Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Auglýst eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og innflytjendaráð auglýsa eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarverkefni og efla rannsóknir á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags.

Við val verkefna sem hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála árið 2022 verður áhersla lögð á verkefni sem stuðla að bættri andlegri líðan innflytjenda og aukinni samfélagslegri þátttöku þeirra, auk þess að vinna gegn fordómum, einangrun og jaðarsetningu.

Sérstaklega verður horft til verkefna með eftirfarandi áherslum:

  • Verkefna sem stuðla að virkri notkun íslensku í gegnum félagslega viðburði og sem styðja við hefðbundið íslenskunám.
  • Verkefna þar sem lögð er áhersla á virkni ungs fólks, annars vegar þess sem er nýlega komið til landsins og hins vegar þess sem hvorki er í vinnu né skóla.
  • Verkefna sem stuðla að inngildingu,* einkum verkefna sem stuðla að jafnri þátttöku innflytjenda og innlendra á jafningjagrunni.

Önnur verkefni sem varða málefni innflytjenda koma einnig til álita. Horft verður sérstaklega til nýsköpunar í stað endurtekinna verkefna, auk þess sem áhersla verður lögð á virkniúrræði á landsbyggðinni.

Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda eru sérstaklega hvött til þess að sækja um.

Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Styrkir geta að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um jafnt á íslensku sem og ensku.

Umsóknarfrestur er til og með 1. desember 2022.

Umsókn sem berst eftir að umsóknarfrestur er liðinn verður ekki tekin til umfjöllunar.

Föstudaginn 11. nóvember kl. 13-14 mun innflytjendaráð standa fyrir opnum kynningarfundi fyrir væntanlega umsækjendur um umsóknarferlið, áherslur ársins og reglur sjóðsins. Fundurinn fer fram á netinu og þátttakendur skrá sig fyrir fram. Hægt verður að velja um fjögur tungumál á fundinum: Íslensku, ensku, pólsku og spænsku.

Frekari upplýsingar fást í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í síma 545 8100 og með tölvupósti á netfangið [email protected].

* Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum