Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tækifæri fólgin í alþjóðlegu samstarfi við háskóla í Singapúr

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt fulltrúum HÍ í sendinefnd til Singapúr. - mynd

Íslensk sendinefnd heimsótti Singapúr í nóvember með það að markmiði að kynna sér háskólaumhverfi þar í landi og áherslur stjórnvalda á sviði rannsókna og nýsköpunar, auk þess að efla tengsl Íslands og Singapúr. Sendinefndin, sem leidd var af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, heimsótti þrjá háskóla og kynntist áherslum þeirra í kennslu og rannsóknum.

Singapúr hefur undanfarin ár náð eftirtektarverðum árangri þegar kemur að umhverfi nýsköpunar og uppbyggingu rannsókna- og þróunarstarfs sem á rætur sínar að rekja til öflugs háskólaumhverfis og samvinnu við fremstu háskóla heims. 

,,Við aukum gæði og samkeppnishæfni íslenskra háskóla m.a. með því að efla alþjóðasamstarf. Háskólar í Singapúr eru eftirsóttir á heimsmælikvarða og því fagnaðarefni ef aukið samstarf milli háskóla á Íslandi og í Singapúr verður að veruleika. Ekki aðeins fyrir skólana sjálfa, nemendur og starfsfólk heldur einnig fyrir okkur sem samfélag,” segir Áslaug Arna.

Samkomulag um samstarf við Háskólann í Reykjavík

Meðal þeirra háskóla sem sendinefndin, sem samanstóð af hinum ýmsu aðilum úr stjórnsýslunni, háskóla- og nýsköpunarumhverfinu og fulltrúum íslensks atvinnulífs, sótti heim er Singapore University of Technology and Design (SUTD). Skólinn er tiltölulega nýr, stofnaður árið 2009, en byggir þó á gömlum grunni og leggur áherslu á nútímalega kennsluhætti og hönnunarhugsun til að undirbúa nemendur sem best fyrir tækifæri og áskoranir framtíðarinnar. Þá er rík áhersla lögð á þverfaglegt nám og náið samstarf við atvinnulíf. 

Í kjölfar heimsóknar í SUTD var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf skólans og Háskólans í Reykjavík. Ágúst Valfells, deildarforseti verkfræðideildar HR og þátttakandi í sendinefndinni, segir skólana tvo eiga sér margar hliðstæður, t.a.m. varðandi stærð og starfsemi. 

„Þessi rúmlega tíu ára gamli tækniháskóli hefur markað sér ákveðna stefnu um þverfaglegt nám þar sem hönnunarhugsun er í fyrirrúmi,“ segir Ágúst. „Nemendur sem útskrifast þaðan eru meðal eftirsóttustu starfskrafta Singapúr.“

Þrátt fyrir að stærstur hluti nemenda við SUTD sé í grunnnámi og doktorsnemar hlutfallslega fáir miðað við nemendafjölda er rannsóknarvirkni skólans afar mikil. HR hefur nú gert samkomulag við skólann um að koma á skiptinámi og viðræður um samvinnu á framhaldsnámsstigi eru þegar hafnar. 

Samstarfstækifæri á fjölmörgum sviðum

Ráðherra og sendinefnd kynntust einnig Nanyang Technological University (NTU) sem situr í 36. sæti á lista Times Higher Education yfir bestu háskólaheims árið 2023. Þá skipar skólinn sér í fremstu röð á heimsvísu í greinum á borð við örtækni, eðlisefnafræði og efnistækni (e. material science). Starfsemi þessa rúmlega þrjátíu ára gamla háskóla byggir á metnaðarfullum áætlunum sem gerðar eru til fimm ára í senn, í takt við áherslur stjórnvalda hverju sinni sem m.a. snúa að fjölda erlendra nemenda í landinu, heilbrigðismálum og stafrænni væðingu.

Kennsla í NTU er rannsóknamiðuð og skólinn vinnur náið með iðnaðargeiranum í Singapúr. Þannig eiga t.d. allir nemendur skólans kost á starfsmáni (e. internship) í fyrirtækjum og mikil áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki óháð námsbraut. Líkt og í SUTD leggur NTU einnig áherslu á þverfaglegt nám, svo sem nám þar sem STEM greinar eru kenndar í bland við greinar sem ekki heyra undir STEM. Hér mætti nefna sem dæmi nám í læknavísindum í bland við nám í félagsvísindum eða raunvísindanám í bland við frumkvöðla- og leiðtogafræði. 

,,Það var mjög áhugavert að heimsækja háskóla í Singapúr og sjá hversu hratt stjórnvöld hafa eflt þá hvað varðar rannsóknir síðustu tvo áratugi. Háskóli Íslands er meðal annars í samstarfi við Earth Observatory of Singapore sem er hluti af NTU á sviði náttúruvá m.a. varðandi dreifingu gosefna við stór eldgos eins og Eyjafjallajökulsgosið en mörg stór eldfjöll eru í nágrenni Singapúr. Samstarfið hefur einnig verið á sviði umhverfisverkfræði en þar hafa nemendur HÍ verið í samstarfi um meistaraverkefni á sviði fráveitu," segir Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ.

Háskóli Íslands er þegar með samninga um nemendaskipti við National University Singapore (NUS) og Singapore Management University (SMU) og hafa nemendur HÍ notið góðs af tækifæri til að taka hluta af námi sínu við þessa fremstu háskóla heims. Nemendur frá Singapúr hafa einnig látið mjög vel náminu við HÍ og hefur verið eftirsótt að komast Íslands. Áhugi erá frekara samstarfi milli skólanna á sviði rannsókna og unnið að því að efla það enn frekar. 

„NTU og SUTD starfa báðir á fræðasviðum Landbúnaðarháskóla Íslands og því var sérlega ánægjulegt að heimsækja þá,“ segir Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor LBHÍ. „Stefna SUTD svipar á margan hátt til stefnu LBHÍ þar sem áhersla er lögð á nýsköpun, rannsóknir og kennslu og hvernig þessir þættir styðja við hver annan. Þá er lögð áhersla á að nemendur heimsæki aðra háskóla í náminu og þar eru tækifæri til starfsmanna- og nemendaskipta, t.d. á sviði landslagsarkitektúrs og skipulagsfræði.“

Alþjóðlegt samstarf lykilatriði

Háskólar í Singapúr eiga það flestir sameiginlegt að leggja ríka áherslu á alþjóðlegt samstarf við aðra háskóla. Ráðherra og sendinefnd gafst kostur á að kynna sér dæmi um slíkt samstarf með heimsókn í CREATE stofnun National University of Singapore (NUS) sem  m.a. er í samstarfi við svissneska háskólann ETH í Zurich. Slíkir samstarfssamningar eru þess eðlis að vísindafólk á vegum erlendu háskólanna starfi í Singapúr í tiltekinn tíma að verkefnum sem styrkt eru af singapúrskum stjórnvöldum. Forsenda þessara verkefna er að þau séu innan þess ramma sem stjórnvöld hafa sett með tilliti til áherslna hverju sinni, og nýtist í þágu þeirra markmiða.

Meðal verkefna sem kynnt voru sérstaklega fyrir sendinefndinni er verkefni sem snýr að forvörnum gegn beinbrotum hjá eldra fólki en íslenski vísindamaðurinn Benedikt Helgason, sem starfaði áður fyrir verkfræðideild HR, stýrir þessu samstarfi á sviði heilbrigðistækni fyrir hönd ETH. Fleiri íslenskir fræði- og vísindamenn starfa einnig í Singapúr. Prófessor Karl Tryggvason leiðir rannsóknir í frumulíffræði við Duke Medical School sem heyrir undir NUS og kennir heilbrigðis- og læknavísindi á framhaldsstigi, og hjá honum starfar einnig íslenski vísindamaðurinn dr. Kristmundur Sigmundsson. 

,,Metnaður og ástríða fyrir bæði rannsóknum og þróun náms í hæsta gæðaflokki var rauði þráðurinn hjá öllum háskólunum og áhersla lögð á samvinnu og samstarf háskólastofnana jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi. Það ver sérlega áhugavert að sjá hvernig einn af fremstu háskólum í heimi hefur lagt áherslu á blandað og sveigjanlegt námsform þar sem námsumhverfi og kennsluaðferðir taka mið af þessari nálgun. Þetta reynsla talar vel inn í íslenskan veruleika og þörfina fyrir fjölbreytileika í námsformi með gæði að leiðarljósi,” segir Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri.

 

Ljóst er að sá mikli árangur sem Singapúr hefur náð í bæði rannsóknum og nýsköpun byggir á stefnumótun stjórnvalda og eftirfylgni. Miklu fjármagni er veitt í rannsóknir og nýsköpun og rík áhersla lögð á alþjóðlegt samstarf með það að markmiði að laða alþjóðlega þekkingu til landsins sem svipar á marga vegu til áherslu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra áauðvelda íslenskum fyrirtækjum að ráða til sín alþjóðlega sérfræðinga. Þó svo að stjórnarhættir séu í mörgum tilvikum ólíkir milli Íslands og Singapúr er ljóst að ýmsir snertifletir eru á milli landanna sem fela í sér tækifæri til samvinnu. Árangur í Singapúr byggist ekki síst á langtímaáætlunum og góðum innviðum sem laða að alþjóðlegt hugvit og gera háskólana þar eftirsótta í alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem er í takt við áherslur íslensku háskólanna. Fulltrúar íslensks háskólasamfélags í sendinefndinni hlakka því til framhaldsins enda sammála um að heimsóknin hafi byggt brýr sem nýttar verði til að efla samstarf milli Íslands og Singapúr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira