Hoppa yfir valmynd
13. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Endurnýjuðu samning um Film in Iceland: Kynna landið sem stórkostlegan tökustað

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, undirrituðu í dag samning um kynningu á endurgreiðslukerfi kvikmynda á Íslandi – Film in Iceland. Vaxandi áhugi hefur verið á Íslandi sem tökustað og verkefni Film in Iceland, er að kynna Ísland sem áhugaverðan tökustað, endurgreiðslukerfi vegna framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis, innviði íslenska kvikmyndaumhverfisins og að taka við fyrirspurnum erlendra framleiðanda og aðstoða þá eftir fremsta megni. Rennir þetta mikilvægum stoðum undir þau markmið stjórnvalda að efla íslenskan kvikmyndaiðnað og gera Ísland að eftirsóknarverðum tökustað fyrir fjölbreytt kvikmynda- og sjónvarpsverkefni.

Í samningnum er kveðið á um að Íslandsstofa taki að sér kynningar á erlendum kvikmyndahátíðum, auglýsingar í fagtímaritum, öflun viðskiptasambanda, svörun og úrvinnslu fyrirspurna og almenna aðstoð við erlend framleiðslufyrirtæki sem hafa áhuga á að taka upp kvikmynda- eða sjónvarpsefni hér á landi.

Til að styðja enn frekar við íslenskan kvikmyndaiðnað mun ráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, nú á vorþingi. Með lagabreytingunni munu stærri kvikmyndaverkefni fá 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar, í stað 25%.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum