Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Önnur stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum komin út

Út er komin önnur stöðuskýrsla verkefnisstjórnar um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Samkvæmt skýrslunni eru stærstu tækifærin til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í orkuskiptum í samgöngum. Verkefnastjórn hvetur til þess að tryggt verði að jákvæð þróun í rafvæðingu bílaflotans haldi áfram og að hugað verði sérstaklega að orkuskiptum í þungaflutningum og fjölgun rafknúinna bílaleigubíla. Eins eru aðgerðir í sjávarútvegi og landbúnaði sagðar nauðsynlegar og að tryggja þurfi áframhaldandi úrbótaverkefni í landnotkun.

Aðgerðir í áætluninni eru alls 50 og eru allar nema ein nú komnar í framkvæmd eða eru í vinnslu.

 

 

Í stjórnarsáttmála er sett fram markmið um 55% samdrátt í losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands. Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands nam 2.716 þúsund tonnum CO2-ígilda árið 2020, sem er 13% samdráttur í losun frá árinu 2005. Til að markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beina ábyrgð Íslands árið 2030 m.v. árið 2005 náist, má losun árið 2030 ekki nema meira en 1,4 milljónum tonna CO2- ígilda.

Verkefnisstjórn telur tímabært að aðgerðaáætlun verði endurskoðuð með skipulögðum hætti. Í þeirri vinnu ætti ekki að einblína á stakar aðgerðir sem viðbrögð við loftslagsvandanum heldur að halda áfram að horfa á lausnir sem nýtast við að draga úr losun heildstætt og tryggja að þær spili vel saman.

Hröð rafbílavæðing og vegvísir í byggingariðnaði

Aðgerðir tengdar orkuskiptum í samgöngum á landi hafa skilað árangri og heldur rafbílum áfram að fjölga hratt, en hlutfall hreinna rafbíla í nýskráningum fólksbíla hækkaði úr 7% árið 2019 í 27% árið 2021. Er hlutfall vistvænna ökutækja yfir helmingur nýskráninga og þegar staða rafbílavæðingar í heiminum er skoðuð er Ísland í öðru sæti á eftir Noregi í nýskráningum rafbíla.

 

 

Byggingariðnaðurinn hefur sett sér metnaðarfull markmið í samvinnu við stjórnvöld um að dregið verði úr kolefnislosun frá geiranum á Íslandi fyrir árið 2030. Markmiðin eru sett fram í vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð sem kom út á vormánuðum á vegum samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs, Byggjum grænni framtíð (BGF). Nú eru 23 af 74 aðgerðum vegvísisins komnar á undirbúnings-/framkvæmdastig eða þeim lokið. Þetta verkefni er dæmi um skýra stefnumótun og markmiðssetningu fyrir tiltekinn geira.

Aukin áhersla á loftslagshagstjórn

Samkvæmt niðurstöðum losunarbókhalds Íslands frá því í vor dróst losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands saman um 5% milli áranna 2019-2020 og var 13% minni en árið 2005, sem er viðmiðunarárið fyrir loftslagsskuldbindingar Íslands.

Sífellt meiri áhersla er á svonefnda loftslagshagstjórn í nágrannaríkjum Íslands og gerð er krafa um að það fjármagn sem notað er í loftslagstengd verkefni skili sér í samdrætti í losun eða aukinni bindingu. Verkefnisstjórn leggur áherslu á að sem mest gagnsæi ríki í ráðstöfun fjármagns og að valdar verði inn í aðgerðaáætlun Íslands aðgerðir sem skila sem mestum ávinningi í átt að markmiðum. Einnig þurfi að tryggja að framreikningar um þróun losunar og eldsneytisspár séu unnar reglulega og tímanlega og að þær endurspegli vel aðgerðaáætlunina.

„Niðurstöðurnar segja okkur að við þurfum að herða okkur í loftslagmálum ef við ætlum að standa við loftslagsmarkmiðin. Draga þarf úr losun sem er á beinni ábyrgð Íslands sem nemur 1,3 milljón tonna af CO2 fyrir árslok 2030 miðað við árslosun 2020. Ljóst er að við þurfum að hafa okkur öll við enda bara sjö og hálft ár til stefnu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Nýsamþykkt rammaáætlun mun vonandi flýta nauðsynlegum orkuskiptum, en við þurfum líka að forgangsraða áherslum og fjármagni í þær aðgerðir sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og sem færa okkur markvisst í átt að settum markmiðum. Stjórnarsáttmáli  ríkisstjórnarinnar kveður á um áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið og er samtal þegar hafið við Samtök atvinnulífsins“

Samtal hafið við atvinnulífið

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá nóvember 2021 kemur fram að stjórnvöld í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið muni setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira. Samtal er þegar hafið við Samtök atvinnulífsins um nálgun á þessu verkefni og þar verður horft til þess að atvinnugeirar setji sér markmið og aðgerðaáætlanir, sem unnar verða í samstarfi við stjórnvöld og hagaðila. Frekari útfærsla á þessari leið verður unnin á næstu mánuðum.

Kostnaðar- og ábatagreining Hagfræðistofnunar HÍ

Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið leitaði til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um gerð kostnaðar- og ábatagreiningu á þeim aðgerðum sem settar eru fram í aðgerðaáætlun.  Í greiningu HHÍ var lagt mat á kostnað og ábata af 22 aðgerðum af 48.

Gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum greiningarinnar í stöðuskýrslunni

Unnið verður áfram að því að bæta mat á árangri aðgerða og greina og skilgreina áfangamarkmið. Samhliða verður unnið að því að bæta framsetningu mælikvarðanna á vef aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, www.Co2.is

Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum 2022

Nánari upplýsingar um stöðu einstakra aðgerða er að finna á vefsíðunni www.co2.is.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum