Hoppa yfir valmynd

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Um sáttmálann

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016. 

Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

Í 3. gr. er að finna almennar meginreglur samningsins, þær eru:

  • virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga
  • bann við mismunun
  • full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar
  • virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni
  • jöfn tækifæri
  • aðgengi
  • jafnrétti á milli karla og kvenna
  • virðing fyrir stigvaxandi getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

Eftirlit

Eftirlit með samningnum er í höndum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hlutverk hennar er að fylgjast með framkvæmd samningsins, auk þess sem hún gefur út almenn álit sem lúta oftast að einstökum ákvæðum samningsins og túlkun þeirra.

Sérhvert aðildarríki skal senda nefndinni heildstæða skýrslu um innleiðingu samningsins og þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar í því skyni að efna skuldbindingar þess samkvæmt samningnum. Fyrstu skýrslu skal skila innan tveggja ára frá því að samningurinn öðlast gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki og eigi síðar en á fjögurra ára fresti eftir það. Þegar aðildarríki hefur skilað skýrslu til nefndarinnar fjallar hún um skýrsluna, gerir tillögur og sendir almenn tilmæli til hlutaðeigandi aðildarríkis. Ríkið getur svarað með því að láta nefndinni í té frekari upplýsingar. Nefndin getur einnig óskað eftir ákveðnum upplýsingum.

Valfrjálsar bókanir

Valfrjáls bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa eistaklinga vegna brota á samningnum var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, um leið og samningurinn sjálfur. Ísland undirritaði bókunina 30. mars 2007 en bókunin hefur ekki verið fullgilt af Íslands hálfu.  

Framkvæmd

Forsætisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið bera meginábyrgð á framkvæmd samningsins en eðli málsins samkvæmt koma málefni fatlaðs fólks inn á málaflokka flestra ráðuneyta. 

Texti samningsins

Unnið er að endurbótum á þýðingu á samningnum, en hér að neðan má nálgast eldri þýðingu samningsins, auk texta samningsins á auðlesnu máli og enska útgáfu hans: 

Helstu staðreyndir

Staða: Fullgiltur
Titill á ensku: Convention on the Rights of Persons with Disabilities (CRPD)
Eftirlitsaðili: Nefnd um réttindi fatlaðs fólks
Kæruleið: Til staðar samkvæmt valfrjálsri bókun við samninginn en Ísland hefur ekki fullgilt bókunina

 

Helstu hugtök

Undirritun

Með undirritun gefur ríki til kynna áform sín um að undirgangast skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Fullgilding

Með fullgildingu skuldbindur Ísland sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Oft þarf aðkomu Alþingis til að hægt sé að fullgilda alþjóðasamninga.

Lögfesting

Með lögfestingu samnings er texti hans í heild settur í lög og einstaklingum þar með gert kleift að byggja á ákvæðum hans fyrir innlendum dómstólum.

Innleiðing

Með innleiðingu eru réttindi og skyldur samkvæmt samningi gerð virk í landsrétti aðildarríkisins. Innleiðing getur átt sér stað með lagasetningu eða öðrum úrræðum sem duga til að tryggja framkvæmd samningsins.

Valfrjáls bókun

Viðauki við alþjóðlegan samning sem inniheldur viðbótarskuldbindingar fyrir aðildarríki. Aðildarríki hafa val um hvort þau gerist aðilar að bókunum.

Skýrslur

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum