Hoppa yfir valmynd
12. september 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kaupmáttur varinn og unnið gegn verðbólgu í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023

Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarp ársins 2023 - myndMynd/Eyþór
 

Að verja sterka stöðu og taka markviss en skynsamleg skref fram á við - þar liggur stærsta verkefnið næstu misseri. Þetta er meginstefið í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag og lagt verður fyrir Alþingi 13. september.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu, verja kaupmátt fólks og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga. Annars staðar er dregið úr útgjöldum eftir mikla aukningu síðustu ár, til þess að vinna gegn verðbólgunni og styrkja grunninn til framtíðar. Heildarjöfnuður ríkissjóðs verður neikvæður um 89 ma.kr. 2023 samkvæmt frumvarpinu.

Nýr veruleiki 

Staðan í samfélaginu hefur gjörbreyst frá síðustu tveimur árum. Þá þurfti að ráðast í miklar stuðningsaðgerðir til að verja fólk og fyrirtæki og ýta undir að þau gætu komið sterk til baka eftir heimsfaraldurinn.

Það hefur nú ræst. Einkaneysla hefur aldrei verið sterkari, ferðamenn eru langtum fleiri en vonast var til, um helming íslenskra fyrirtækja skortir starfsfólk og útlit er fyrir að hátt í 10 þúsund fleiri flytji til landsins en frá því á árinu. Efnahagurinn hefur styrkst skref fyrir skref og atvinnuleysi skroppið saman undanfarna mánuði.

 

 

Staða heimilanna styrkst verulega

Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri, en tekjur á mann hafa aukist um 60 þúsund krónur umfram verðbólgu frá 2016. Kaupmátturinn hefur því vaxið um 22% á tímabilinu og hefur þessi lífsgæðaaukning verið varin þrátt fyrir hækkun verðbólgu. Kaupmáttur fullvinnandi láglaunafólks hefur aukist meira en hálaunafólks á tímabilinu.

Í greiningu á skattframtölum Íslendinga frá í júní kemur fram að heildartekjur allra tekjuhópa hafa hækkað undanfarin ár, kaupmáttur aukist og tekjuskattbyrði minnkað hjá öllum hópum nema þeim tekjuhæstu. Þá koma 82% af nettótekjum hins opinbera af tekjuskatti og útsvari frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda. Jöfnuður er óvíða meiri en á Íslandi og hlutfallsleg fátækt mælist hvergi minni í mælingum OECD.

 

Mikill tekjuvöxtur, lækkun vaxta í faraldrinum, sterk staða heimilanna og fjölgun íbúa hafa leitt til mikillar hækkunar íbúðaverðs. Með því hefur eignastaða heimila sem eiga íbúð styrkst verulega, en það þýðir einnig að lengri tíma tekur að safna fyrir fyrstu íbúð.

Hlutfall fyrstu kaupa af öllum íbúðakaupum er þó ekki lægra nú en á undanförnum árum. Kaupendur geta m.a. nýtt tilgreinda séreign til að safna fyrir fyrstu íbúð, auk þess að fá helmings afslátt af stimpilgjöldum. Mikilvægt er að vinna áfram gegn því að skrefin inn á húsnæðismarkað verði þeim mun þyngri. Markmið stjórnvalda er einna helst að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði, en frá 2016 hafa ríki og sveitarfélög úthlutað stofnframlögum fyrir 3.100 slíkar leiguíbúðir fyrir tekjulægri hópa. Margar vísbendingar eru um að verulega sé tekið að hægja á hækkun íbúðaverðs, að íbúðum til sölu sé tekið að fjölga og að framboð nýrra íbúða fari vaxandi frá næsta ári.

 
 

Dregið úr verðbólgu með ábyrgum aðgerðum

Í sumar kynnti ríkisstjórnin breytingar á fjármálaáætlun til að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu, sem endurspeglast m.a. í frumvarpinu. Meðal aðgerða er varanleg lækkun ferðakostnaðar ríkisins, frestun á nokkrum útgjaldamálum til ársins 2024 og lækkun framlaga til stjórnmálaflokka. Sömuleiðis má nefna endurskoðun fjárfestingaráforma, aðhald í ríkisútgjöldum eftir gríðarmikla aukningu undanfarin ár og frestun á hluta af nýju útgjaldasvigrúmi. Engin aðhaldskrafa er hins vegar gerð á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, dómstóla, sjúkratryggingar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir.

Auk aðgerða til að draga úr þenslu og verðbólgu hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að milda áhrif verðbólgu á viðkvæmustu hópa samfélagsins með verulegri hækkun bóta, auk sérstaks barnabótaauka.

Gert er ráð fyrir að stórum hluta aukinna tekna ríkissjóðs vegna verðbólgu verði varið í að viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga og viðmiðunum tekjuskattskerfisins. Bætur almannatrygginga hækka í frumvarpinu um 6%, sem er 1,1% umfram verðbólguspá Hagstofunnar.

 

Tekjur aukast með bættri stöðu

Tekjur ríkissjóðs aukast mikið milli ára, sem skýrist ekki síst af jákvæðri efnahagsþróun, minna atvinnuleysi og fyrirhuguðum aðgerðum til að draga úr þenslu og verðbólgu. Aukningin birtist m.a. í virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti, tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi.

 

Stærsta verkefnið á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum er heildarendurskoðun gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Samhliða miklum árangri í orkuskiptum fólksbílaflotans og sífellt sparneytnari bílum í umferð hafa tekjur ríkisins af ökutækjum og eldsneyti dregist verulega saman. Við því þarf að bregðast með nýjum lausnum, svo áfram megi standa undir öflugu viðhaldi og uppbyggingu í samgöngukerfinu. 

Sístækkandi hópur bíleigenda greiðir mjög lítið fyrir notkun vegakerfisins þar sem tekjur ríkissjóðs af vistvænum bílum eru afar takmarkaðar. Stefnt er að því að fyrirkomulag gjaldtöku miðist í auknum mæli við notkun, en breytingum á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og losunarmörkum á næsta ári er ætlað að marka fyrstu skrefin að nýju kerfi. Þannig eru tekjurnar færðar nær fyrra jafnvægi og stuðlað að því að fleiri bíleigendur taki þátt í óhjákvæmilegum kostnaði við vegakerfið.

Grunnþjónusta styrkt og unnið gegn þenslu

Gert er ráð fyrir hóflegum útgjaldavexti á næsta ári, þar sem hagvöxtur verður nýttur til að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs og unnið gegn þenslu og verðbólgu. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.296,5 milljarðar á árinu 2023, sem er hækkun um 78,5 milljarða frá fjárlögum fyrra árs.

Aukningin er mest til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, en heilbrigðismál eru eftir sem áður langstærsti útgjaldaliðurinn og nema alls tæplega 320 milljörðum króna. Framlög til umhverfismála aukast sömuleiðis talsvert frá fyrra ári, m.a. vegna bindingar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerða til að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða.

 

Framlög til heilbrigðismála hafa aukist um 40 ma.kr. frá árinu 2020. Þar hefur áhersla meðal annars verið lögð á:

  • Aukin rekstrarframlög til sjúkrahúsa
  • Byggingu nýs Landspítala og uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma
  • Aukin framlög til sjúkratrygginga
  • Stöðugt bætta geðheilbrigðisþjónustu
  • Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga

Útgjöld vegna félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækka mest milli ára, og hafa aukist um 33 ma.kr. frá 2020. Útgjöldin hafa m.a. farið í:

  • Stöðugt bætt kjör með styrkingu grunnþjónustu og tilfærslukerfa á borð við örorku- og ellilífeyri í breyttu efnahagsástandi.
  • Stofnframlög til byggingar á hagkvæmu húsnæði, en 3.100 ódýrar leiguíbúðir hafa verið byggðar með stofnframlögum ríkisins frá 2016
  • Auknar húsnæðisbætur til að styðja við þá sem mest þurfa á að halda

Um 26,4 ma.kr. renna til ýmissa nýrra og aukinna verkefna á næsta ári. Þar má m.a. nefna:

  • Auknar fjárheimildir til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði
  • Hækkun framlags til húsnæðisbóta
  • Framlag til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga
  • Uppbyggingu Grensásdeildar Landspítalans
  • Framkvæmdir við lagningu bundins slitlags á tengivegum.
  • Tímabundið framlag vegna aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins á viðkvæma hópa 
  • Hærri fjárheimild vegna reksturs nýrra hjúkrunarrýma.

Fjárfesting hefur aukist verulega undanfarin ár og er yfir langtímameðaltali á næsta ári, þó hún dragist lítillega saman til að vinna gegn þenslu og verðbólgu. Meðal verkefna má nefna: 

  • Byggingu nýs Landspítala þar sem gert er ráð fyrir 13,4 ma.kr. á árinu. 
  • Fjárfestingu í samgöngumannvirkjum fyrir 4,9 ma.kr. 
  • Fjárfestingu í Stafrænu Íslandi og upplýsingatækniverkefnum fyrir 2,5 ma.kr.
  • Framlög til orkuskipta og grænna lausna fyrir 1,6 ma.kr.

Sterk staða í alþjóðlegum ólgusjó

Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað hratt, ekki síst vegna hækkunar orkuverðs, og hætta er á að staðan versni enn meira í Evrópu. Áhrif þessa hafa verið takmörkuð á Íslandi, enda er hlutfall endurnýjanlegrar orku óvíða hærra en hér, sjávarútvegur stendur vel og mikil eftirspurn er eftir innlendri ferðaþjónustu. Erlendir ferðamenn eru nú jafn margir og fyrir faraldurinn. Útlit er fyrir að í ár verði hagvöxtur á Íslandi einn sá mesti meðal aðildarríkja OECD og verðbólga er hér næstlægst í Evrópu á samræmdan mælikvarða. 

Til að standa áfram undir öflugum velferðar- og heilbrigðiskerfum er mikilvægt að ná ekki aðeins tökum á verðbólgunni, heldur byggja upp styrk ríkissjóðs til lengri tíma. Á næsta ári er gert ráð fyrir þeim merku tímamótum að skuldir ríkissjóðs lækka lítillega milli ára í hlutfalli af landsframleiðslu. Árangursrík sala hluta í Íslandsbanka hefur verið mikilvægur þáttur verkefnisins. Söluandvirði 57,5% hlutar ríkissjóðs hingað til nemur um 108 ma.kr., en sú fjárhæð samsvarar rúmlega allri fjárfestingu á næsta ári.

Allar nánari upplýsingar um fjárlagafrumvarp 2023

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum