Hoppa yfir valmynd

Alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis

Um sáttmálann

Alþjóðasamningurinn um afnám alls kynþáttamisréttis var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 21. desember 1965. Ísland undirritaði samninginn 14. nóvember 1966 og fullgilti hann 13. mars 1967.

Samningurinn felur í sér að aðildarríki skuldbinda sig til þess að vinna að jafnræði og að því að banna og binda enda á kynþáttamisrétti, með öllum viðeigandi ráðum. Í ákvæðum samningsins er aðgreining kynþátta og kynþáttaaðskilnaður fordæmdur sérstaklega sem og áróður og samtök sem byggja á hugmyndum eða kenningum um yfirburði eins kynþáttar eða hóps manna af ákveðnum litarhætti eða þjóðlegum uppruna, eða reyna að réttlæta eða hvetja til kynþáttahaturs eða misréttis.

Eftirlit 

Eftirlit með samningnum er í höndum nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis en hlutverk hennar er að fylgjast með framkvæmd samningsins, auk þess sem hún gefur út almenn álit sem víkja að túlkun einstakra ákvæða samningsins eða sérstökum álitaefnum sem tengjast efni hans. 

Þau ríki sem hafa fullgilt samninginn skuldbinda sig jafnframt til þess að senda nefndinni reglulegar skýrslur um innleiðingu hans. Nefndinni gefst þá færi á að gera athugasemdir og leggja fram spurningar um efni skýrslunnar og aðildarríkið getur síðan lagt fram viðbótarupplýsingar. Í kjölfarið gefur nefndin út lokaathugasemdir sínar þar sem bent er á hvað megi betur fara í framkvæmd aðildarríkisins til þess að það geti fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Hér neðar á síðunni er að finna skýrslur Íslands og lokaathugasemdir nefndarinnar.   

Ísland er einnig aðili að kæruleið á grundvelli 14. gr. samningsins, en hún felur í sér að nefndin geti tekið við kvörtunum frá einstaklingum eða hópum einstaklinga um að aðildarríki hafi brotið á réttindum þeirra samkvæmt samningnum.  Hljóti mál efnismeðferð gefur nefndin í kjölfarið frá sér álit þar sem málavöxtum og röksemdum aðila er lýst ásamt niðurstöðum nefndarinnar um hvort um sé að ræða brot á samningnum. Ef ríki er talið brotlegt beinir nefndin viðeigandi tilmælum til ríkisins um að rétta hlut kæranda. Niðurstöður nefndarinnar eru ekki bindandi fyrir aðildarríkin. 

Framkvæmd

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ber meginábyrgð á skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum. Kynþáttamisrétti kemur þó inn á málaflokka annarra ráðuneyta og bera dómsmálaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið einnig sérstaka ábyrgð á framkvæmd samningsins.

Texti samningsins

Helstu staðreyndir

Staða:  Fullgiltur
Titill á ensku:  International Convention on the Elimination of All Forms of Racial Discrimination (CERD)
Eftirlitsaðili:  Nefnd um afnám alls kynþáttamisréttis
Kæruleið:  Til staðar samkvæmt 14. gr. samningsins

 

Helstu hugtök

Undirritun

Með undirritun gefur ríki til kynna áform sín um að undirgangast skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Fullgilding

Með fullgildingu skuldbindur Ísland sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Oft þarf aðkomu Alþingis til að hægt sé að fullgilda alþjóðasamninga.

Lögfesting

Með lögfestingu samnings er texti hans í heild settur í lög og einstaklingum þar með gert kleift að byggja á ákvæðum hans fyrir innlendum dómstólum.

Innleiðing

Með innleiðingu eru réttindi og skyldur samkvæmt samningi gerð virk í landsrétti aðildarríkisins. Innleiðing getur átt sér stað með lagasetningu eða öðrum úrræðum sem duga til að tryggja framkvæmd samningsins.

Skýrslur

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum