Hoppa yfir valmynd

Fatlað fólk

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.  Ráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokknum sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra. Þá skal fatlað fólk eiga aðkomu að stefnumótun í málefnum sem varðar það.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016. Sjá meira um samninginn hér

Markmið laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

Markmið laganna er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin  fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Þjónusta samkvæmt lögunum skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð o.fl.

Við framkvæmd laganna skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt.

Réttur til þjónustu

Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar,  vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Opinberum aðilum ber að tryggja að sú þjónusta sem veitt er skv. 1. mgr. sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda. Einstaklingur sem hefur notið þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir á rétt á að njóta hennar áfram nema verulegar breytingar verði á stuðningsþörfum hans. Reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðning meiri eða sérhæfðari en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal veita viðbótarþjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þjónustan kemur þá til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar. Að jafnaði skal einstaklingur nýta sér almenna þjónustu, allt að 15 klukkustundum á viku, sbr. 26. og 27. gr. laga um félagsþjónustu  sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fatlaður einstaklingur á rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og á lögheimili. Sá sem nýtur þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hyggst flytja milli sveitarfélaga getur sótt um þjónustu í því sveitarfélagi sem hann ætlar að flytja til þó að hann hafi ekki skráð þar lögheimili sitt. Skal sveitarfélag þá taka umsókn til meðferðar og tryggja, í samvinnu við umsækjanda og eftir atvikum sveitarfélag sem flutt er frá, samfellu í þjónustunni við flutningana.  

Sveitarfélag þar sem fatlaður einstaklingur á lögheimili tekur ákvarðanir um þjónustu við hann samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.
Sveitarfélag sem hefur samvinnu við önnur sveitarfélög um myndun þjónustusvæðis getur falið öðru sveitarfélagi eða sérstökum lögaðila að taka ákvarðanir um þjónustu við fatlaðan einstakling fyrir sína hönd.

Skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk

Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þ.m.t. gæðum þjónustunnar, hvort sem hún er veitt af hálfu starfsmanna sveitarfélags eða af einkaaðilum samkvæmt samningi þar um, sbr. 7. gr. laganna.  Enn fremur skulu sveitarfélögin hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við þjónustu- eða rekstraraðila um þjónustuna, sbr. 7. gr. laganna.

Um samvinnu sveitarfélaga vegna verkefna samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Eftirlit með þjónustu

Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila  samkvæmt lögunum sé í samræmi við markmið þeirra, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og skuldbindingar á sviði mannréttindamála. Þá hefur ráðherra eftirlit með að réttindi fatlaðs fólks séu tryggð. Ráðherra getur ákveðið að eigin frumkvæði að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun hefur ekki áhrif á þessa heimild.

NPA

Einstaklingur á rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi. Aðstoðin skal vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Ef notandinn á erfitt með að annast verkstjórn vegna fötlunar sinnar skal hann eiga rétt á aðstoð við hana, sbr. þó ákvæði 6. gr. laganna. Aðstoðin skal um leið vera heildstæð þar sem þjónustukerfi félags-, heilbrigðis- og menntamála samhæfa aðstoð sína í þágu þess sem nýtur hennar.

Umsýsluaðili NPA-samnings ber vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu og skal sjá til þess að  uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna sem aðstoða hann, m.a. hvað varðar aðbúnað á vinnustað þeirra, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag getur afturkallað ákvörðun um umsýslusamning verði misbrestur þar á og hafi ekki verið bætt úr þrátt  fyrir ábendingar þar að lútandi.

Ráðherra gefur út reglugerð og handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, m.a. um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, þ.m.t. viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningsþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Sveitarfélög bera ábyrgð á framkvæmd aðstoðarinnar og skulu setja nánari reglur þar um í samráði við notendaráð fatlaðs fólks eða samtök fatlaðs fólks.

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk

Fatlaðir einstaklingar sem þurfa aðstoð við að gæta réttar síns geta leitað til réttindagæslumanna sem starfa samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. og reglugerð um réttindagæslumenn. Einnig getur einstaklingur, sem vegna fötlunar sinnar á erfitt með að gæta hagsmuna sinna, fengið sinn persónulega talsmann. Talsmaðurinn aðstoðar einstaklinginn meðal annars við að koma óskum sínum á framfæri og við gæta réttar síns. Enn fremur veitir hann einstaklingum aðstoð við ráðstöfun fjármuna vegna dagslegra útgjalda.

Beiting nauðungar er bönnuð í samskiptunum við fatlað fólk nema veitt hafi verið undanþága, sem sérstök undanþágunefnd veitir. Um þetta er fjallað í V. kafla laga um réttindagæslu fatlaðs fólks. Áður er umsókn um nauðung er tekin til athugunar skal umsögn sérfræðiteymis að liggja fyrir. Sérfræðiteymið veitir þjónustuaðilum ýmsa ráðgjöf, meðal annars um það hvað teljist nauðung og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar.

Nánari upplýsingar um réttindagæslu fyrir fatlað fólk er að finna á Ísland.is. Tólf manns starfa hjá réttindagæslunni, þar af eru þrír í fæðingarorlofi eða veikindaleyfi og því níu manns starfandi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Fötluðu fólki er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst tilkynning um ákvörðunina. Nefndin úrskurðar um hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og hvort ákvörðun hafi verið efnislega í samræmi við lög þessi og reglur sveitarfélaga settar á grundvelli þeirra.

Umsækjandi, hlutaðeigandi sveitarfélag eða Samband íslenskra sveitarfélaga geta borið niðurstöðu úrskurðarnefndar undir dómstóla eftir almennum reglum. Að öðru leyti fer um málsmeðferð nefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 3.1.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum