Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenningar veittar á Degi umhverfisins

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum 7. bekkjar Sæmundarskóla. - mynd

Umhverfis-, orku-  og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti BYKO í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Sæmundarskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins.

„Það er ánægjulegt að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum, sem eru ein brýnustu mál samtímans. Þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð og vilja leggja sitt af mörkum til þess að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og hámarka jákvæð áhrif,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Þessi vitundarvakning endurspeglast meðal annars í mikilli grósku í umhverfismálum sem nú er innan margra fyrirtækja og stofnana landsins. Tilnefningar til umhverfisverðlauna eins og Kuðungsins sýna einmitt að mörg fyrirtæki vilja ganga lengra í því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið en reglur segja til um og því ber að fagna.“

BYKO hlýtur Kuðunginn

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á BYKO sem handhafa Kuðungsins 2021 kemur fram að BYKO hafi náð miklum árangri í að draga úr umhverfisáhrifum eigin reksturs, sem og að skapa jákvæða hvata til að flýta fyrir þróun og eftirspurn eftir vistvænum byggingarframkvæmdum. BYKO hafi ráðist í fjölmargar aðgerðir til að draga úr losun tengdri innri starfsemi fyrirtækisins, m.a. með orkuskiptum á véla-, tækja- og bílaflota fyrirtækisins, sem og með uppsetningu hleðslustöðva fyrir starfsfólk og viðskiptavini.

BYKO hafi unnið markvisst unnið að því að þau gögn sem eru nauðsynleg fyrir stigagjöf í vistvottunarkerfunum séu aðgengileg gegnum heimasíðu fyrirtækisins, ásamt því að auka vistvænt vöruframboð og sýnileika þess. Einnig hafi  BYKO lagt mikið upp úr kynningu á vistvænum byggingaraðferðum fyrir fagfólki, sem og lagt áherslu á að starfsfólk sitt sæki námskeið til að afla sér réttinda og aukna þekkingu varðandi umhverfisvottaðar byggingar. 

BYKO lætur einnig verkin tala þegar kemur að áherslu á vistvænar byggingarframkvæmdir en nýjar höfuðstöðvar Byko við Breiddina verða BREEAM vottaðar. Að þeim framkvæmdum loknum er stefnt að BREEAM vottun á öllum starfsstöðvum BYKO. Með slíkum framkvæmdum sýnir BYKO gott fordæmi og skapar í leiðinni dýrmæta þekkingu fyrir komandi umhverfisvottaðar framkvæmdir,“ að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.

Það er keramikhönnuðurinn Arnbjörg Drífa Káradóttir sem bjó til Kuðunginn að þessu sinni. Gripurinn er unnin úr leir og situr á birkistalli úr Hallormsstaðarskógi. Drífa sækir innblástur sinn í sjóinn á Reykjanesinu þar sem hún býr og gætir þeirra áhrifa í náttúrulegum formum sem sem prýða Kuðunginn 2021 og sem hönnuðurinn nefnir lífanga.

BYKO öðlast rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Í dómnefnd sátu Tinna Hallgrímsdóttir, formaður, Brynjólfur Bjarnason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Heimir Janusarson f.h. Alþýðusambands Íslands og Auður Önnu Magnúsdóttir, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

Nemendur Sæmundarskóla Varðliðar umhverfisins 2022

Nemendur í 7. bekk Sæmundarskóla unnu verkefnið Hvað get ég gert? en við framkvæmd þess fundu nemendur fundu sjálfir hvað mætti bæta í nærumhverfi sínu og tóku skref í átt að því að bæta það. Verkefnin byggja á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og spretta út frá hugmyndum nemendanna sjálfra, og taka m.a. til flokkunar úrgangs, matarsóunar, endurnýtingar, skipulagsbreytinga á nærumhverfi og rannsóknir á ábyrgri neyslu og framleiðslu svo dæmi séu tekin.

Eiga verkefnin það öll sameiginlegt að vera innlegg nemenda að breytingum til batnaðar og frumraun þeirra sem þátttakendur í breytingum til sjálfbærari lifnaðarhátta.

Er það mat valnefndar að nemendur 7. bekkjar Sæmundarskóla hafi með verkefnum sínum  áttað sig á að þeir hafi rödd og geti haft áhrif, samhliða því að stíga sín fyrstu skref í að vera þátttakendur í mikilvægum breytingum. Þeim hafi því bæði í orði og verki tekist að vera sannkallaðir varðliðar umhverfisins.

Ávarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra 

Rökstuðningur dómnefndar Kuðungsins

Rökstuðningur valnefndar Varðliðanna

 
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum dómnefndar og BYKO sem er handhafi Kuðungsins 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira