Hoppa yfir valmynd
8. júní 2022 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um undirbúning rannsóknar á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda ​

Nefnd sem falið var að undirbúa rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni.

Helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Nefndin leggur til að rannsóknin fari fram samkvæmt fyrirmælum laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Slíkt fyrirkomulag gefi rannsóknarnefnd sjálfstæði, styrkar rannsóknarheimildir og sé einnig í samræmi við þann vilja Alþingis að almenn lög gildi almennt um slíkar rannsóknir.
  • Þá er lagt til að rannsóknartímabilið verði annars vegar frá 1970 - 2011 og hins vegar frá 2011 og til dagsins í dag.
  • Nauðsynlegt er að fatlað fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda sé á meðal nefndarmanna.
  • Lögð er þung áhersla á að gæta þess að fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda fái fullnægjandi aðstoð við að koma málum sínum á framfæri við nefndina og fylgja þeim eftir.
  • Að rannsóknin byggi á jafnræði hvað varðar afmörkun og umfang rannsóknar.
  • Að rannsóknin byggi á gagnsæi, bæði hvað varðar verklag og niðurstöður.
  • Loks eru settar fram mögulegar rannsóknarspurningar sem leitað yrði svara við.

Nefndin er skipuð samkvæmt ályktun frá Alþingi frá 12. júní 2021. Verkefni nefndarinnar var að safna saman ítarlegum upplýsingum um starfsemi stofnana fyrir fullorðið fatlað fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir og fullorðna með geðrænan vanda og leggja mat á afmörkun, umfang og markmið rannsóknarinnar. Sérstök áhersla skyldi lögð á aðbúnað og meðferð vistmanna á nýliðnum árum allt til dagsins í dag.

Nefndinni var jafnframt ætlað að greina kosti og galla við tvær rannsóknarleiðir, annars vegar rannsókn stjórnsýslunefndar á vegum Stjórnarráðsins og hins vegar rannsókn rannsóknarnefndar í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011. Þá skyldu settar fram tillögur um umfang formlegrar rannsóknar á aðbúnaði og meðferð framangreindra hópa á tilteknum stofnunum, um tímabilið sem slík rannsókn næði til og um rannsóknarspurningar.

Skýrslan verður lögð fyrir Alþingi og í kjölfarið ákveðið hvort farið verði eftir þeim tillögum sem fram kemur í skýrslunni um skipan rannsóknarnefndar, umfang og markmið rannsóknar og rannsóknarspurningar.

Skýrsla nefndarinnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum