Hoppa yfir valmynd
16. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Yfirlit yfir áður óbirta þjóðréttarsamninga birt á Stjórnarráðsvefnum

Sérstakt yfirlit yfir þjóðréttarsamninga frá tímabilinu 2012-2020 hefur nú verið gert aðgengilegt á vef Stjórnarráðsins. Yfirlitið er hluti af átaksverkefni utanríkisráðuneytisins um birtingu áður óbirtra samninga og veitir upplýsingar um stöðu hvers samnings.

Í fyrra ákvað utanríkisráðuneytið að ráðast í sérstakt átaksverkefni til að setja upp og birta í Stjórnartíðindum þá þjóðréttarsamninga sem höfðu safnast upp óbirtir allt frá um 2007. Unnið hefur verið jafnt og þétt að verkefninu síðasta árið og tugir samninga sendir til birtingar nú þegar. Fleiri samningar eru í vinnslu, lögfræðilegri yfirferð og textafrágangi og verða birtir á næstu mánuðum í góðu samstarfi við Stjórnartíðindi.

Í því skyni að auka sýnileika átaksverkefnisins og auðvelda leit að samningum frá þessu tímabili, hefur utanríkisráðuneytið birt á vefnum yfirlit yfir samningana. Þar koma fram upplýsingar um þá eftir árum, hvort þeir hafa tekið gildi, eru birtir eða í vinnslu og undirbúningi. Við birta samninga fylgir auglýsing og texti samningsins úr Stjórnartíðindum. Upplýsingasíðan gerir þessar upplýsingar aðgengilegar og veitir yfirsýn yfir stöðu mála. Í forgangi er birting samninga sem ekki eru aðgengilegir annars staðar. Einnig verður unnið að birtingu samninga sem aðgengilegir eru á ensku nú þegar, eða eru tiltækir t.d. á íslensku á vef Alþingis. Í tengslum við átaksverkefni ráðuneytisins hefur nú þegar verið birt yfirlit yfir samninga sem fullgiltir voru árin 2012-2018. Til viðbótar hafa verið birtir nýrri samningar frá árunum 2019 og 2020. Áætlanir gera ráð fyrir að eldri samningar sem staðfestir voru á árunum 2007-2011 verði birtir á næstu mánuðum.

Samhliða verkefninu er unnið að uppfærslu heildstæðrar samningaskrár Íslands í skjali sem birt hefur verið reglulega og auðveldar uppflettingu og leit að einstökum samningum. Einnig verður kannaður möguleiki á skönnun eldri samningaskráa og birtra þjóðréttarsamninga sem ekki eru aðgengilegir rafrænt, til þess að auðvelda aðgengi enn frekar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira