tilkynnt hefur verið um þau 63 verkefni sem hljóta styrki í síðari úthlutun Tækniþróunarsjóðs árið 2021. Sjóðurinn er opinber samkeppnissjóður sem styður við rannsóknir og nýsköpun sem leiða til ávinnings fyrir íslensk atvinnulíf. Úthlutun þessa árs er sú langstærsta í sögu sjóðsins, alls er samið um styrki til 146 verkefna og nema þeir styrkir um 3,1 milljarði kr. Aukinheldur styrkir sjóðurinn íslenska þátttakendur í sex alþjóðlegum verkefnum og nemur heildarfjárhæð styrkja Tækniþróunarsjóðs því rúmlega 3,3 milljörðum kr. í ár.  

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunaráðherra:

„Úthlutun Tækniþróunarsjóðs er til marks um þann mikla sköpunarkraft í íslenskum rannsóknum og atvinnulífi. Það ber einnig vitni um áherslur og stefnu íslenskra stjórnvalda þegar kemur að mikilvægi rannsókna, þróunar- og nýsköpunar. Mér finnst sérstaklega jákvætt að sjá að árangurshlutfallið hefur hækkað úr 15% í 21% í þessari úthlutun. Verkefnin eru spennandi og ég hlakka til að fylgjast með þeim vaxa enn frekar.“

Öfugir innlendir samkeppnissjóðir gera vísindamönnum og frumkvöðlum kleift að öðlast mikilvæga færni og styðja við fjölbreytta nýsköpun á mikilvægu vaxtarskeiði hennar. Innlendir samkeppnissjóðir eru líka stökkpallur út í alþjóðlegt samstarf og efla þannig möguleika vísindamanna og fyrirtækja hér á landi á að vera í fararbroddi á alþjóðavísu

Hækkun framlaga til samkeppnissjóða, eins og Tækniþróunarsjóðs, er aðgerð innan Vísinda- og tæknistefnu 2020-2022, liður í Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og viðspyrnu aðgerða stjórnvalda vegna heimsfaraldurs COVID-19. Framlög til sjóðsins voru aukin um tæp 60% milli áranna 2019 og 2020. 

Nýsköpunarverkefni sem berast Tækniþróunarsjóðir eru afar fjölbreytt; allt frá hugmyndum á frumstigi til verkefna sem eru langt komin í vöruþróun. Að þessu sinni voru meðal annars styrkt verkefni úr matvælavinnslu, lyfjaþróun, tölvuleikjagerð og heilbrigðistækni. 

Dæmi um verkefni sem fá stuðning að þessu sinni eru hugbúnaður sem hermir hljóðvist við hönnun bygginga, endurvinnsluferli á plasti með nýtingu glatorku frá iðnaði og umhverfisvæn framleiðsla á nítrat áburði. 

Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef RANNÍS.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum