Mannréttindi í utanríkisstefnunni
Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Í samræmi við 55. og 56. gr stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa aðildarríkin skuldbundið sig til aðgerða sem stuðla að og efla viðurkenningu á mannréttindum og grundvallarfrelsi án nokkurrar mismununar.
Rúm sjötíu ár eru nú liðin frá því mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt í desember 1948. Þrátt fyrir að mannréttindayfirlýsingin sé ekki bindandi þá hefur hún í áranna rás áunnið sér þann sess að vera gildandi þjóðaréttur og sá grunnur sem grundvallar mannréttindasamningar og yfirlýsingar alþjóðasamfélagsins byggir á. Í mannréttindayfirlýsingunni er að finna ákvæði um borgaraleg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg réttindi og hún er vegvísir alþjóðlegs mannréttindastarfs.
Ísland vinnur að vernd og eflingu mannréttinda í heiminum fyrst og fremst á vettvangi viðkomandi alþjóðastofnana. Þær eru helstar: Sameinuðu þjóðirnar (mannréttindaráð Sþ í Genf, þriðja nefnd allsherjarþingsins í New York og nefnd SÞ um stöðu kvenna), ÖSE í Vínarborg og Evrópuráðið í Strassborg. Þannig er unnið að framgangi alþjóðlegra mannréttinda á ýmsum starfsstöðvum utanríkisþjónustunnar, aðallega þó við fastanefndir Íslands í Genf, New York og Strassborg og í sendiráði Íslands í Vínarborg, auk aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Jafnframt eru mannréttindi einn af gundvallarþáttum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og leiðarljós í starfi Íslands á því sviði.
Það er til að mynda gert með þátttöku í að tryggja framkvæmd gildandi alþjóðasamninga á sviði mannréttinda; með þátttöku í gerð nýrra alþjóðasamninga og með þátttöku í ályktanagerð; skoðanaskiptum og grasrótarstarfi þar sem aðgerðir og stefnur alþjóðasamfélagsins eru mótaðar. Ísland tekur þátt í að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á því ef virðingu fyrir mannréttindum er ábótavant, og mannréttindabrot eru jafnvel kerfisbundin, og leitar leiða til að sporna gegn slíku. Ísland ræðir ástand mannréttindamála, á tvíhliða fundum jafnt sem fjölþjóðlegum, og tekur virkan þátt í leit að leiðum til úrbóta þar sem þess gerist þörf.
Ísland var í júlí 2018 kjörið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna út árið 2019. Er það stærsta verkefni af þessum toga sem íslenska utanríkisþjónustan hefur tekið að sér. Á vef fastanefndar Íslands í Genf er að finna allar ræður sem fluttar hafa verið á meðan á setunni hefur staðið og á heimasíðu ráðuneytisins er jafnframt að finna áhersluskjal sem útbúið var sérstaklega í tilefni kjörs Íslands í mannréttindaráðið.
Helstu áherslur Íslands:
- réttindi kvenna og barna og að vinna gegn öllu ofbeldi og mismunun gagnvart konum og börnum
- jafnrétti kynjanna
- aðgerðir gegn mansali
- að beita sér fyrir umræðum á vettvangi SÞ um kynhneigð og bættum réttindum samkynhneigðra
- að aðgerðir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda
- að beita sér fyrir algeru banni við pyntingum, afnámi dauðarefsinga og aftökum án dóms og laga
- að berjast gegn þvinguðum mannshvörfum og refsileysi
- tengsl mannréttinda, friðar og öryggis og ábyrgð alþjóðasamfélagsins
Mannréttindi snerta alla, alls staðar og eru óháð tíma og rúmi. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Mannréttindareglur Sameinuðu þjóðanna eru bæði alþjóðlegar og algildar og full virðing mannréttinda er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls. Mannréttindi snúast um að verja virðingu mannneskjunnar samtímis því sem virðing skal borin fyrir fjölbreytileika mannsins og þeirrar menningar sem hann býr við. Skilin milli alþjóðamála og innanlandsmála eru horfin. Langur vegur er hins vegar oft á milli orða og athafna og alvarleg mannréttindabrot eiga sér enn stað í mörgum ríkjum heims.
Í dag er víðtækari skilningur en áður á samspili mannréttinda, sjálfbærrar þróunar, friðar og öryggis og nú er lögð aukin áhersla á tengingu og samspil mannréttinda, lýðræðisþróunar og réttarríkisins. Þessi svið skarast að sjálfsögðu oft og skapa þá áleitnar spurningar. Grundvallarstefna Íslands í mannréttindamálum samþættist öllum sviðum utanríkisstefnunnar. Mannréttindi eru óaðskiljanlegur þáttur í utanríkisstefnu Íslands og samofin öllu alþjóðastarfi landsins. Ísland hefur fullgilt alla helstu alþjóðasamninga um mannréttindi og beitir sér fyrir aðild annarra ríkja að þessum samningum og fyrir framkvæmd þeirra.
Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu
- Hornsteinar Íslands á sviði Alþjóðlegra mannréttinda
- Áherslur Íslands við að vernda og efla alþjóðleg mannréttindi
- Viðfangsefni framtíðarinnar
- Grundvallar mannréttindasamningar og yfirlýsingar
- Sækja/opna skýrsluna Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu-pdf
Sjá einnig:
Mannréttindi
Annað gagnlegt efni
- UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðherra í Genf vegna framboðs Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna 26. júní 2024
- UtanríkisráðuneytiðMannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna endurnýjar ályktun um stöðu mannréttinda í Íran05. apríl 2024
- UtanríkisráðuneytiðVínarferli ÖSE virkjað vegna mannréttindabrota í Rússlandi að frumkvæði Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 22. mars 2024
Mannréttindi
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.