Hoppa yfir valmynd

Þróunarsamvinna

Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands á sér langa sögu og er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Með virkri þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu leitast Ísland við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. 

Unnið er eftir stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2019-2023 og eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leiðarljós stefnunnar og í öllu starfi Íslands á þessu sviði.

Markmið þróunarsamvinnustefnu

Yfirmarkmið: Að draga úr fátækt og hungri (sbr. heimsmarkmið 1 og 2)

Meginmarkmið A: 
Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar. Efla grunnþjónustu og styrkja stofnanir til að bæta lífskjör og auka tækifæri þeirra sem búa við fátækt og ójöfnuð (sbr. heimsmarkmið nr.; 3, 4, 5, 6, og 16).
Meginmarkmið B: 
Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Auka viðnámsþrótt samfélaga og örva hagvöxt á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, auk þess sem gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga (sbr. heimsmarkmið nr. 7, 8, 13, 14, og 15).

Áherslur í starfi

Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru þverlæg áhersluatriði í öllu starfi. Unnið er í samstarfi við ólíka aðila á fjölbreyttum sviðum þróunarsamvinnu og beina íslensk stjórnvöld stuðningi sínum til valinna samstarfslanda, fjölþjóðastofnana og félagasamtaka og verkefna á þeirra vegum.

Lögð er áhersla á árangur og skilvirkni ásamt vönduðum og faglegum vinnubrögðum í allri þróunarsamvinnu. Upplýsingagjöf, kynningarmál og fræðsla eru einnig mikilvæg þar sem unnið er að því að auka skilning á þeim hnattrænu áskorunum sem eru til staðar og auka þekkingu og stuðning almennings til málaflokksins.

Framkvæmd og samstarfsaðilar

Tvíhliða samstarfsríki Íslands eru Malaví, Úganda og Síerra Leóne en þar vinna íslensk stjórnvöld að mestu leyti í samstarfi ýmist við stjórnvöld, héraðsyfirvöld og stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Í samstarfi við fjölþjóðlegar stofnanir er lögð áhersla á störf Alþjóðabankans, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). En einnig er náin samvinna við Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðasjóð um þróun landbúnaðar (IFAD) um verndun jarðarinnar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Stutt er við þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem gegna lykilhlutverki í mannúðaraðstoð svo sem Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF), samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Þá er lögð áhersla á samstarf og stuðning við þátttöku atvinnulífsins og ýmissa félagasamtaka bæði á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Einnig er sérþekking Íslands t.d. á sviði landgræðslu, sjávarútvegs, jarðhita og jafnréttismála reglulega nýtt og er sérstök áhersla lögð á starfsemi GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu í þessu samhengi.

Málefni


Tvíhliða samvinna

Meginmarkmið tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að bæta lífsviðurværi fátæks fólks og stuðla að velferð á grundvelli mannréttinda og sjálfbærrar þróunar.


Fjölþjóðleg samvinna

Samstarf við alþjóðastofnanir er lykilþáttur í þróunarstarfi íslenskra stjórnvalda og veitir Ísland ýmist stuðning með fjárframlögum eða málsvarastarfi.


Mannúðaraðstoð

Mannúðaraðstoð Íslands miðar að því að bjarga mannslífum, standa vörð um mannlega reisn og draga úr þjáningum þar sem neyðarástand hefur skapast.


Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar.


Þverlæg áhersluatriði

Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru þverlæg áhersluatriði í stefnu íslenskra stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu.


Félagasamtök

Félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.


Samstarf við atvinnulífið

Aðkoma atvinnulífsins er mikilvægur þáttur í að stuðla að sjálfbærum hagvexti og mannsæmandi atvinnutækifærum í þróunarríkjum.


GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu

GRÓ starfar undir merkjum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).


Openaid.is

Opinn gagnagrunnur um stuðning Íslands við alþjóðlega þróunarsamvinnu.


Úttektir

Úttektir skipa mikilvægan sess í þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af þeim.


Kynning og fræðsla

Útgefið efni, myndbönd og orðskýringar.

Efst á baugi

Fréttir utanríkisráðuneytisins um þróunarsamvinnu

Þróunarsamvinna Íslands á Twitter

Framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu

Árið 2017 námu framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu rúmlega 7,3 milljörðum kr. sem svarar til 0,29% af vergum þjóðartekjum (VÞT) og hækkuðu frá tæplega 7,1 milljarði kr. á árinu 2016 eða 0,28% af VÞT. Framlög Íslands til þróunarsamvinnu munu nema 0,35% af VÞT árið 2022. Þróunarsamvinnunefnd OEDC (DAC) gefur út yfirlit yfir þróunarsamvinnuframlög Íslands.

Í eftirfarandi skífuriti má sjá hvernig framlög Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2019 skiptast.

Stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 skapar heildarumgjörð fyrir allt opinbert starf Íslands á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Lögð er rík áhersla á árangur og skilvirkni þróunarsamvinnu, gagnsæi, kynninga- og fræðslumál, og hámörkun samlegðaráhrifa af starfi Íslands.

Þverlæg málefni eru þrjú: mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfismál.

Tvö lönd eru sérstaklega tilgreind sem samstarfslönd: Malaví og Úganda.

Þrjú lönd eru sérstaklega skilgreind sem áherslulönd: Mósambík, Afganistan og Palestína.

Svæðasamstarf fer fram í fiskimálum og málefnum hafsins í Vestur-Afríku (Síerra Leone og Líberíu), og á sviði endurnýjanlegrar orku með áherslu á jarðhita í Austur-Afríku (13 lönd í Sigdalnum).

Mögulegt er að hafið verði samstarf og sinnt verði verkefnum í þágu annarra ríkja á gildistíma stefnunnar. Lögð er áhersla á að fram fari greining á nýjum samstarfslöndum, áherslulöndum og svæðasamstarfi og mögulega verði tekið upp samstarf við eitthvert landanna og nýjum verkefnum sinnt.

Áherslustofnanir í fjölþjóðlegri samvinnu: Alþjóðabankinn, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).

Áherslustofnunanir í neyðar- og mannúðaraðstoð: Matvælaáætlun SÞ (WFP), Neyðarsjóður SÞ (CERF) og samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Í stefnunni er lögð sérstök áhersla á hlutverk frjálsra félagasamtaka. Samstarf stjórnvalda og félagasamtaka hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og mun styrkjast enn.

Sem fyrr er lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. Leitast verður við að efla samlegðaráhrif skólanna fjögurra og samþætta starf þeirra öðru þróunarsamstarfi Íslands.

Ný áhersla í stefnunni er á samstarf við atvinnulíf. Íslenskir aðilar í atvinnulífi og stofnanir verða til samfélagslegrar ábyrgðar og til að styðja við sjálfbæra uppbyggingu í þróunarlöndum í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, til dæmis með tekju- og atvinnuskapandi fjárfestingum og verkefnum sem stuðla að aukinni hagsæld og hjálpa fólki að brjótast úr viðjum fátæktar.

Með stefnu var lögð fram til Alþingis aðgerðaáætlun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu 2019-2020. Við lok tímabilsins, í janúar 2021, var gerð samantekt á stöðu sérstakra aðgerða sem spönnuðu tíu málefnaáherslur og 42 framkvæmdir. Þar kemur fram að heildarniðurstaða er nokkuð góð, en ástæða er til frekari eftirfylgni með aðgerðum sem varða mannréttindi og umhverfis- og loftslagsmál.

Hinn 1. október 2008 gengu í gildi lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008 . Eldri lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands frá 1981 féllu þar með úr gildi. Þann 18. desember 2015 voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögunum.

Tilgangur þróunarsamvinnulaga er að ná fram heildarsýn á málaflokkinn og gera íslenskum stjórnvöldum betur kleift að starfa samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og viðmiðum, þ.m.t. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þúsaldaryfirlýsingunni og þúsaldarmarkmiðunum.

Alþjóðlegt þróunarstarf tekur sífelldum breytingum. Alþjóðlegar samþykktir og ályktanir kalla á aukna ábyrgð og áreiðanleika þeirra aðila sem starfa að þróunarmálum. Því kveða lögin á um að framkvæmd þróunarsamvinnu skuli fylgja viðurkenndum aðferðum, reglum og leiðbeiningum alþjóðasamfélagsins. Í lögunum er lögð áhersla á:

  • gegnsæi í umfjöllun og framkvæmd verkefna
  • mat á árangri
  • reglulegt eftirlit og úttektir
  • ráðvendni í meðferð og vörslu fjármuna

Samkvæmt þróunarsamvinnulögum skal starfa þróunarsamvinnunefnd. Lögin kveða á um að ráðið skuli sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til lengri tíma og fylgjast með framkvæmd hennar. Nefndin skal m.a. fjalla um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu og aðgerðaáætlun þar að lútandi, framlög til þróunarsamvinnu, val á samstarfslöndum, þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu, sem og helstu skýrslur um árangur í þróunarsamvinnu.

Ráðherra skipar fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd og varamenn þeirra til fjögurra ára í senn með eftirfarandi hætti:

  • Formaður nefndarinnar er skipaður án tilnefningar og skal hann vera sérfróður um þróunarmál og hafa reynslu á því sviði.
  • Hver þingflokkur sem á sæti á Alþingi skal tilnefna einn fulltrúa.
  • Fimm fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við íslensk borgarasamtök sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.
  • Tveir fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við samstarfsnefnd háskólastigsins.
  • Tveir fulltrúar skulu skipaðir í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Fundargerðir og gögn þróunarsamvinnunefndar
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum