Hoppa yfir valmynd
20. október 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla til Alþingis um stöðu ÍL-sjóðs og næstu skref

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs. Lagðar eru fram sviðsmyndir um mögulega þróun til næstu áratuga sem gera ráð fyrir viðvarandi taprekstri og áhrif þess á ríkissjóð skýrð í ljósi einfaldrar ábyrgðar hans á skuldum sjóðsins. Í einfaldri ábyrgð felst að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda, auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags.

Gert er ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra kynni efni skýrslunnar á Alþingi 25. október næstkomandi.

ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og var stofnaður með lögum nr. 151/2019 sem tóku gildi 31. desember 2019. Markmið uppgjörs og úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs er að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs. Þann fjárhagsvanda má rekja til reksturs og fjármögnunarfyrirkomulags Íbúðalánasjóðs og stórfelldra uppgreiðslna á útlánum sjóðsins á síðustu árum. Ráðherra hefur skipað verkefnisstjórn til ráðgjafar um úrvinnsluna.

Niðurstöður skýrslunnar, sem byggja á stöðu sjóðsins í uppgjöri 30. júní, sýna að sjóðurinn geti greitt afborganir og vexti af skuldbindingum sínum til ársins 2034 og eigi síðar en þá muni reyna á ábyrgð ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að staða sjóðsins þá verði neikvæð um u.þ.b. 260 ma.kr., sem að núvirði eru 170 ma.kr. Til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 ma.kr. eða 200 ma.kr. að núvirði. Ef hins vegar sjóðnum væri slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða nema 47 ma.kr. Á mynd hér að neðan má sjá metinn kostnað ríkissjóðs við uppgjör á ábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs m.v. þessa þrjá tímapunkta og ljóst að kostnaður ríkissjóðs við uppgjör fer vaxandi með tíma.

Taka þarf afstöðu til þess hvernig staðið verði að málum, meðal annars hvort frekari fjármunir verði lagðir til ÍL-sjóðs. Líkt og niðurstaða skýrslunnar sýnir þá mæla rök með því að hafist verði handa við að leita leiða til að slíta ÍL-sjóði svo hægt verði að ráðstafa eignum hans og gera upp skuldir. Gera má ráð fyrir að með hverjum mánuði sem líður aukist kostnaður ríkissjóðs við uppgjör um 1,5 ma.kr., eða 18 ma.kr. á ári. Því er mikilvægt og ábyrgt gagnvart komandi kynslóðum og kröfuhöfum að gengið verði til uppgjörsins fyrr en seinna, óvissa lágmörkuð og viðvarandi taprekstur og hækkun ábyrgðarinnar stöðvuð.

Þá er einnig mikilvægt að kröfuhafar ÍL-sjóðs hafi með góðum fyrirvara skýrar upplýsingar um það hvernig staðið verði að málum af hálfu ríkissjóðs. Ráðuneytið telur mikilvægt að eiga samtal við eigendur krafna og kanna grundvöll samninga um uppgjör og slit sjóðsins sem verður að teljast ákjósanlegasta niðurstaðan og gæti falið í sér hagfellda niðurstöðu fyrir alla aðila. Steinþór Pálsson hefur verið fenginn sem milligönguaðili í því samtali en hann hefur víðtæka reynslu af fjármálamarkaði m.a. sem bankastjóri Landsbankans.

Upptaka af kynningu ráðherra á stöðu ÍL-sjóðs 20.10.2022

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum