Hoppa yfir valmynd
1. júní 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ánægja með þjónustu opinberra stofnana

Notendur þjónustu opinberra stofnana eru almennt ánægðir með þjónustuna en tækifæri eru til úrbóta. Flestir vilja geta nýtt þjónustuna með sjálfsafgreiðslu erinda á vef og þá nýta mun fleiri vefi stofnana en mæta í stofnanir til þess að fá þjónustu. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýlegrar könnunar á þjónustu stofnana við almenning.

Tilgangur könnunarinnar er að meta ánægju með opinbera þjónustu og auðvelda stofnunum að skipuleggja þjónustuna þannig að hún reynist sem best. Í könnuninni var alls spurt um 45 stofnanir sem veita beina þjónustu til almennings en um 11.000 manns tóku þátt í henni.
Mæld voru viðhorf fólks til stafrænnar þjónustu, hraða þjónustu, áreiðanleika upplýsinga, reynslu af viðmóti og heildaránægju með þjónustu.

 

Heildaránægja með þjónustu stofnana fékk 3,8 stig af 5 mögulegum, en líkt og sjá má lækkar ánægja í öllum flokkum lítillega frá síðustu könnun árið 2020.

Þá var í könnuninni spurt um hvernig almenningur nýtir þjónustu stofnana, en yfir helmingur kýs að nýta þjónustuvef stofnunar.

 

Þegar spurt var um hvernig fólk nýtir þjónustu stofnana í dag kom í ljós að flestir leysa úr sínum málum með því að fara á vefi stofnana eða nýta upplýsingar frá þeim, en einnig er nokkuð um að fólk hringi eða mæti í stofnanir.

 

Á vefsíðu um könnunina er hægt að skoða helstu niðurstöður einstakra stofnana.

Framkvæmd 2022 fór fram í gegnum spurningavagn Gallups á tímabilinu 7. janúar til 29. mars 2022. Fjöldi þátttakenda var 10.977 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem svara könnunum á netinu. Alls var spurt um 45 stofnanir. Í sömu könnun árið 2020 var spurt um 33 stofnanir.

Þá var árið 2022 gerð könnun meðal stjórnenda á viðhorfum þeirra til þjónustu stofnana innan ríkisins, á borð við Ríkiskaup, og var spurt um 8 stofnanir. Einnig er hægt að skoða niðurstöður þeirrar könnunar á vefnum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira