Hoppa yfir valmynd

Þróunarsamvinna

Alþjóðleg þróunaraðstoð

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru nú leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Hin metnaðarfullu markmið, sem eru 17 talsins með 169 undirmarkmið, beinast hvort tveggja að innanlandsstarfi og starfi Íslands á alþjóðavettvangi. Utanríkisráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni á alþjóðavettvangi. Hvað þróunarsamvinnu varðar er það yfirmarkmið íslenskra stjórnvalda að draga úr fátækt og hungri í samræmi við heimsmarkmið nr. 1 og 2 og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Heimsmarkmiðin eru einnig leiðarljós að meginmarkmiðum þróunarsamvinnunnar: Að bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum með jafnrétti að leiðarljósi, að bæta fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, að auka viðnámsþrótt samfélaga og flýta endurreisn með aukinni samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.

Eftir að verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) runnu inn í utanríkisráðuneytið í ársbyrjun 2016 starfar nú einn samhentur hópur að allri alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til lengri tíma og að fylgjast með framkvæmd hennar er sinnt af þróunarsamvinnunefnd, sem alþingismenn eiga sæti í, sem og fulltrúar háskólasamfélagsins, vinnumarkaðarins og borgarasamtaka á sviði mannúðar- og þróunarmála.

Hinn 1. október 2008 gengu í gildi lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008. Sjá reglugerð um þróunarsamvinnu. Samkvæmt þeim er meginmarkmið þróunarsamvinnu Íslands tvíþætt:

 • styðja stjórnvöld í þróunarlöndum við að útrýma fátækt og hungri, stuðla að efnahags- og félagslegri þróun, þ.m.t. mannréttindum, menntun, bættu heilsufari, jafnrétti kynjanna og sjálfbærri þróun.
 • tryggja öryggi á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að friði og gæta hans, vinna að uppbyggingu og veita mannúðar- og neyðaraðstoð.

Í kjölfar samþykktar Alþingis á frumvarpi um breytingar á lögum nr. 121/2008 um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, þann 18. desember 2015, færðist öll starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, ÞSSÍ, til utanríkisráðuneytisins. Breytingin tók gildi 1. janúar 2016.

Framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu

Árið 2016 námu framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu 7,1 milljarði kr. sem svarar til 0,29% af vergum þjóðartekjum (VÞT). Framlög til flóttamanna og hælisleitenda hækkuðu um tæpa 1,3 milljarða kr. milli ára. Til samanburðar námu framlögin tæplega 5,3 milljörðum kr. á árinu 2015 eða 0,24% af VÞT.

Í eftirfarandi skífuriti má sjá hvernig framlög Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2017 skiptast.

Áherslumál

 Áherslumál í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016:

 • Þrjú áherslusvið: Uppbygging félagslegra innviða, bætt stjórnarfar og endurreisn og sjálfbær nýting náttúruauðlinda.
 • Tvö þverlæg málefni: Jafnrétti kynjanna og umhverfismál.
 • Fimm samstarfslönd/áherslulönd: Þrjú tvíhliða samstarfslönd í Afríku: Malaví, Mósambík og Úganda, auk Afganistan og Palestínu þar sem stuðningi var beint í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök.
 • Fjölþjóðlegar áherslustofnanir: Alþjóðabankinn, Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Barnahjálp SÞ (UNICEF) og Háskólar Sameinuðu þjóðanna (HÞS).
 • Áherslustofnanir í mannúðaraðstoð: Matvælaáætlun SÞ (WFP), Neyðarsjóður SÞ (CERF) og Samræmingarskrifstofa SÞ í mannúðarmálum (OCHA). 

 

Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 skapar heildarumgjörð fyrir allt opinbert starf Íslands á sviði þróunarmála, friðaruppbyggingar og neyðar- og mannúðaraðstoðar. Lögð er rík áhersla á árangur og skilvirkni þróunarstarfs og að skerpa skuli forgangsröðun.

Áherslusvið áætlunarinnar eru þrjú:

 • Auðlindir (fiski- og orkumál)
 • Félagslegir innviðir (menntun og heilsa)
 • Friður (stjórnarfar og endurreisn)

Þverlæg málefni eru tvö:

 • Jafnrétti kynjanna
 • Umhverfismál

Fimm lönd eru sérstaklega tilgreind sem áherslulönd:

 • Þrjú tvíhliða samstarfslönd þar sem ÞSSÍ hefur starfsstöðvar: Malaví, Mósambík og Úganda
 • Tvö lönd þar sem veittur er stuðningur við uppbyggingu í gegnum fjölþjóðlegt samstarf: Afganistan og Palestína.

Í fjölþjóðlegu starfi er lögð áhersla á fjórar stofnanir:

 • Alþjóðabankann
 • Barnahjálp SÞ (UNICEF)
 • Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women)
 • Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Neyðar- og mannúðaraðstoð verður jafnframt mikilvægur þáttur, með áherslu á mannúðaraðstoð frjálsra félagasamtaka, störf Matvælaáætlunar SÞ (WFP), Neyðarsjóðs SÞ (CERF) og samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA). Þá er í áætluninni lögð sérstök áhersla á hlutverk frjálsra félagasamtaka. Samstarf stjórnvalda og félagasamtaka hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og mun styrkjast enn frekar samkvæmt tillögum utanríkisráðherra.

Hinn 1. október 2008 gengu í gildi lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008 . Eldri lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands frá 1981 féllu þar með úr gildi. Þann 18. desember 2015 voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögunum.

Tilgangur þróunarsamvinnulaga er að ná fram heildarsýn á málaflokkinn og gera íslenskum stjórnvöldum betur kleift að starfa samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og viðmiðum, þ.m.t. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þúsaldaryfirlýsingunni og þúsaldarmarkmiðunum.

Alþjóðlegt þróunarstarf tekur sífelldum breytingum. Alþjóðlegar samþykktir og ályktanir kalla á aukna ábyrgð og áreiðanleika þeirra aðila sem starfa að þróunarmálum. Því kveða lögin á um að framkvæmd þróunarsamvinnu skuli fylgja viðurkenndum aðferðum, reglum og leiðbeiningum alþjóðasamfélagsins. Í lögunum er lögð áhersla á:

 • gegnsæi í umfjöllun og framkvæmd verkefna
 • mat á árangri
 • reglulegt eftirlit og úttektir
 • ráðvendni í meðferð og vörslu fjármuna

Samkvæmt þróunarsamvinnulögum skal starfa þróunarsamvinnunefnd. Lögin kveða á um að ráðið skuli sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til lengri tíma og fylgjast með framkvæmd hennar. Nefndin skal m.a. fjalla um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu og aðgerðaáætlun þar að lútandi, framlög til þróunarsamvinnu, val á samstarfslöndum, þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu, sem og helstu skýrslur um árangur í þróunarsamvinnu.

Ráðherra skipar fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd og varamenn þeirra til fjögurra ára í senn með eftirfarandi hætti:

 • Formaður nefndarinnar er skipaður án tilnefningar og skal hann vera sérfróður um þróunarmál og hafa reynslu á því sviði.
 • Hver þingflokkur sem á sæti á Alþingi skal tilnefna einn fulltrúa.
 • Fimm fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við íslensk borgarasamtök sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.
 • Tveir fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við samstarfsnefnd háskólastigsins.
 • Tveir fulltrúar skulu skipaðir í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Fundargerðir og gögn þróunarsamvinnunefndar

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira