Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Samræmt verklag í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis

     - myndStjórnarráðið

Unnið er að því að innleiða samræmt verklag og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Verið er að forrita og setja upp í sjúkraskrá rafrænt skráningarform sem styður við verklagið. Markmið vinnunnar er að tryggja þolendum heimilisofbeldis sem besta þjónustu og þróa og efla þjónustuna til lengri tíma litið.

Hluti af umbótum í þjónustunni felst í því að framvegis fá allir sem sækja sér heilbrigðisþjónustu vegna heimilisofbeldis tilvísun til félagsráðgjafa með sérfræðiþekkingu á þessum málaflokki. Jafnframt verður boðið upp á þjónustu sálfræðings. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að útbúa og koma á framfæri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk um birtingarmyndir heimilisofbeldis, umfang þess, áhrif og úrræði.

Ákvörðun um að móta samræmt og bætt verklag byggist á niðurstöðum skýrslunnar Heilsa og heilbrigðisþjónusta: kynja- og jafnréttisstjórnarmið sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið á síðasta ári. Skýrslan fól í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónusta mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Í framhaldinu hófst vinna í samstarfi við embætti landlæknis við að móta og samræma verklag vegna heimilisofbeldis og setja upp rafrænt skráningarform í sjúkraskrá því til stuðnings.

Þróun verklagsins er lokið en innleiðing þess helst í hendur við forritun á rafræna skráningarforminu. Stefnt er að því að skráningarformið og samræmt verklag verði innleitt samhliða hjá heilbrigðisstofnunum um allt land á næsta ári.

Hluti af skráningarforminu tekur til skráningar á niðurstöðum vegna réttarlæknisfræðilegrar skoðunar á þolendum ofbeldis en slíkar skoðanir eru gerðar í alvarlegustu ofbeldismálunum. Fyrirkomulag þeirrar skráningar byggist á niðurstöðum þverfaglegs vinnuhóps sem skipaður var af ríkissaksóknara. Markmið er að skoðun og skráning áverka og skráning sönnunargagna fari fram á viðurkenndan máta og stuðli þannig að því að upplýsingarnar nýtist sem best ef til sakamáls kemur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum