Hoppa yfir valmynd
12. september 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úthlutun styrkja vegna móttöku barna á flótta

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur lokið úthlutun styrkja til sveitarfélaga vegna móttöku barna á flótta. Stuðningurinn var veittur tímabundið til að styðja við fjölbreytt tómstunda- og menntunarúrræði fyrir börnin og undirbúning skólastarfs í haust.

Sveitarfélögum var boðið að sækja um fjárhagslegan stuðning fyrir allt að 200.000 kr. til handa hverju barni á aldrinum 0–18 ára. Mennta- og barnamálaráðuneytið tók við umsóknunum og úthlutaði styrkjum í tveimur lotum; fyrri úthlutun átti sér stað í maí og sú síðari í dag. Heildarstuðningur til sveitarfélaga nemur rúmlega 40 milljónum króna.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Hugmyndin með stuðningnum var ekki eingöngu að gera sveitarfélögum kleift að taka á móti auknum fjölda barna á flótta heldur einnig að stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu og brúa bilið þar til þau komast í skóla. Það var ánægjulegt að sjá viðbrögð sveitarfélaganna sem buðu börnunum upp á fjölbreytta dagskrá í sumar. Leggjumst öll á eitt við að tryggja farsæld þessara barna.“

Sveitarfélögin hafa boðið börnunum upp á fjölbreytt úrræði svo sem námskeið í íslensku, mynd-, leik- og tónlist, föndri, íþróttum og lífsleikni. Sumarskólar, frístund og fjölsmiðjur tóku á móti börnunum. Þá fengu þau víða sundkort og aðgang að margvíslegum íþróttaæfingum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum