Hoppa yfir valmynd
18. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynningarfundur með ráðherra vegna breyttra reglna um styrki til félagasamtaka

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, býður til kynningarfundar þar sem farið verður yfir breyttar reglur um styrkúthlutun vegna verkefna og starfsemi sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins. Fundurinn fer fram fimmtudaginn 20. október kl. 9:00-10:00 í húsnæði Vinnumálastofnunar að Grensásvegi 9.

Ráðuneytið auglýsti fyrir helgi eftir styrkumsóknum og í fyrsta sinn er nú hægt að sækja um rekstrarstyrki, auk verkefnastyrkja.

„Frjáls félagasamtök hafa lyft grettistaki í mörgum mikilvægum málum á Íslandi. Þau veita stjórnvöldum og fyrirtækjum nauðsynlegt aðhald, sinna margvíslegri þjónustu sem annars væri ekki sinnt og eru mjög góð í því. Þau leggja líka oft framsæknar hugmyndir á borðið sem leitt geta til breytinga sem gera samfélag okkar betra,“ segir Guðmundur Ingi.

„Mörg félagasamtök hafa vakið athygli á skorti á fyrirsjáanleika í fjármögnun frá hinu opinbera og við erum að bregðast við því núna með því að gefa samtökum kost á að sækja um rekstrarstyrki sem geta verið veittir til tveggja ára í senn. Ég er sannfærður um að þetta mun styrkja starfsemi félagasamtaka sem starfa að velferðarmálum.“

Kynningarfundur um nýju reglurnar fer sem fyrr segir fram nú á fimmtudagsmorgun.
Verið öll velkomin.

Umsóknarfrestur fyrir styrkina sjálfa er til kl. 13:00 mánudaginn 14. nóvember 2022.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum