Hoppa yfir valmynd

Neysluviðmið

Uppfært í október 2019

Í febrúar 2011 lagði velferðarráðherra fram skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Skýrslan var lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar gátu mátað sig að neysluviðmiðunum í samræmi við eigin aðstæður.

Vinna við gerð neysluviðmiðanna hófst í júní 2010. Félags- og tryggingamálaráðuneytið setti á fót stýrihóp um verkefnið, skipuðum fulltrúum frá ráðuneytinu, Umboðsmanni skuldara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Rannsóknaþjónustu Háskólans í Reykjavík í samstarfi við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands var falið að vinna þá rannsókn sem skýrslan byggist á.

Á vefnum var einnig unnt að senda ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar varðandi viðmiðin. Í ljós kom að þær ábendingar sem ráðuneytinu bárust lutu að lang mestu leyti að kostnaði vegna húsnæðis. Þá hafði engin hinna norðurlandaþjóðanna búið til viðmið vegna húsnæðiskostnaðar og var sú ákvörðun tekin við uppfærslu viðmiðanna árið 2012 að fella húsnæðiskostnað út úr íslensku neysluviðmiðunum. Við það fækkaði neysluviðmiðsflokkum í 12 í stað 15 áður, þar sem þrír flokkar fjölluðu um kostnað vegna húsnæðis.

Dæmigert viðmið á að endurspegla og gefa sem heildstæðasta mynd af útgjöldum íslenskra heimila. Fyrir flesta útgjaldaflokka er dæmigert viðmið reiknað þannig að miðgildi útgjalda fyrir hvern útgjaldaflokk er reiknað. Þessu til viðbótar er kostnaður vegna reksturs bifreiða og skólatengdur kostnaður barna reiknaður sérstaklega. Hér er því hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða. Grunnviðmiðið hins vegar gefur vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér. Gert er ráð fyrir að raunkostnaður sé notaður vegna húsaleigu, viðhaldskostnaðar og rafmagns og hita. Framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara er skammtímaviðmið byggt á neysluviðmiðunum og er birt á vefsíðu Umboðsmanns skuldara og notað til að meta fjárhagsstöðu umsækjenda um þjónustu. 

Raunveruleg útgjöld fjölskyldna

Við gerð viðmiðanna var stuðst við rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna. Rannsóknin er tvíþætt. Þátttakendur halda bókhald yfir útgjöld sín og safna kvittunum yfir tveggja vikna skeið í senn. Til að rannsóknin nái einnig til útgjalda sem eru sjaldgæf, s.s. á vörum með langan endingartíma er tekið viðtal við þátttakendur þar sem þeir svara spurningum um slík útgjöld yfir þriggja mánaða tímabil. Dæmi um slíkar vörur eru heimilistæki og húsgögn. Af því að kaup á vörum af því tagi eru sjaldgæf verður meiri óvissa um mælinguna þar færri heimili mælast með útgjöld í þessum neysluflokkum heldur en t.d. í dagvörum. Auk þess eru þær mælingar sem fást gjarnan háar því sjaldgæf vörukaup eru gjarnan á dýrum vörum. Þetta getur skapað tilviljanakennd frávik sem hafa mikil áhrif á lokaniðurstöðu rannsóknarinnar.

Gerð neysluviðmiðanna tekur mið af því eftir því sem efni standa til.

Útgjöldin eru sundurliðuð í 12 útgjaldaflokka. Í hverjum útgjaldaflokki er tekið miðgildi útgjalda sem felur í sér að helmingur heimila er með jafnhá eða lægri útgjöld í viðkomandi útgjaldaflokki. Flokkarnir eru þessir:

 1. Matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds,
 2. föt og skór,
 3. heimilisbúnaður,
 4. raftæki og viðhald raftækja,
 5. lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta,
 6. sími og fjarskipti,
 7. menntun og dagvistun,
 8. veitingar,
 9. önnur þjónusta fyrir heimili,
 10. tómstundir og afþreying,
 11. ökutæki og almenningssamgöngur,
 12. annar ferðakostnaður.

Liðirnir húsaleiga/reiknuð húsaleiga; viðhaldskostnaður húsnæðis og rafmagn og hiti eru ekki inni í íslensku neysluviðmiði eftir uppfærslu þess í maí 2012.

Áhersla var lögð á að viðmiðin gæfu sem heildstæðasta mynd af útgjöldum fjölskyldna. Hjá nágrannaþjóðum okkar er algengt að húsnæðisútgjöld séu undanskilin við gerð neysluviðmiða með þeim rökum að sá kostnaður sé of breytilegur til þess að setja megi raunhæf viðmið og á hið sama við hér á landi. Greiðslur beinna skatta og opinberra gjalda koma ekki inn í útreikning neysluviðmiða.

Uppfærsla 2019

Neysluviðmiðin eru nú uppfærð í áttunda sinn á vef félagsmálaráðuneytisins eftir upprunalega birtingu árið 2011. Neysluviðmiðin eru að þessu sinni uppfærð á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á tímabilinu 2013 til 2016, líkt og neysluviðmið ársins 2018. Nýrri gögn yfir útgjöld bjóða ekki upp á nauðsynlega sundurliðun útgjalda, sem útreikningar neysluviðmiða krefjast. Af þeim sökum voru viðmið fyrra árs framlengd með undirvísitölum vísitölu neysluverðs fyrir hvern útgjaldaflokk fyrir sig.

Uppfærslan var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og leiðir í ljós hækkun á flest öllum útgjaldaflokkum neysluviðmiðanna. Dæmigerð viðmið hækka að jafnaði um 2,7% en grunnviðmið 0,6%.

Tilgangurinn með smíði neysluviðmiða er að veita heimilum í landinu aðgang að viðmiðum sem þau geta haft til hliðsjónar þegar þau áætla eigin útgjöld, auk þess sem slík viðmið geta nýst við fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og verið grunnur að ákvörðunum um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Dæmigerða viðmiðið er hvorki endanlegur mælikvarði á hvað sé hæfileg neysla né mat á því hvað einstaklingar og fjölskyldur þurfa sér til framfærslu. Grunnviðmið var hins vegar þróað með það í huga að sjá að því hvað einstaklingar og fjölskyldur þurfa sér til framfærslu.

Samkvæmt lögum um neytendalán, sem samþykkt voru á Alþingi 2013, má nota grunnviðmiðin í neysluviðmiðunum sem lágmarksviðmið við framkvæmd greiðslumats. Rétt er að benda á að allur kostnaður vegna húsnæðis og rekstur bifreiðar er ekki innifalinn í grunnviðmiði, þó reiknað sé með kostnaði vegna almenningssamgangna. Gert er ráð fyrir að raunkostnaður sé notaður vegna húsaleigu, viðhaldskostnaðar og rafmagns og hita.

Dæmigert neysluviðmið

Dæmigert viðmið fyrir mánaðarleg útgjöld einstaklings með engin börn sem býr á höfuðborgarsvæðinu og rekur bíl er 198.046 krónur eftir uppfærslu 2019. Dæmigert mánaðarviðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu með annað barnið á leikskóla, en hitt í grunnskóla þar sem keyptar eru skólamáltíðir og frístundavistun er 486.924 krónur.  Útgjöld hækka lítillega frá síðustu útgáfu neysluviðmiða, en hún er mismunandi eftir heimilsgerðum og útgjaldaflokkum.

Grunnviðmið

Mánaðarlegt grunnviðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu er 80.396 kr. eftir uppfærslu 2019. Grunnviðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu með annað barnið á leikskóla, en hitt í grunnskóla þar sem keyptar eru skólamáltíðir og frístundavistun er 270.053 krónur. Nokkur lækkun útgjalda er frá síðustu útgáfu neysluviðmiða, en hún er mismunandi eftir heimilsgerðum og útgjaldaflokkum.

Síðast uppfært: 13.6.2022
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira