Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Þingsályktun um framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu við aldraða

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Tillaga heilbrigðisráðherra til þingsályktunar sem felur í sér framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 15. júní síðastliðinn. Þingsályktunin verður grunnur að vinnu verkefnastjórnar sem skipuð hefur verið til að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk og vinna aðgerðaáætlun á þessu sviði til fjögurra ára sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2023.

Vorið 2021 lét heilbrigðisráðherra vinna drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með áherslu á heildarskipulag þjónustunnar og þverfaglegt samstarf. Þingsályktunartillagan sem Alþingi hefur nú samþykkt var byggð á þessum stefnudrögum og tekur framsetning hennar mið af áherslum heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Eins og þar kemur fram ályktar Alþingi að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt. 

Helstu efnisatriði þingsályktunarinnar

Meðal þess sem þingsályktunin kveður á um er að löggjöf um réttindi, þátttöku og skipulag þjónustu við eldra fólk verði endurskoðuð. Þjónusta í sveitarfélögum og heilbrigðisumdæmum verði samræmd og sömuleiðis mat á þjónustuþörf. Velferðartækni verði nýtt í auknum mæli í þjónustu við eldra fólk. Öldruðum og aðstandendum þeirra verði tryggður aðgangur að samræmdum upplýsingum um þjónustuframboð á öllum stigum heilbrigðisþjónustu. Einnig er kveðið á um að fjármögnunarkerfi vegna dvalar og langtímaumönnunar á hjúkrunarheimilum verði endurskoðað, reglulegt gæðaeftirlit verði með öllum hjúkrunarheimilum á landinu og að menntun og þjálfun starfsfólks sem veitir öldruðu fólki heilbrigðisþjónustu verði í samræmi við kröfur um gæði þjónustunnar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdar verði reglubundnar þjónustukannanir. Aukin áhersla verður lögð á að vinna gegn einmanaleika aldraðs fólks, meðal annars með auknum forvörnum og aukinni virkni.

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hefur verið skipuð verkefnastjórn sem mun leiða vinnu við heildarendurskoðun þjónustu við eldra fólk. Henni er ætlað að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila. Einnig er henni ætlað að forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verður fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, meðal annars með tillögum um hvaða breytingar á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram. Verkefnastjórnin skal hafa víðtækt samráð við sveitarfélög, samtök eldri borgara, þjónustuaðila og aðra hagaðila. Í gær, 21. júní var undirrituð viljayfirlýsing um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Að yfirlýsingunni standa félags- og vinnumálaráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband eldri borgara. 

Eins og áður segir verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn til að hrinda í framkvæmd þeirri framtíðarsýn sem þingsályktunin byggir á í samráði við helstu hagsmunaaðila og verða þær áætlanir uppfærðar árlega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum