Hoppa yfir valmynd
23. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Eldra fólk hefur virði – vinnustofa um framtíð þjónustu við eldra fólk á Íslandi

Berglind Magnúsdóttir, verkefnastjóri, og Ólafur Þór Gunnarsson, formaður verkefnastjórnar, kynna vegferðina sem fram undan er.   - mynd

Vinnustofa um framtíð þjónustu við eldra fólk á Íslandi fór fram á Hilton í gær. Vinnustofan var hluti af umfangsmikilli vinnu sem nú á sér stað á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og felur í sér heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Þetta er eitt af stærri verkefnum ríkisstjórnarinnar og hverfist um að tryggja skuli eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma.

Fram kom að verkefnið væri að ná að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu og markmiðið væri meðal annars að fjölga því fólki sem tæki virkan þátt í samfélaginu. Þar með að bæta lífsgæði fólks og draga úr þörf þess fyrir flutningi á hjúkrunarheimili eða sjúkrahús. Farið var yfir stöðuna eins og hún var fyrir hálfri öld þegar stór hluti fólks 80 ára og eldri bjó á elliheimilum og þeirri spurningu velt upp hver við myndum vilja að staðan yrði eftir jafnlangan tíma eða  árið 2072.

Vinnustofan var haldin af verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk sem skipuð var í sumar samhliða því sem skrifað var undir viljayfirlýsingu á Kjarvalsstöðum. Um lokaða vinnustofu var að ræða þar sem hagaðilar voru beðnir um að tilnefna fulltrúa sem tækju þátt. Markmiðið var meðal annars að veita verkefnastjórninni tillögur og ábendingar vegna aðgerðaáætlunar til fjögurra ára sem lögð verður fram á Alþingi vorið 2023.

Opinn fundur mun fara fram í nóvember þar sem öll þau sem vilja geta tekið þátt. Að því búnu fara fyrrnefnd drög að aðgerðaáætlun í samráðsgátt stjórnvalda þar sem kostur gefst á að senda inn umsagnir um hana.

Samhliða vinnustofunni í gær fór fram vinnustofa með aðstandendum fólks með heilabilun þar sem þátttakendur útbjuggu svokallað samkenndarkort og voru niðurstöður þeirrar vinnu kynntar undir lok dags. Í máli Magnús Karls Magnússonar, læknis og aðstandanda, kom meðal annars fram sá samhljómur meðal þátttakenda að eftir greiningu hafi tekið við tómarúm sem sannarlega mætti vinna betur með.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, flutti ávarp við upphaf vinnustofunnar og sagði meðal annars að málefni eldra fólks væri eitt af stóru málunum á kjörtímabilinu. Í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem flutti ávarp undir lokin, kom meðal annars fram að mikill ávinningur felist í að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu sem aftur leiði til aukinna lífsgæða eldra fólks.

  • Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, flytur opnunarávarp.  - mynd
  • Unnið í hópum undir stjórn borðstjóra.  - mynd
  • Hvar viljum við vera stödd árið 2072? - mynd
  • Aðstandendur fólks með heilabilun deildu sinni reynslu.  - mynd
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flytur lokaorð.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum