Hoppa yfir valmynd

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

Um Barnasáttmálann

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn, eins og hann er iðulega nefndur í daglegu tali, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands 26. janúar 1990, fullgiltur 28. október 1992. Texti samningsins og valfrjálsra bókana við hann var síðar lögfestur í heild sinni árið 2013 með lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Barnasáttmálinn tryggir öllum börnum innan lögsögu aðildarríkisins öll þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Mörg þessara réttinda er jafnframt að finna í öðrum mannréttindasamningum, svo sem ýmis borgaraleg, stjórnmálaleg, félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi. Önnur taka mið af því að börn eru viðkvæmur hópur sem þarnast sérstakrar verndar.

Eftirlit

Eftirlit með samningnum er í höndum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en hlutverk hennar er að fylgjast með framkvæmd samningsins, auk þess sem hún gefur út almenn tilmæli um túlkun hans. Hefur nefndin meðal annars gefið út að öll ákvæði Barnasáttmálans skuli túlka út frá fjórum grundvallarreglum sem er að finna í 2., 3., 6. og 12. grein samningsins:

  • Að öllum börnum innan lögsögu aðildarríkis skuli tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum, án mismununar af nokkru tagi (2. gr.).
  • Að ávallt skuli tekið mið af því sem er barni fyrir bestu þegar yfirvöld taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem varða börn (3. gr.).
  • Að réttur sérhvers barns til lífs og þroska sé tryggður (6. gr.).
  • Að barni sé tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varða, og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska (12. gr.). 

Þau ríki sem hafa fullgilt Barnasáttmálann skuldbinda sig jafnframt til að senda Barnaréttarnefndinni reglulega skýrslur um innleiðingu samningsins. Nefndinni gefst þá færi á að gera athugasemdir og leggja fram spurningar um efni skýrslunnar og aðildarríkið getur síðan lagt fram viðbótarupplýsingar. Í kjölfarið gefur nefndin út lokaathugasemdir sínar þar sem bent er á hvað megi betur fara í framkvæmd aðildarríkisins til þess að það geti fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Hér neðar á síðunni er að finna skýrslur Íslands og lokaathugasemdir nefndarinnar

Barnaréttarnefndin um tekur einnig  við kvörtunum frá einstaklingum um að aðildarríki hafi brotið á réttindum þeirra samkvæmt samningnum, að því gefnu að ríkið hafi átt aðild að samningnum og samsvarandi valfrjálsri bókun við hann þegar brotið átti sér stað, og að öðrum skilyrðum samkvæmt bókuninni sé fullnægt. Ísland er ekki aðili að bókuninni.

Valfrjálsar bókanir

Gerðar hafa verið þrjár valfrjálsar bókanir við samninginn og hefur Ísland fullgilt tvær þeirra. Fyrstu tvær bókanirnar voru samþykktar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 25. maí 2000. Annars vegar bókun um börn í vopnuðum átökum, sem Ísland fullgilti 9. júlí 2001, og hins vegar um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám, sem Ísland fullgilti 1. október 2001. Þriðja bókunin var samþykkt 19. desember 2011 og varðar hún kæruleið fyrir einstaklinga og hópa til nefndarinnar vegna brota á samningnum og fyrstu tveimur bókununum við hann. Ísland er ekki aðili að bókuninni.

Framkvæmd

Forsætisráðuneytið ber meginábyrgð á skuldbindingum Íslands samkvæmt Barnasáttmálanum en málefni sem varða börn og þau réttindi sem njóta verndar sáttmálans snerta vinnu flestra ráðuneyta. Auk forsætisráðuneytisins bera mennta- og barnamálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið þó sérstaka ábyrgð á framkvæmdinni.

Texti samningsins og valfrjálsra bókana

Helstu staðreyndir

Staða:  Lögfestur
Titill á ensku:  Convention on the Rights of the Child (CRC)
Eftirlitsaðili:  Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna
Kæruleið:  Til staðar samkvæmt 3. valfrjálsu bókun við samninginn, en Ísland er ekki aðili að bókuninni

 

Helstu hugtök

Undirritun

Með undirritun gefur ríki til kynna áform sín um að undirgangast skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Fullgilding

Með fullgildingu skuldbindur Ísland sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Oft þarf aðkomu Alþingis til að hægt sé að fullgilda alþjóðasamninga.

Lögfesting

Með lögfestingu samnings er texti hans í heild settur í lög og einstaklingum þar með gert kleift að byggja á ákvæðum hans fyrir innlendum dómstólum.

Innleiðing

Með innleiðingu eru réttindi og skyldur samkvæmt samningi gerð virk í landsrétti aðildarríkisins. Innleiðing getur átt sér stað með lagasetningu eða öðrum úrræðum sem duga til að tryggja framkvæmd samningsins.

Valfrjáls bókun

Viðauki við alþjóðlegan samning sem inniheldur viðbótarskuldbindingar fyrir aðildarríki. Aðildarríki hafa val um hvort þau gerist aðilar að bókunum.

Skýrslur

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum