Hoppa yfir valmynd
21. júní 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra heimsótti Evrópuráðið og Mannréttindadómstól Evrópu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Evrópuráðið og Mannréttindadómstól Evrópu í vinnuheimsókn sinni til Strassborgar sem lauk í dag.

Í gær átti forsætisráðherra fund með Maríu Pejčinović Burić, aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, þar sem m.a. var rætt um formennskuáherslur Íslands sem fer með formennsku frá nóvember nk. til maí á næsta ári. Þar var tilkynnt um sérstakt fjárframlag íslenskra stjórnvalda til verkefna sem tengjast formennskuáherslunum og mannréttindastarfi Evrópuráðsins.

Forsætisráðherra átti einnig fund með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, og Despinu Chatzivassiliou-Tsovilis, framkvæmdastjóra þingsins, ásamt þingmönnunum Birgi Þórarinssyni, Bjarna Jónssyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem skipa Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

Í heimsókn sinni til Mannréttindadómstóls Evrópu hitti forsætisráðherra Róbert Spanó, forseta dómstólsins. Á fundinum ræddu þau hlutverk dómstólsins í ljósi stöðu mála í Evrópu í dag, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu.

Þá fundaði forsætisráðherra með Dunju Mijatovic, mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Á fundinum ræddu þær jafnréttismál og kynbundið ofbeldi, sérstaklega með tilliti til stöðu kvenna og stúlkna í Úkraínu.

Í dag hitti forsætisráðherra Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, þar sem þau ræddu formennsku þjóðanna í Evrópuráðinu. Að lokum hitti forsætisráðherra Sviatlönu Tsikhanouskayu, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús. Á fundi þeirra var rætt um stöðu mannréttindamála í Belarús og stöðuna í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. 

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsing, og Despina Chatzivassiliou-Tsovilis, framkvæmdastjóri þingsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Birgi Þórarinssyni og Bjarna Jónssyni, sem skipa Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dunja Mijatovic, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum