Hoppa yfir valmynd
2. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sigurvegarar krýndir í Netöryggiskeppni Íslands 2022

Sigurvegarar krýndir í Netöryggiskeppni Íslands 2022 - myndLjósmynd: Dario Mentesana

Áslaug Arna, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti verðlaun í Netöryggiskeppni Íslands sem nýlega fór fram í þriðja sinn. Keppnin er haldin í tengslum við UTmessuna en forkeppni fór fram í mars. Samtals tóku 18 keppendur þátt í landskeppninni, átta í yngri flokki og tíu í eldri flokki. Keppnin er haldin að frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en hún er framkvæmd af Gagnaglímufélagi Íslands (GGFÍ) sem eru frjáls félagasamtök stofnuð í þeim tilgangi að rækta og efla samfélag og samskipti gagnaglímukappa og efla öryggismenningu á Íslandi.

Sigurvegari í yngri flokki (14-20 ára) var Elvar Árni Bjarnason, Samúel Arnar Hafsteinsson hafnaði í öðru sæti og Kristinn Vikar Jónsson í því þriðja. Þess má geta að Elvar Árni sigraði einnig í keppninni árið 2021 en Kristinn Vikar sigraði árið 2020. Í eldri flokki (21-25 ára) bar Brynjar Örn Grétarsson sigur úr býtum, Bjarni Dagur Thor Kárason hneppti annað sæti og Logi Eyjólfsson það þriðja. Keppendur í yngri flokki gáfu þeim eldri ekkert eftir en allir keppendur glímdu við sömu verkefni og voru efstu þrír í yngri flokki stigahæstir í keppninni. Það er því ljóst að tölvuöryggismál á Íslandi eiga sér bjarta framtíð í höndum þessara ungu og hæfileikaríku keppenda.

Tilgangur netöryggiskeppninnar er að ýta undir menntun og þjálfun í tölvuöryggismálum á Íslandi til að mæta þeirri miklu vá sem tölvuárásir geta valdið. Í keppninni leysa keppendur gagnvirk verkefni sem líkja eftir raunverulegum öryggisgöllum sem upp hafa komið á síðustu árum. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun. Þeir keppendur sem náðu bestum árangri í landskeppninni verða valdir í landslið sem tekur þátt fyrir hönd Íslands í Evrópsku netöryggiskeppninni (e. European Cyber Security Challenge – ECSC) sem er ætluð ungmennum a aldrinum 14 til 25 ára. Evrópska netöryggiskeppnin fer fram í september og verður í þetta skiptið haldin í Vín í Austurríki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira