Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Þróun Covid-19 faraldursins frá afléttingu sóttvarnaráðstafana 25. febrúar sl.

Covid-19 faraldurinn hér á landi er á hröðu undanhaldi eftir að öllum takmörkunum vegna hans var aflétt 25. febrúar síðastliðinn. Á þeim tíma var gert ráð fyrir að víðtækt samfélagslegt ónæmi gegn faraldrinum, með allt að 80% hlutfalli bólusettra og/eða smitaðra, myndi nást síðari hlutann í mars. Þetta virðist hafa gengið eftir. Álag á heilbrigðisstofnanir fer minnkandi og smitum fækkandi sem m.a. má sjá af því að hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda greindra smita hefur lækkað. Í dag, 4. apríl, liggja 35 sjúklingar með Covid-19 smit á Landspítala, þar af 1 á gjörgæslu og hafa ekki verið færri síðan 12. febrúar síðastliðinn.

Fyrstu tvær vikurnar eftir afléttingu allra takmarkana jókst álag á heilbrigðisþjónustuna til muna vegna útbreiddra veikinda og fjarvista starfsfólks og fleiri innlagna sjúklinga með Covid-19. Innlögnum á gjörgæslu fjölgaði hins vegar ekki. Undanfarnar tvær til þrjár vikur hefur álag á heilbrigðisstofnanir minnkað dag frá degi. Á landinu öllu eru nú, 4. apríl, 41 einstaklingur með Covid-smit á sjúkrahúsi, þar af tveir á gjörgæslu. Það er til marks um betri stöðu að 28. mars sl. var Landspítali færður af neyðarstigi á hættustig.

Líkt og í öðrum löndum er ómíkron-afbrigði kórónaveirunnar hér alls ráðandi hér á landi og enn sem komið hafa ekki komið fram afbrigði sem líkleg eru til að ná aukinni útbreiðslu.

Fyrir áramót 2022 greindust samtals 30.487 manns með COVID-19 hérlendis en eftir áramót hafa greinst 150.239 manns. Endursmit hefur greinst hjá 3.972. Af endursmitum hafa sex manns greinst þrisvar sinnum en aðrir tvisvar sinnum, samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis.

Upplýsingar af vef Landspítala 4. apríl

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum