Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs styrkir fimm fyrirtæki til þróunarsamvinnuverkefna

Fulltrúar fyrirtækjanna og ráðuneytisins. - mynd

Fimm fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni, jarðhitatækni og fiskveiða hljóta styrki til þróunarsamvinnuverkefna úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu. Verkefnin koma til framkvæmda í Djíbútí, Eþíópíu, Indlandi, Víetnam og Úkraínu. Samningar þess efnis voru undirritaðir af fulltrúum fyrirtækjanna og ráðuneytisins í gær. Heildarframlag úr sjóðnum er 72 milljónir króna á móti framlagi fyrirtækjanna fimm.

Á sviði sjávarútvegs fær fyrirtækið MAR Advisors 2ja m.kr. forkönnunarstyrk vegna verkefnisins MarAnda - bætt aðgengi sjávarfangs frá Víetnam að mörkuðum í Evrópu.  Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri segir að með nútímalegum lausnum megi auka frelsi smárra framleiðenda í Víetnam til að efla atvinnustarfsemi fyrir einstaklinga og bæta framleiðsluferla sjávarfangs á grundvelli upprunavottunar og sjálfbærni og auka með því hagkvæmni og einfalda virðiskeðju við útflutning.

Tvö fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni fá styrk. Össur fær tæplega 30 m.kr. styrk vegna verkefnisins Þróunaraðstoð til handa fórnarlömbum stríðsátaka í Úkraínu.  Fjöldi aflimaðra í landinu hefur aukist gríðarlega undanfarið vegna stríðsátakanna og að sögn Margrétar Láru Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra mannauðs, stefnu og sjálfbærni, mun fyrirtækið útvega vörur og eru sérfræðingar Össur byrjaðir að þjálfa úkraínskra sérfræðinga við að útvega fjölda einstaklinga í neyð nauðsynleg stoðtæki.

RetinaRisk fær 10 m.kr. styrk vegna verkefnisins Bylting í eftirliti augnskimunar til að forða blindu á Indlandi. Að sögn Sigurbjargar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Retina Risk, er stefnt að því að um 200 þúsund efnalitlir sjúklingar fái aðgang að augnskimun á næsta ári gegnum áhættureikni fyrirtækisins um sykursýki, sem getur forðað blindu.

Tvö verkefni á sviði jarðhitatækni fá styrk að þessu sinni. Verkís fær 4 m.kr. forkönnunarstyrk vegna verkefnisins Bein jarðhitanotkun í Assai vatni Djíbútí.  Egill Viðarsson framkvæmdastjóri Verkís segir að með verkefninu muni fyrirtækið geta greint hvernig auka megi tækifæri til atvinnustarfsemi og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda, á borð við jarðhita, í einu fátækasta landi Afríku.

Reykjavik Geothermal fær tæplega 30 m.kr. styrk til að vinna að stofnun jarðhitarannsóknarstofu í Eþíópíu. „Með þessu er markmið okkar að skapa fjölbreytt störf, flýta rannsóknum á sviði jarðhita og þar með auðvelda og flýta jarðhitanýtingu í einu af fátækari löndum Afríku,“ segir Snorri Guðbrandsson, framkvæmdastjóri.

„Það er afar ánægjulegt að sjá íslensk fyrirtæki tefla fram hugviti, sérþekkingu og fjármagni til að styðja við sjálfbæra þróun, aukna hagsæld og atvinnutækifæri í fátækustu og stríðshrjáðustu löndum heims. Íslenskt atvinnulíf hefur heilmikið fram að færa þegar kemur að þróunarsamvinnu, eins og þessi verkefni sýna svo glöggt,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri lýsti við undirritun samninganna mikilli ánægju með metnaðarfull og fjölbreytt verkefni sem sýndu vel hvernig íslensk stjórnvöld og íslensk fyrirtæki gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar við framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna gegnum þróunarsamvinnuverkefni.

Markmið Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs er að styðja við íslensk fyrirtæki sem vilja vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun gegnum samstarfsverkefni í þróunarlöndum. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna á Stjórnarráðsvefnum. Næsti frestur til að sækja um er 3. október n.k.

Á myndinni eru frá vinstri: Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri, Margrét Lára Friðriksdóttir, Össur, Edda Heiðrún Geirsdóttir, Össur, Egill Viðarsson, Verkís, Kjartan Due Nielsen, Verkís, Ægir Þór Steinarsson, RetinaRisk, Magnús Bjarnason, MAR Advisors, Sigurbjörg Jónsdóttir, RetinaRisk, Gústav Arnar Magnússon, MAR Advisors og Auður Edda Jökulsdóttir, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu.

  • Sigurbjörg Jónsdóttir og Ægir Þór Steinarsson frá RetinaRisk og Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri - mynd
  • Gústav Arnar Magnússon og Magnús Bjarnason frá MAR Advisors með Martini Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra - mynd
  • F.v: Kjartan Due Nielsen, verkefnastjóri nýsköpunar hjá Verkís, Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís. - mynd
  • Margrét Lára Friðriksdóttir og Edda Heiðrún Geirsdóttir frá Össur með Martini Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum