Hoppa yfir valmynd

Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum

Um sáttmálann

Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum, stundum einnig nefndur Kvennasamningur Sameinuðu þjóðanna, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 1979. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands 24. júlí 1980 og fullgiltur 18. júní 1985. 

Samningurinn miðar að því að tryggja konum jöfn réttindi á við karla. Ákvæðum hans er gjarnan skipt í þrjá flokka: leiðréttingarreglur sem varða nauðsynlegar aðgerðir til að leiðrétta hlut kvenna, verndarreglur sem varða sérstaka stöðu kvenna (t.d. í tengslum við þungun og barneignir), og jafnréttisreglur sem varða jafnt aðgengi að samfélagslegum gæðum á borð við stjórnmálaþátttöku, menntun og heilbrigðisþjónustu. 

Eftirlit

Eftirlit með samningnum er í höndum Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna en hlutverk hennar er að fylgjast með framkvæmd samningsins, auk þess sem hún gefur út almenn álit sem lúta að túlkun samningsins eða efnissviði hans og nefndinni þykir ástæða til að vekja sérstaka athygli aðildarríkja á. 

Þau ríki sem hafa fullgilt samninginn skuldbinda sig til að senda nefndinni reglulega skýrslur um innleiðingu samningsins. Nefndinni gefst þá færi á að gera athugasemdir og leggja fram spurningar um efni skýrslunnar og aðildarríkið getur síðan lagt fram viðbótarupplýsingar. Í kjölfarið gefur nefndin út lokaathugasemdir sínar þar sem bent er á hvað megi betur fara í framkvæmd aðildarríkisins til þess að það geti fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Hér neðar á síðunni er að finna skýrslur Íslands og lokaathugasemdir Kvennanefndarinnar

Nefndin getur tekið við kvörtunum frá einstaklingum og hópum einstaklinga á grundvelli valfrjálsrar bókunar við samninginn, en þó er almennt skilyrði að fullreynt hafi verið að fá leyst úr málinu með tiltækum leiðum innanlands. Ísland er aðili að bókuninni.

Valfrjálsar bókanir

Valfrjáls bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa til nefndarinnar vegna brota á samningnum var samþykkt og undirrituð af Íslands hálfu 10. desember 1999.  Bókunin var fullgilt hér á landi árið 2001.

Framkvæmd

Forsætisráðuneytið ber meginábyrgð á skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum. Jafnrétti kynjanna kemur þó inn á málaflokka allra ráðuneyta með einum eða öðrum hætti.

Texti samningsins

Helstu staðreyndir

Staða:  Fullgiltur
Titill á ensku:  Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women (CEDAW)
Eftirlitsaðili:  Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna
Kæruleið:  Til staðar samkvæmt valfrjálsri bókun við samninginn

 

Helstu hugtök

Undirritun

Með undirritun gefur ríki til kynna áform sín um að undirgangast skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Fullgilding

Með fullgildingu skuldbindur Ísland sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Oft þarf aðkomu Alþingis til að hægt sé að fullgilda alþjóðasamninga.

Lögfesting

Með lögfestingu samnings er texti hans í heild settur í lög og einstaklingum þar með gert kleift að byggja á ákvæðum hans fyrir innlendum dómstólum.

Innleiðing

Með innleiðingu eru réttindi og skyldur samkvæmt samningi gerð virk í landsrétti aðildarríkisins. Innleiðing getur átt sér stað með lagasetningu eða öðrum úrræðum sem duga til að tryggja framkvæmd samningsins.

Valfrjáls bókun

Viðauki við alþjóðlegan samning sem inniheldur viðbótarskuldbindingar fyrir aðildarríki. Aðildarríki hafa val um hvort þau gerist aðilar að bókunum.

Skýrslur

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum