Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staðreyndir um velferðarmál

Rúmlega 60% allra útgjalda ríkissjóðs er varið til heilbrigðis-, félags-, húsnæðis- og tryggingamála. Frá 2017 hafa heildarútgjöld til velferðarmála aukist um ríflega 123 milljarða að raunvirði og útgjöld til heilbrigðismála hafa aldrei verið hærri. Að teknu tilliti til aldurssamsetningar þjóðarinnar eru útgjöldin með hæsta móti í alþjóðlegum samanburði, jafnt innan OECD sem á Norðurlöndum.

Þá er heildarstuðningur við barnafjölskyldur óvíða meiri en á Íslandi. Heildartekjur allra tekjuhópa hafa hækkað, kaupmáttur aukist og íslensk heimili telja gæði eigin lífskjara í, eða nálægt, sögulegu hámarki.

Raunhæfur samanburður útgjalda

Í alþjóðlegum samanburði á útgjöldum til velferðarmála verður að taka tillit til ólíkra kerfa. Á Íslandi eru lífeyrisgreiðslur að stórum hluta greiddar úr söfnunarkerfum, þ.e. starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignasparnaði, en ekki af almannafé. Útgjöld til velferðarkerfisins verða því lægri en í löndum þar sem meirihluti lífeyrisgreiðslna er fjármagnaður með skatttekjum á hverjum tíma. Þá eru lífeyrisþegar hlutfallslega fáir hér borið saman við aðrar þjóðir, ekki síst vegna þess að íslenska þjóðin er ung.

Íslenska lífeyriskerfið er enn fremur í efsta sæti yfir bestu lífeyriskerfin í nýjustu alþjóðlegu lífeyris-vísitölu Mercer og CFA Institute frá október sl. Samanburðurinn nær til 43 ríkja og byggist á gögnum frá OECD og fleiri alþjóðastofnunum. 

Útgjöld til heilbrigðismála hafa hins vegar vaxið verulega undanfarin ár og hafa framlög ekki verið hærri á hvern íbúa í rúmlega 10 ár. Samandregið hefur vöxturinn verið langt umfram vöxt landsframleiðslu, en fullyrða má að hann sé jafnframt nokkuð meiri en á hinum Norðurlöndunum. Að teknu tilliti til aldurssamsetningar eru útgjöld til heilbrigðismála hér á landi há í alþjóðlegum samanburði enda er heilbrigðiskostnaður að jafnaði umtalsvert meiri hjá eldra fólki en yngra. Sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu er kostnaður við heilbrigðiskerfið sá þriðji hæsti innan OECD.

 

Með aldursleiðréttingu fæst mynd af því hver útgjöldin væru ef hlutfall 65 ára og eldri væri það sama hér á landi og meðaltalið innan OECD. Séu útgjöldin borin saman meðal Norðurlandanna og sömu aðferð aldursleiðréttingar beitt sést að heilbrigðiskostnaður er næst hæstur á Íslandi.

 

Þetta sýnir að útgjöldin ein og sér segja ekki alla söguna. Ef gera á raunhæfan samanburð á útgjöldum ríkja er mikilvægt að tekið sé tillit til aldurssamsetningar og ólíkra kerfa.

Enn fremur er umfang ríkisútgjalda ekki eini mælikvarðinn á velferð. Mælikvarðann er öllu heldur að finna í lífskjaramælingum, samanburði á kaupmætti, jöfnuði, hlutfalli einstaklinga undir fátæktarmörkum o.fl. þáttum þar sem Ísland mælist alls staðar vel í alþjóðlegum samanburði. Ísland er þannig í 2. sæti af 41 þjóð í mælingu OECD yfir mestu lífsgæði „Better Life Index“, og hlutfallsleg fátækt mælist hvergi minni en á Íslandi samkvæmt sömu stofnun.  

Þá má nefna að í lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árin 2019-2021 kom fram að íslensk heimili telja gæði eigin lífskjara í, eða nálægt, sögulegu hámarki. Þar kom fram að hlutfall heimila sem eiga erfitt með að láta enda ná saman hefði aldrei verið lægra og aldrei hefðu færri talið byrði húsnæðiskostnaðar þungan. Hlutfall heimila sem sögðust búa við efnislegan skort var nálægt sögulegu lágmarki og aldrei höfðu færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum.

Í greiningu á álagningu opinberra gjalda fyrir 2021 má enn fremur sjá að heildartekjur allra tekjuhópa hafa hækkað og kaupmáttur aukist. Allir tekjuhópar greiða nú minni tekjuskatt en áður, nema þeir sem allra hæstar tekjur hafa.

Stuðningur við barnafjölskyldur óvíða meiri

Stuðningur við barnafjölskyldur er óvíða meiri en á Íslandi þegar allt er með talið, t.a.m. stuðningur vegna húsnæðis, leikskóla o.fl. Af OECD ríkjunum verja þannig einungis Svíþjóð, Lúxemborg og Danmörk meiru en Íslendingar í stuðning við barnafjölskyldur, líkt og sjá má í tölum stofnunarinnar.

Enn fremur þarf að hafa í huga að hér renna barnabætur mest til tekjulægri fjölskyldna. Í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá 2019 kom fram að óskertur stuðningur til tekjulágra barnafjölskyldna er nánast í öllum tilfellum hæstur hér miðað við annars staðar á Norðurlöndum. 

Þá hafa fjárhæðir og skerðingarmörk bótanna farið hækkandi undanfarin ár. Þannig hækkuðu bætur mest um á annað hundrað þúsund krónur í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, en þar að auki var samþykktur barnabótaauki til viðbótar við hækkun á húsnæðisbótum og bótum almannatrygginga í sérstökum mótvægisaðgerðum vegna verðbólgu í maí sl.

Nokkrar staðreyndir um heilbrigðismál

Loks má nefna að útgjöld til heilbrigðismála á hvern íbúa hafa hækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2017 námu framlögin 694 þúsund krónum á hvern íbúa, en voru orðin 838 þúsund krónur árið 2022 á föstu verðlagi 2022. Á þennan mælikvarða hafa framlög til heilbrigðismála ekki verið hærri í rúmlega tíu ár. 

 

Árleg útgjöld til reksturs Landspítalans hafa aukist úr tæpum 60 milljörðum árið 2017 í tæpa 88 milljarða árið 2022. Útgjöld til reksturs innihalda ekki kostnað vegna fjárfestinga eða viðhalds, og kostnaður vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut fellur sömuleiðis utan þeirrar tölu. 

Hér að neðan má sjá árlega raunaukningu útgjalda til reksturs LSH, þ.e. þegar launa- og verðlagshækkanir eru undanskildar. Alls hefur aukningin verið tæpir 10 milljarðar frá árinu 2017 en það svarar til ríflega 12% raunaukningar.

 
 

Frá árinu 2017 hafa verið settir yfir 90 ma.kr. í uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins. Stærsta verkefnið er bygging nýs Landspítala við Hringbraut en auk þess hefur verið í gangi stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Á næstu árum verður áfram unnið að uppbyggingu við Hringbraut m.a. auk þess sem fyrirhugað er að byggja nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri.

 

 

Fréttin var uppfærð kl. 16:15, 06.07.2022

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum