Hoppa yfir valmynd
10. maí 2022 Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Fyrirtaka Íslands hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, áréttaði mikilvægi réttinda barna og aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að festa þau enn betur í sessi í ávarpi fyrir barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf 4.–5. maí sl. Nefndin tók þá fyrir fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Íslenska sendinefndin samanstóð af fulltrúum forsætisráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og fastanefnd Íslands í Genf. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, leiddi sendinefndina, ásamt Páli Magnússyni, ráðuneytisstjóra mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Sendinefnd Íslands og Harald Aspelund, sendiherra í Genf.

Í upphafsávarpi fyrirtökunnar lagði mennta- og barnamálaráðherra áherslu á að réttindi barna væru íslenskum stjórnvöldum hjartans mál og að hann hafi lagt áherslu á að knýja fram stórar kerfisbreytingar í þágu barna. Hann benti á að með þeim breytingum sem gerðar voru á skipulagi Stjórnarráðsins væru stjórnvöld að leggja pólitíska áherslu á að halda áfram að rífa niður múra milli kerfa og samræma betur alla vinnu og stefnumótun í málaflokkum sem tengjast börnum. Ráðherra fór m.a. yfir stefnu- og aðgerðaáætlun um barnvænt Ísland í erindi sínu, ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, mælaborð um farsæld barna og breytingar á barnaverndarlögum. Þá sagði ráðherra:

Á Íslandi höfum við tekið fjölmörg skref í átt að því að innleiða Barnasáttmálann. Þó svo að við séum stolt af þeim skrefum sem við höfum þegar tekið þá ætlum við ekki að láta staðar numið hér heldur halda áfram að vinna að því að börn njóti réttinda sinna til fulls.

Barnaréttarnefndin lagði fjölmargar spurningar fyrir sendinefndina og var einnig rætt um þátttöku barna, aðgengismál fatlaðra barna, eðlis- og stigsmun á veittri þjónustu milli sveitarfélaga, stöðu intersex-barna, brotthvarf úr skólum, heilbrigðismál og margt fleira.

Í framhaldi af fyrirtökunni mun barnaréttarnefndin vinna úr upplýsingum og svörum frá sendinefndinni og útbúa tillögur til stjórnvalda um hvað þurfi að bæta. Íslensk stjórnvöld munu taka ábendingum nefndarinnar fagnandi og nýta þær við áframhaldandi innleiðingu sáttmálans.

Ísland fullgilti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992 og sáttmálinn var lögfestur árið 2013.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna (e. Committee on the Rights of the Child) fer með eftirlit með samningnum. Aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að senda nefndinni reglulega skýrslur um stöðu á innleiðingu hans. Þetta var í fyrsta skipti frá árinu 2011 sem Íslandi gefst tækifæri til að fara fyrir nefndina og svara fyrir framkvæmd sáttmálans hér á landi.

Barnaréttarnefndin samanstendur af átján sérfræðingum sem eru kjörnir í leynilegri kosningu af lista yfir einstaklinga sem aðildarríkin hafa tilnefnt og er kjörtímabil fjögur ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira